27.04.1946
Sameinað þing: 43. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í D-deild Alþingistíðinda. (4251)

228. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hv. þm. Mýr. lét þau orð falla hér í gær, að Sósfl. hataði sjálfstæða bændastétt, eins og skoðanabræður þeirra austur í Rússlandi, sem jöfnuðu bændastéttina við jörðu, þegar þeir komu sovétskipulaginu á. En hann gleymdi að geta þess, að þessi rússneska bændastétt er nú einn stærsti landbúnaðarvöruframleiðandi veraldar og hennar framleiðsla líklegust til þess að bjarga frá hungurdauða þeim hundruðum milljóna, er svelta í flestum löndum á meginlandi Evrópu. En hann lét einnig ógert að skýra það, hvað hann og flokkur hans kalla sjálfstæða bændastétt. Líklega á hann við þá bændastétt, sem byggði íslenzkar sveitir á árunum 1930–'36 og æði oft þurfti að yfirgefa sínar eigin verzlanir, kaupfélögin, án þess að hafa fengið þær vörur, sem þeir nauðsynlega þurftu, þá bændastétt, sem varð að gera upp fjárhag sinn í kreppulánasjóðinn fræga, þá bændastétt, sem hundruðum saman varð að yfirgefa jarðir sínar, svo að Búnaðarbankinn eignaðist þær. Þar eru dæmin um hina sjálfstæðu bændastétt Framsfl.

Þá talaði þessi hv. þm. um það, að aðeins einu sinni hefði verið staðið við sexmannanefndarsamkomulagið við bændur, og svo langt gekk hann, að kenna núverandi stjórn um eftirgjöf búnaðarþings á afurðaverði bænda haustið 1944, þannig að það hefði verið hún, sem hefði neitað að greiða útflutningsuppbætur. Það er til íslenzkur málsháttur, sem hljóðar svo, að sá sem býr í glerhúsi eigi ekki að kasta grjóti. Ég veit nú ekki betur en það væri gert löngu áður en þessi stjórn varð til, og gert með fullu samkomulagi Framsfl., sem bezt sést á grein Hermanns Jónassonar í Tímanum 26. sept. það ár. Og þeir, sem voru staddir á hinum sögulega næturfundi í Ed. fyrir nokkrum dögum síðan, er fyrrv. form. flokksins lýsti því fyrir fjölda af þm., starfsfólki þingsins og fullum áheyrendabekkjum, hvernig núverandi foringjar flokksins hefðu látið búnaðarþing taka 8 millj. kr. af afurðaverði bændanna, til þess að kaupa fyrir ráðherrastóla handa sjálfum sér, — þeir kenna ekki Sósfl. um þau kaup. En það var leiðinlegur skaði fyrir fylgismenn Framsóknar úti um land, að ekki skyldi vera hægt að útvarpa því flokksuppgjöri, sem þar fór fram milli fyrrverandi og núverandi formanna flokksins.

Þá var mikið af ræðu hv. þm. Mýr. um verðbólguna og atvinnuvegunum líkt við rótslitna plöntu, sem aðeins gæti hjarað í vatnsglasi um takmarkaðan tíma. Líkingin er skáldleg og eini gallinn á henni, hvað hún er óralangt fyrir utan veruleikann. Hvað segja bændurnir? Skyldu þeir telja atvinnurekstur sinn standa á veikari grunni núna en á kreppulánasjóðstímunum. Hvað segja útgerðarmennirnir? Telja þeir sig standa á veikari grunni en þegar binda þurfti togarana við hafnargarðinn, af því að ekki fengust rekstrarlán og sum félögin voru gerð upp til gjaldþrotaskipta.

Annars tel ég rétt að gera hér stutta grein fyrir aðalorsök verðbólgunnar, og hverjum hún er að kenna. Til þess er fróðlegt að fletta upp skýrslum Landsbankans og athuga seðlamagnið, sem er í umferð innanlands um hver áramót eftir að stríðið byrjaði til 1943. Árið 1939 er það 13 millj., 1940 rúmar 25 millj., 1941 51 millj., 1942 108 millj., 1943 144 millj. En hvernig stendur nú á þessu seðlaflóði? Stríðsgróðinn var að safnast fyrir erlendis, og þá gat verið um þrennt að ræða viðvíkjandi meðferð hans. 1) Að breyta honum í framleiðslutæki, sem flutt væru inn í landið. 2) Að festa hann erlendis og geyma hann þar. 3) Að hleypa honum óbeizluðum inn í landið. Það var gert með stóran hluta, án þess að verðmæti sköpuðust á móti honum innanlands, en þar með var verðbólgunni hleypt af stokkunum. Þegar á einu ári er kastað 57 millj. kr. á innlenda peningamarkaðinn í viðbót við 51 millj., sem fyrir var, án þess að föst verðmæti séu aukin, þá þýðir það, að sá hlutur, sem áður stóð fyrir einni krónu, verður nú að standa fyrir rúmum tveimur. Peningamennirnir, sem vildu fá sinn gjaldeyri fluttan inn, vildu ekki safna honum í skrifborðsskúffu, heldur kaupa fyrir hann, hús, lóðir, jarðir, skip og annað, sem þeir töldu tryggari eign. Þannig voru eignir þjóðarinnar settar á eitt allsherjar uppboð. Og það voru hinir „ábyrgu“ þjóðstjórnarflokkar, sem bera ábyrgð á þessari verðbólgu, sem framsóknarmenn nú virðast hafa fengið, ekki einungis á heilann, eins og stundum er sagt, heldur beinlínis í heilann.

Þá talaði hv. þm. einnig um, að landbúnaðurinn væri olnbogabarnið hjá núverandi stjórn, honum væri að blæða út, af því að unga fólkið færi burt um leið og það kæmist á legg. Sé ég ástæðu til að rekja baráttu Sósfl. fyrir málum landbúnaðarins, og hvað Framsókn hefur þar hjálpað til þess að koma í veg fyrir, að honum blæddi út.

Meðan Sósfl. átti engan fulltrúa á Alþ., mátti telja almenningi trú um, að hann hataði landbúnaðinn. En hér eftir verður það ekki gera. Haustið 1942 nær flokkurinn fyrst áhrifum á Alþ. Þá þegar flytja þrír af þm. hans þáltill. um „ráðstafanir til eflingar íslenzkum landbúnaði“. Er aðalefni hennar þetta:

1. Búnaðarfélagi Íslands skyldi falið að rannsaka, hvar eru heppilegust skilyrði til ræktunar, rafvirkjunar, samgangna o. fl. með stofnun byggðahverfa fyrir augum.

2. Að gera síðan áætlanir um rafvirkjun sveitabyggða og samgöngukerfi sveitanna í samvinnu við aðrar hlutaðeigandi ríkisstofnanir.

3. Að gera tillögur um stofnun fyrirmyndarbúa á ýmsum stöðum í landinu.

4. Að undirbúa löggjöf á grundvelli þessa undirbúningsstarfs og endurskoða gildandi landbúnaðarlöggjöf til að greiða fyrir þróun hans í samræmi við þær niðurstöður, er rannsóknin leiddi í ljós.

Tillagan var samþykkt, en lítið varð úr framkvæmdum. Og til þess að breiða yfir hana, og e. t. v. einnig til þess að sýna elsku sína til landbúnaðarins, flutti Framsókn á næsta þingi till. um að fela nýbýlastjórn að láta rannsaka skilyrði til nýbýlamyndunar og byggðahverfa, hvernig eignarrétti landsins væri háttað, og leggja fyrir Alþ. skýrslu með till. um, hvernig aðgangur að landinu yrði tryggður. Búnaðarþing skipaði milliþinganefnd í málið, og á hennar vegum munu þeir Steingrímur Steinþórsson og Pálmi Einarsson hafa unnið, er þeir gerðu sína áætlun um stofnun byggðahverfa með 400–500 býlum á ákveðnum stöðum í landinu, þar sem þeir töldu skilyrðin heppilegust. Sú áætlun þessara mestu sérfræðinga var í alla staði hin glæsilegasta. Í fyrsta lagi til að beina þróun framleiðslunnar inn á ákveðnar brautir og í öðru lagi til að stöðva a. m. k. nokkuð af fólksstraumnum í sveitunum sjálfum. En það er bara ekki Framsókn, sem hefur haft svo mikinn áhuga fyrir því, að sveitunum blæddi ekki út, að hún hafi nokkuð barizt fyrir þessu máli. Sósfl. er eini flokkurinn, sem hefur barizt fyrir framkvæmd þess, og sú barátta skal rakin.

Í sambandi við dýrtíðarfrv. utanþingsstjórnarinnar fluttu sósíalistar till. um að heimila ríkisstj. að leggja fram úr ríkissjóði 3 millj. kr. til eflingar landbúnaðinum, samfelldrar ræktunar og stofnunar byggðarhverfa. Fellt með atkvæðum framsóknarmanna, vonandi ekki af hatri til landbúnaðarins.

Þegar fjárlög fyrir 1944 voru til meðferðar, fluttu fulltrúar flokksins í fjvn. till. um 4 millj. kr. framlag til nýsköpunar í landbúnaðinum. Felld með atkvæðum framsóknarmanna, án efa af einskærri ást á atvinnuveginum.

Þegar þing kom saman haustið 1944, hafði Sósfl. undirbúið frv. um nýbyggðir og nýbyggðasjóð, er tveir þm. flokksins fluttu í Ed. Eru þar í fyrsta sinn lagðar fram í frumvarpsformi ákveðnar till. um, að ríkið taki þessi mál föstum tökum með skipulegum aðgerðum og margföldum fjárframlögum við það, sem áður var. Þetta frv. var byggt á samþykkt till. 1942, sem í aðalatriðum hafði verið gengið fram hjá af þeim, sem framkvæmdina áttu að hafa. Eru aðalefni frv. þessi: Stofnaður skyldi nýbyggðasjóður af núverandi Byggingarsjóði og nýbýlasjóði og 10 millj. kr. ríkissjóðsframlagi. Mætti auk þess auka stofnféð með vaxtabréfaútgáfu. Auk þess skyldi hann fá árlegt framlag úr ríkissjóði, aldrei undir 800 þús. kr. Hlutverk sjóðsins væri að lána fé til íbúðarhúsa og peningshúsa í byggðahverfum, á nýbýlum, sem reist væru á ræktuðu landi, og íbúðarhúsa á sveitabýlum. Eru þó aðalskipulagsnýmælin í kaflanum um stofnun byggðarhverfa, þar sem gert er ráð fyrir, að ríkið skyldi láta reisa byggðarhverfi á ákveðnum stöðum og býlin síðan leigð einstaklingum til ábúðar. Þetta mál skyldi tekið þannig, að Alþ. samþykkti í fyrstu nokkurs konar byggðarhverfalög, og væru nýir staðir teknir inn í þau eftir því, sem öðrum væri lokið. Þannig yrði kerfið byggt upp eins og vegamál og hafnarmál eftir framhaldandi skipulagningu Alþ. Þegar stofnun byggðarhverfis þannig væri ákveðin, skyldi ríkið láta undirbúa landið til ræktunar, girða, ræsa, leggja vatns- og skolpleiðslur og rækta a. m. k. 6 ha. á býli. Til þessara framkvæmda skyldi ríkissjóður greiða 1 millj. og 500 þús. kr. árlega. Jafnframt því léti nýbyggðastjóri reisa íbúðarhús og nauðsynlegustu peningshús á hverju býli fyrir lán úr nýbyggðasjóði, og tæki ábúandi lánið að sér með býlinu. Að öðru leyti skyldu býlin leigð á erfðafestu og bændur og bændasynir á svæðinu hafa forgangsrétt. Hverju býli skyldi fylgja 6 ha af ræktanlegu landi í viðbót, svo að tryggt væri, að fullræktað gæti býlið haft 12 ha ræktaðs lands. Aftur á móti gerði frv. ekki ráð fyrir stofnun einstakra nýbýla nema við skiptingu svo vel ræktaðra jarða, að hið nýja býli gæti þegar í byrjun fengið a. m. k. 4 ha ræktaðs lands.

Þótt tímans vegna sé hér aðeins stiklað á stærstu punktum, getur hver maður séð, að hér er mörkuð ný stefna, byggð á þáltill. Sósfl. 1942, sem áður er getið. Munurinn frá fyrri löggjöf er einkum þessi:

1. Í stað þess að stofna til dreifðra býla víðs vegar á óræktuðu landi, var hér eingöngu gert ráð fyrir myndun slíkra býla í byggðarhverfum. Þar með yrði komið í veg fyrir það, sem hefur skeð, að nýbýli séu reist við svo óheppileg skilyrði, að útilokað sé, að þau verði byggð til lengdar. Þá fyrst má nota stórvirkar vélar með árangri bæði til ræktunar og bygginga, þegar mikið verk liggur fyrir á einum stað, og þannig mætti lengi telja, ef tími væri til.

2. Í stað þess að hingað til hafa nýbyggjendurnir orðið að reisa býlin og rækta frá grunni, var hér ætlað að skila því í hendur þeirra með nauðsynlegustu húsum og 6 ha túni. Þannig yrðu leyst stærstu vandræði hvers nýbyggjanda, þau, hve erfitt er að koma framleiðslunni í gang. Hann verður oftast að byrja á óarðbærum framkvæmdum, húsabyggingum. Þar næst kemur ræktunin, og þurfi að ræsa landið, geta liðið mörg ár þangað til framleiðslan er komin í viðunandi horf. Án efa er þetta erfiðasta leiðin, sem um er að ræða hér á landi til stofnunar nýrra heimila. Þannig hefur Framsókn búið að landnemum sveitanna, vafalaust af einskærri ást á sjálfstæðri bændastétt.

3. Í stað algers skipulagsleysis var hér gert ráð fyrir að beina þróuninni inn á ákveðnar brautir, í samræmi við þróun annarra atvinnuvega.

4. Fjárframlög til framkvæmda stóraukin jafnframt því, að tryggt væri, að féð kæmi að sem beztum notum.

Ekki reyndist þingvilji fyrir að samþykkja þetta frv., og þótti sumum till. glæfralegar, ekki sízt fjárhagshliðin. Var því frv. vísað til nýbyggingarráðs til athugunar. Nýbyggingarráð tók málið til ýtarlegrar athugunar, eins og önnur mál, sem það hefur fengið til meðferðar og hlotið sífellt hnútukast fyrir í blaði Framsfl. Ráðið sendi Alþ. frv. um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum, sem í öllum aðalatriðum er byggt á hinu fyrra og nú er nýlega orðið að lögum. Að vísu tókst afturhaldsöflum á Alþ. að smeygja inn í þau nokkrum breyt., sem fremur má telja til spillis, en þó ekki svo veigamiklum, að óhætt mun mega telja þessi lög hin þýðingarmestu, er enn hafa verið samþykkt landbúnaðarins vegna. Var sérstaklega lagt kapp á að draga framkvæmdir þessa máls úr tengslum við þá heildarnýsköpun alls atvinnulífsins, er nú fer fram undir forustu nýbyggingarráðs.

Um undirbúning lands til ræktunar og byggðar gilda í aðalatriðum sömu ákvæði og áður eru nefnd, einnig um ræktun og byggingu í byggðarhverfunum sjálfum, nema hvað hluti ríkisins í ræktun hvers býlis er 5 ha í stað 6. Skal ríkið leggja til þessara framkvæmda 2½ millj. kr. árlega í 10 ár, fyrsta sinn 1947.

Þá skal stofnaður byggingarsjóður með 10 millj. kr. stofnfé, og fái hann og 2½ millj. frá ríkinu næstu 10 ár auk vaxtatekna. Einnig heimilt að fjórfalda stofnféð með vaxtabréfaútgáfu, ef þörf krefur. Hlutverk sjóðsins er að lána fé til endurbyggingar íbúðarhúsa á sveitabýlum og til byggingar íbúðarhúsa og peningshúsa í byggðarhverfum og á nýbýlum. Mega lánin nema 75% kostnaðarverðs og greiðast með jöfnum afborgunum, er miðist við það, að vextir séu 2%. Eru það helmingi lægri vextir en þeir, sem beztir hafa tíðkazt áður, og er hér verið að slaka á klóm peningavaldsins gagnvart atvinnuvegunum. Þetta gildir það, að bóndi, sem tekur 20000 kr. lán til að endurbyggja íbúðarhús sitt, þarf að greiða samtals rúm 34 þús. samkvæmt þessum kjörum, en þyrfti að greiða nærri 53 þúsund með 4% vöxtunum, sem Framsókn innleiddi og hélt við. Hér er um að ræða nýtt mat þjóðfélagsins á rétti peningamannanna til okurs á atvinnuvegunum. En Framsókn telur þetta bera vott um hatur Sósfl. á sjálfstæðri bændastétt.

Þá minntist hv. þm. Mýr. á búnaðarmálasjóðinn og hans afgreiðslu. Hann getur nú engum öðrum en sjálfum sér kennt um þau málalok.

Hvers vegna var hann að gera þetta mál að stórpólitískasta máli þingsins, alveg að ófyrirsynju? Í því sambandi var hann að gera grín að einum af sínum kjósendum fyrir að ætla sér að draga kind upp úr feni með því að standa ofan á henni sjálfur. En hefur hv. þm. athugað það, að þarna var hann einmitt að lýsa afstöðu Framsóknar til landbúnaðarins. Framsókn hefur þótzt vilja draga landbúnaðinn upp, en hefur staðið ofan á honum sjálf, og hvort tveggja sekkur meðan flokkurinn ræður.

Þær fáu mínútur, sem ég á eftir, vil ég nota til að minnast á annað mál, sem afgreitt hefur verið og mun síðar verða talið til afreka þessa þings, sem nú er að ljúka. Það eru skólamálin. Eins og landslýð mun yfirleitt vera kunnugt, hefur þing það, sem nú er að ljúka störfum, haft til meðferðar lagafrv. um mjög víðtækar breytingar á skólamálum þjóðarinnar. Almenningur hefur fylgzt með þessum málum af miklum áhuga, vegna þess að greinilega hafa komið í ljós tveir annmarkar á skólakerfi okkar eins og það er nú. Annar er sá, að það er of lítið, er sannast bezt með því, að árlega þarf að vísa frá inntöku í framhaldsskóla fjölda af ungu fólki, er langar til að stunda nám, og í sveitum landsins býr barnafræðslan víða enn þá við sömu skilyrði og fyrst eftir að hún var lögfest 1907, fyrir nærri 40 árum. Hinn gallinn á skólakerfi okkar er skipulagsleysið, þar sem samræmi vantar í störf og kröfur hinna ýmsu skóla. Þær þjóðir, sem lengst eru komnar í skólastarfi, hafa fyrir löngu samræmt skólakerfi sín, þannig að hægt sé að taka námið stig af stigi alla leið til æðstu mennta, að lokapróf hvers stigs veiti réttindi til þess að ganga brotalaust inn ú. hið næsta. Þetta hefur okkur vantað þangað til nú. Nú hefur Alþ. séð sér fært að samþykkja 5 lagafrv. til að bæta úr báðum þessum ágöllum. Eru þar fyrst í röðinni lög um skólakerfi og fræðsluskyldu, þar sem skólakerfinu er skipt í 4 stig: Barnafræðslustig, gagnfræðastig, menntaskóla- og sérskólastig og háskólastig. Er hér lögfest alger samræming, í stað þess glundroða, sem áður hefur verið á þessum málum, og skólaskylda hækkuð úr 14 árum í 15, sem verður að teljast nauðsynleg bót, þótt ekki sé enn þá gengið eins langt og ýmsar aðrar þjóðir hafa gert í því efni. — Þá eru lög um fræðslu barna, sem m. a. ákveða miklu hærri fjárframlög hins opinbera til byggingar nýrra barnaskóla en áður, eða helming stofnkostnaðar heimangönguskóla og þrjá fjórðu stofnkostnaðar heimavistarskóla. Einnig tvenn lög um gagnfræðanám og húsmæðrafræðslu, þar sem sömu ákvæði gilda um framlög ríkisins til stofnkostnaðar og hvað barnaskólana snertir, en kennarar beggja verða fastir starfsmenn ríkisins. — Þá eru einnig samþykkt lög um menntaskóla, er ákveða menntaskóla í Reykjavík og Akureyri og enn fremur skuli hinn þriðji stofnaður í sveit, þegar fé er veitt til þess á fjárl.

Má óhætt fullyrða, að með þessari löggjöf er stigið eitt stærsta spor, sem enn þá hefur verið stigið í menningarmálum þjóðarinnar, og þar með lagður traustasti grundvöllur að sjálfstæði hennar og velmegun.

Hvað hefur svo Framsókn að bjóða þjóðinni, eftir að hafa verið í stjórnarandstöðu hálft annað ár. Jú. Hún getur lýst vantrausti á þessum aðgerðum og öðrum, sem miða til framfara og þjóðinni er kunnugt um. Haldið þið, hlustendur góðir, að þess hafi nokkurn tíma gerzt dæmi, að einn stjórnmálaflokkur hafi jafnáþreifanlega kafnað undir nafni og Framsfl. gerir nú. En vantraust þjóðarinnar mun birtast í fylgishruni Framsfl. við næstu kosningar.