27.04.1946
Sameinað þing: 43. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í D-deild Alþingistíðinda. (4256)

228. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hv. 3. landsk. þm. vék nokkuð harkalega að Sósfl. í sambandi við tryggingal. og bar sig nokkuð upp undan till. flokksins. Í reiðikasti sínu kom hv. þm. með þvætting um till. hæstv. menntmrh. um umbætur á tryggingunum. Frv. sýnir greinilega, að þessar fullyrðingar hans eru tilhæfulausar. Till. hans voru í meginatriðunum í svipuðu formi og l. um almannatryggingar nú.

Það er algerð staðleysa, sem þessi hv. þm. hélt fram, að fulltrúi okkar hefði samþ. að lækka heildarútgjöld til trygginganna. En um hvað stóð deilan í sambandi við afgreiðslu frv.? Ég skal rekja það nokkru nánar. Í fyrstu vildum við hækka ellilífeyri um 25%, en Alþfl. var á móti. Í öðru lagi mótmæltum við niðurfærslu á mæðralaunum. Alþfl. samþykkti þessa réttarskerðingu til fátækra mæðra og ekkna með samningum við Sjálfstfl. Í þriðja lagi lögðum við ríka áherzlu á að smáútvegsmenn fengju nokkuð sama rétt til sjúkradaga og launþegar, en Alþfl. barðist gegn þessu svo lengi sem hann gat. Í fjórða lagi töldum við það ákvæði frv., sem heimilar Tryggingastofnuninni að koma upp skrifstofum og skipa umboðsmenn úti um allt land, alveg óviðunandi. Reynslan hefur sýnt, að Tryggingastofnunin er undir stjórn hv. 3. landsk. raunverulega hrein flokksstofnun Alþfl., og það var ætlun flokksins að byggja sér flokkstæki úti um allt land á kostnað alþýðutrygginganna. Þetta kom gleggst í ljós, þegar reynt var að fá þetta leiðrétt. Alþfl. ætlaði blátt áfram af göflunum að ganga, þegar Sósfl. lagði til, að framkvæmdirnar yrðu áfram í höndum sveitarfélaganna. Gremja hv. 3. landsk. þm. í sambandi við afgreiðslu tryggingal. stafar af því, að hann og hans flokkur varð að láta í minni pokann um mörg þau atriði, sem ég hef minnzt á.

Það lætur eflaust ekki illa í eyrum að heyra frá framsóknarmönnum kvartanir og kvein vegna sjávarútvegsins, sem þeir hafa ofsótt og hindrað í eðlilegum vexti öll sín stjórnarár. En harmagrátur Bjarna Ásgeirssonar, Hermanns Jónassonar og Eysteins Jónssonar um illan aðbúnað að atvinnuvegum landsmanna verður af engum tekinn alvarlega, enda skal ég síðar víkja nokkru nánar að afstöðu þessara manna og þeirra flokks til málefna sjávarútvegsins, þegar á hefur reynt. En það eru furðusögur þessara manna um ástandið við sjóinn, sem rétt er að fara um nokkrum orðum. Í hvert sinn, sem framsóknarmenn komast hér fram fyrir hljóðnemann, þá eru þessar kynjasögur sagðar. Hv. þm. Mýr. (BÁ) lýsti hér í umr. í gær átakanlega, hversu sjávarútvegurinn væri gersamlega mergsoginn og dauðvona. Hann líkti þessum aðalatvinnuvegi þjóðarinnar við rótslitna jurt, sem lífið aðeins tórði í um stundar sakir. Ja, slík meðferð á aðalatvinnuvegi landsmanna! Var ekki eðlilegt, að þessi Framsóknarþm. fylltist gremju? Hann man eflaust glöggt þann tíma, sem sjávarútvegurinn blómstraði undir stjórn Framsóknar. Hver man ekki þá dásemdar tíma? Hver kannast ekki við skuldaskil útgerðarinnar, við launakjör útgerðarinnar og sjómanna frá þeim tíma, við hin dásamlegu vaxtakjör o. s. frv.? Og bóndinn frá Reykjum verður að aðvara þjóðina alvarlega við hættunni. Hann spyr fyrir hönd tog araútgerðarinnar í landinu: Hvað á að halda þessari helstefnu stj. lengi áfram? Á ekki að hætta fyrr en síðasti togarinn er bundinn við bakkann? Það leynir sér svo sem ekki, að þessi hv. þm. þykist vita, að togararnir séu að gefast upp, að þeir séu efalaust margir hættir veiðum. Og hann aðvarar stj. um að bíða ekki með sínar aðgerðir þar til síðasti togarinn er hættur.

Hv. þm. Str. hefur áður sagt hér í útvarpsræðum frá aflakónginum á Suðurnesjum, sem þurft hafi að leggja bátnum sínum og gefast upp vegna hins mikla rekstrarkostnaðar. Og við þetta allt bæta svo framsóknarmenn sögum um það, að engir fáist lengur til þess að kaupa skip eða báta, því að rekstur þeirra sé óhugsandi. Hvað eiga nú svona sögur að þýða? Vita þessir menn ekki betur? Eða eru þeir vísvitandi að leika flón? Trúir hv. þm. Mýr. því, að togaraútgerðin eigi óvenjulega bágt? Heldur hv. þm. Str., að aflakóngurinn á Suðurnesjum sé ekki matvinnungur? Og vita framsóknarmenn ekki, að margir kaupendur eru um hvern fiskibát, sem hægt er að fá? Aflakóngurinn á Suðurnesjum, hann er nú að slá nýtt met í aflamagni í stað þess að hafa gefizt upp, og aflahlutur hásetanna hjá honum mun vera fullar 15 þús. kr. á þeim fjórum mánuðum, sem liðnir eru af vertíð, og sjálfur hefur hann í aflahlut tvöfalda þessa upphæð.

Sannleikurinn um hag útgerðarinnar er allur annar en þessir hv. þm. vilja vera láta. Um allt land færist nú vöxtur í útgerðina. Í svo að segja hvert þorp og hvern kaupstað landsins eru nú að koma nýir fiskibátar. Upp eru að rísa frystihús og niðursuðuverksmiðjur, og áhugi útgerðarmanna og sjómanna er margfaldur við það, sem áður hefur þekkzt. Hitt er svo annað mál, að mörg eru vandamálin, sem að höndum ber. En þeir, sem alltaf standa gegn hagsmunamálum sjávarútvegsins, ættu sem minnst um þau að tala. Undanfarnar vikur og mánuði hefur herstöðvamálið verið eitt aðalumræðuefni íslenzku þjóðarinnar. Hvert mannsbarn í landinu hefur vitað, að erlent stórveldi óskar eftir að fá leigðar herbækistöðvar í grennd við höfuðborg landsins og það til langs tíma. Í umr. í gærkvöld var loks birt sú skýrsla um málið, sem lengi hefur verið beðið eftir. En skýrsla utanrrh. um þetta mál, sem nú hefur verið birt, getur aldrei orðið neitt aðalatriði í þessu máli. Eins og skýrslan glöggt bar með sér, hafa allir flokkar og flestallir landsmenn löngu vitað um kjarna málsins, og af þeim ástæðum hefðu allir getað myndað sér skoðun um það. Engu blaði hefur verið bannað að skrifa um það, sem allir vissu í málinu, og engu blaði hefur auðvitað verið meinað að taka afstöðu og rökstyðja sína skoðun. En staðreyndin er samt sem áður sú, að aðeins blöð okkar sósíalista hafa skrifað um málið frá sjónarmiði þjóðarheildarinnar. Ekkert blað hinna flokkanna hefur fengizt til að taka afstöðu til þess. Þau hafa meira að segja ekki fengizt til að birta fregnir úr erlendum blöðum né eftir erlendum stjórnmálamönnum um þetta mál, ef þær fregnir hafa verið til stuðnings við málstað þjóðarinnar í þessu mikla máli. Sú viðbára hefur verið höfð í frammi, að ekki væri rétt að ræða málið og ómögulegt væri að taka afstöðu til þess fyrr en skýrsla stj. væri birt. Hverju mannsbarni verður nú ljóst, að þetta hefur verið aumleg afsökun og annað hefur ráðið þögninni. Framsfl. hefur reynt eftir ýtrustu getu að gera birtingu skýrslunnar að aðalatriði málsins. En skrif hans og framkoma í málinu hafa frá upphafi verið hin tortryggilegustu. Tíminn hefur varla nokkurn tíma minnzt svo á þetta mál, að aðalatriðið væri ekki árásir á okkur sósíalista fyrir fjandskap við mestu lýðræðisþjóð heimsins. Afstaða okkar í þessu máli hefur sem sagt alltaf heitið fjandskapur í garð vinaþjóðar á máli Framsóknar. Það sama hafa aðrir fengið, sem sömu afstöðu hafa tekið til þessa máls og við sósíalistar. Þegar tveir þm. Sjálfstfl., þeir Gunnar Thoroddsen og Sigurður Bjarnason, tóku skýra afstöðu gegn leigu á herstöðvum, þá réðst blað Framsóknar með ofsalátum að þessum þm. Þá spurði Tíminn með þjósti, hvort þessir þm. Sjálfstfl. væru með leyfi Ólafs Thors að fjandskapast við Bandaríkin. Og þegar Gunnar Thoroddsen leyfði sér að nota svalir alþingishússins til að lýsa afstöðu sinni til málsins, þá var slíkt beinlínis talið til helgispjalla af framsóknarmönnum. Afstaða Framsóknar hefur sannarlega verið óhrein og loðin til aðalefnis þessa máls frá upphafi. Tíminn hefur jafnvel birt ákveðna sölugrein um málið eftir Hilmar Stefánsson. Og síðast en ekki sízt er svo samþykkt aðalfundar miðstjórnar Framsóknarfl. varðandi þetta mál. Þar er beinlínis lögð áherzla á samninga við engilsaxnesku þjóðirnar um öryggismál landsins, eins og það er kallað. Þessi samþykkt var hnefahögg í andlit fjölmargra framsóknarmanna, sem hata þessa tvískinnungsstefnu Hermanns Jónassonar, enda er kunnugt, að eftir miklar umræður á þessum flokksfundi Framsóknar fór svo, að þeir menn á fundinum, sem vildu hreina afstöðu gegn allri leigu á landsréttindum, sátu hjá, vegna vonbrigða sinna, þegar till. var samþ. — Afstaða flokkanna til herstöðvamálsins hefur verið gruggug, og má segja flest hið sama um framkomu Alþfl. og blaða hans og Sjálfstfl. og blaða hans eins og Framsfl. En nú krefst þjóðin skýrra svara og undanbragðalausra. Það er engin afsökun að bíða. Sósfl. hefur svarað, og enginn efast um afstöðu hans. Allir þm. flokksins svöruðu spurningu stúdentanna um þetta mál, og svo skýrt, að enginn vafi lék þar á. Aðeins einn Alþýðuflokksmaður svaraði. Hann svaraði eins og sósíalistar. Það var Barði Guðmundsson. Aðeins 3 þm. Sjálfstfl. svöruðu stúdentunum, og aðeins einn Framsóknarþm. svaraði þannig, að skildist. En þjóðin krefst skýrra svara og það strax.

Ég skal nú að lokum snúa mér með nokkrum orðum að umhyggju Framsóknar fyrir hag fiskimanna og útgerðarinnar, og skal þá jafnframt sýna, hve djarft hún getur úr flokki talað um afstöðu sína til sjávarútvegsins. Ég skal taka hér nokkur dæmi sem sýnishorn af því, hversu vel framsóknarmenn hafa dugað fiskimönnum. þegar þeirra hagsmunamál hafa sérstaklega verið til afgreiðslu. Þegar framsóknarmaðurinn Vilhjálmur Þór var atvmrh. sumarið 1944, gerði hann tilraun til að lækka síldarverðið til sjómanna og útgerðarmanna. Og það var fyrst eftir mikil og hörð átök, að Framsóknarráðherrann varð að láta undan. Niðurstaðan af síldveiðunum þetta sumar varð sú, að þrátt fyrir það að tækist að koma í veg fyrir verðlækkunartilraun Vilhjálms Þór, þá hafði síldarverðið verið skráð allt of lágt og síldarbræðslurnar græddu milljónir króna. Var þessi framkoma Framsóknarráðherrans gerð vegna umhyggju fyrir hag síldveiðimanna? Eða var hún bara venjulegur Framsóknarfjandskapur við sjávarútveginn? Hver var afstaða Framsfl. s. l. vetur þegar ríkisstj. fyrir forgöngu atvmrh. ákvað 15% verðhækkun á öllum ísvörðum fiski og tryggði bátaútgerðinni örugga afskipun fiskiaflans? Gladdist ekki Framsókn yfir bættum hag útvegsins? Nei, ekki aldeilis. Tíminn lét hið dólgslegasta og tilkynnti, að verðhækkunin væri fals, líklegast væri, að hún mundi leiða til beinnar verðhækkunar fyrir fiskimenn. Og s. l. sumar krafðist svo blað Framsfl. þess, að ríkisstj. hætti þegar í stað öllum fiskflutningi og segði færeysku leiguskipunum upp. „Það hefði mátt losna við öll skipin 10. júní,“ sagði Tíminn og réðst á ríkisstj. með venjulegum ofsa fyrir að gera það ekki. Hefði verið farið að þessari kröfu Framsóknar, hefði öll bátaútgerð landsmanna verið lögð niður s. l. sumar. Engir fiskflutningar hefðu getað farið fram, því að öll íslenzku skipin voru þá að fara og farin til síldveiða. Þannig var umhyggja Framsóknar fyrir hag sjómanna og útgerðarmanna þá. Og 15% verðhækkunin, sem veitti útgerðar- og sjómönnum um hálfa fjórðu milljón króna meira fyrir fiskinn en áður hafði gilt, var aðeins ólundarefni fyrir framsóknarmenn.

Nú um s. l. áramót, í byrjun vertíðarinnar, voru enn gerðar víðtækar ráðstafanir að tilhlutan stj. til hagsmuna fyrir útgerðarmenn og sjómenn. Ríkisstj. hefur nú ábyrgzt sölu á 7000 tonnum af saltfiski með um 38% hærra verði en verið hefur undanfarin ár. Fyrir atbeina stj. greiða hraðfrystihúsin einnig 11–12% hærra verð fyrir aflann en þau gerðu. Framsókn veit, að hæstv. atvmrh. hefur haft forustuna um bætta aðstöðu sjómönnum og fiskimönnum til handa, enda fær hann að gjalda þess í blöðum Framsfl. Hvernig tók Framsókn þessum síðustu ráðstöfunum til aðstoðar bátaútveginum? Hún hefur á alla lund reynt að tortryggja þær. Þm. hennar eru látnir halda því fram, að hér sé um útflutningsuppbætur að ræða til sjávarútvegsins, og til þess að spilla fyrir framgangi málsins, er svo trompað gegn þessari aðstoð till. um útflutningsuppbætur fyrir landbúnaðinn.

Það er vitað mál, að saltfiskurinn selst fyrir það verð, sem ríkið hefur ábyrgzt, og þar er því engin áhætta. Þannig er t. d. þegar selt jafnmikið saltfiskmagn fyrir hið tilskilda verð og búið er að framleiða, og það er vitað um fleiri kaupendur. En ef ríkið hefði ekki veitt þessa ábyrgð, hefðu fiskimenn þurft að láta afla sinn fyrir sama saltfiskverð og í fyrra, þar sem saltfisksalan hefði ekki farið fram í vertíðarbyrjun. Það sama er að segja um ábyrgð ríkissjóðs gagnvart frystihúsunum. Framleiðsla þeirra var ekki heldur seld í vertíðarbyrjun. Og þó að þá væri margt, sem benti til verðhækkunar á frystum fiski, var óhugsandi að fá fram verðhækkun til handa fiskimönnum, nema með milligöngu og aðstoð ríkisvaldsins. Þetta vita framsóknarmenn ofur vel, og þeir vita líka, að útgjöld af þessum ráðstöfunum getur ríkissjóður tæplega nokkur haft. En þessi afstaða þeirra er enn eitt dæmið um grályndi þeirra gagnvart útgerðinni.

Í þessu sambandi lét hv. þm. Mýr. (BÁ) þess getið, að hér væri eingöngu um pappírshækkanir á fiskinum að ræða. Þessi fullyrðing hv. þm. er í fullu samræmi við aðrar fjarstæður, sem hann sagði í ræðu sinni um sjávarútvegsmálin. Þó að saltfiskur sé seldur nú fyrir kr. 1,70 kg í stað kr. 1,23 í fyrra, og hraðfrystur fiskur nú á 1,20 kr. pundið í stað 98 aura í fyrra, þá sér hv. þm. ekki þessar hækkanir og vill ekki skilja þær. Það leynir sér ekki, að það eru ekki þess konar hagsmunamál útgerðarinnar, sem miða að bættum kjörum fiskimanna, sem vaka fyrir framsóknarmönnum, en aftur á móti mun þá dreyma nokkuð mikið um lækkun fiskverðsins og möguleika þá um leið til þess að lækka kaupið.

Hver hefur verið afstaða Framsóknar til markaðsmála sjávarútvegsins? Dyggilega studd af öðrum afturhaldsöflum hefur Framsókn fjandskapazt gegn tilraunum til markaðsleita á meginlandi Evrópu. Þegar stjórnin sendi Einar Olgeirsson og Pétur Benediktsson til þess að afla nýrra markaða á meginlandinu, sagði blað Framsóknar, Tíminn, eftirfarandi: „Í stað þess að senda menn vestur í slíkum erindum, hefur ríkisstjórnin sent Einar Olgeirsson í þveröfuga átt og þannig gefið óbeint til kynna, að íslenzka ríkisstj. vilji heldur taka upp austræn sambönd en vestræn.“ Heldur Eysteinn Jónsson, að þessi afstaða miðist við hag fiskimanna og útgerðarmanna, eða vill hann játa, að hún sé þeim fjandsamleg? Sjónarmið íslenzkra fiskimanna er fyrst og fremst það að fá hagstætt verð fyrir afla sinn og skipti við þær þjóðir, sem mestar líkur eru til, að verði framtíðar viðskiptavinir, en hafa ekki sjónarmið Breta, sem eru keppinautar okkar í fiskveiðum.

Og hvar stendur Framsókn í því þjóðarátaki, sem nú er gert til eflingar á fiskiskipaflotanum, til bygginga nýrra verksmiðja o. s. frv.? Hér er þó um mesta hagsmunamál íslenzkra útvegsmanna að ræða. En Framsókn er þar öfug og snúin í öllum greinum. Ekkert gerbreytir eins kjörum þeirra, sem við sjávarstörf vinna, eins og ný skip, nýr fiskiðnaður, nýjar verksmiðjur. En Framsókn ber öllu við, ef eitthvað á að gera í þessum efnum. Þá heitir það á hennar máli glapræði að kaupa nýja togara og ný fiskiskip, á meðan ekki er víst, hverjir ætla að kaupa þau. Þá er ýmist deilt um það, að verið sé að leggja allar bátabyggingar í landinu niður með of miklum bátakaupum erlendis frá, eða það, að aðaládeiluefnið eru bátasmíðar innanlands. Þegar nýbyggingarráð leyfði innflutning á nokkrum 2–5 ára gömlum fiskibátum frá Svíþjóð s. l. haust, þá heilsaði Tíminn þessari ráðstöfun með ofsakenndum árásum á nýbyggingarráð. Tíminn taldi bátana ónýta og sagði í tilefni af innflutningi þeirra, að sýnilegt væri, að með leyfi nýbyggingarráðs væri hægt „að flytja inn jafnúrelt skip og þau úreltustu í íslenzka flotanum.“ Þessir bátar hafa nú þegar fært þjóðinni meiri gjaldeyri en þeir kostuðu, og það sem meira er um vert þeir hafa fært sjómönnum, sem við þá starfa, meira öryggi, betri aðbúnað og margfalt hærra kaup en gömlu bátarnir, sem fyrir voru.

Nú fyrir nokkrum dögum voru afgr. l. frá Alþ., sem tryggja sjávarútveginum 100 millj. kr. til stofnlána. Það var einmitt þegar þessi l. voru samþ., sem Framsókn rauk til og flutti vantraustið. L. þessi eru tvímælalaust langmerkilegustu l. og þýðingarmestu, ekki aðeins fyrir sjávarútveginn, heldur og fyrir allt atvinnulíf landsmanna, sem Alþ. nokkru sinni hefur afgr. Með þessum l. eru lánskjör þeirra, sem kaupa báta og skip, byggja frystihús, niðursuðuverksmiðjur og önnur iðnfyrirtæki í þágu sjávarútvegsins, bætt stórkostlega. Lánin eru hækkuð í 75% af kostnaðarverði og vextir lækkaðir í 2½%. Lög þessi eru alveg sérstaklega þýðingarmikil fyrir atvinnulífið í þorpum og kaupstöðum úti á landi. Dauðinn og kyrrstaðan í atvinnulífinu þar hefur m. a. stafað af fjárskorti til endurnýjunar og uppbyggingar. Bankarnir hafa lítið fé viljað lána til þessara staða. En nú skapast skilyrði til framkvæmda, og það er augljóst á þeim undirbúningi, sem þegar er hafinn víða úti um land, að samkv. þessum l. mun reynast kleift að færa nýtt líf í atvinnuvegi margra þeirra staða þar, sem áður var ekkert hægt að gera. Fólksstraumurinn til Rvíkur hefur ekki sízt stafað af því, að fólkið hefur verið neytt til þess að fylgja atvinnutækjunum og vera þar, sem atvinnan var öruggust. Ráðstafanir, sem miða að því að byggja upp atvinnuvegina úti á landi, eru drýgstu ráðin til þess að draga úr fólksstraumnum til Reykjavíkur. En hver var afstaða Framsóknar til þessa stórmáls? Hún tók yfirleitt undir andstöðu Landsbankans gegn málinu, og Eysteinn Jónsson gaf því þá yfirlýsingu, að það jafngilti nýrri verðbólguuppsprettu. Og hann flutti till. til eyðileggingar málinu. Þannig var afstaða Framsfl. til þessa máls sjávarútvegsins, og þannig hefur umhyggja hans í reyndinni komið fram gagnvart fiskimönnunum.

Tími minn er á þrotum. En að endingu þetta: Vantrauststill. Framsóknar mun ekki reynast hættuleg. En þjóðin mun í kosningunum, sem standa fyrir dyrum — og ekki sízt sjómannastéttin —, lýsa vantrausti sínu á Framsfl.