12.10.1945
Neðri deild: 7. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í C-deild Alþingistíðinda. (4260)

8. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (viðauki)

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Ég held, að þetta sé á misskilningi byggt hjá hv. 2. þm. N.-M. Eftir 1., eins og þau eru nú, er heimilað að ákveða mismunandi verð eftir hinum ýmsu verðjöfnunarsvæðum. Þessi viðbót er gerð einungis til þess að taka af allan vafa um það, að ákveða megi mismunandi verð innan sama verðjöfnunarsvæðis. Ég er í vafa um, að þetta sé nauðsynlegt, því að ég sé ekki neitt, sem mælir á móti því, að heimilað sé að ákveða verðið mismunandi. En það eru aðrir, sem líta öðruvísi á það mál, og ég vildi ekki, að neinn vafi léki á um þetta, því að það hefði getað verið óheppilegt. En hitt held ég, að allir séu sammála um, að ákveða megi misjafnt verð á hinum ýmsu verðjöfnunarsvæðum. Það má gjarnan athuga þetta nánar í landbn., og ef orðalagið teldist ekki nægilega skýrt, eins og það er nú, hef ég ekkert við það að athuga, að því verði breytt í betra horf, en það hefur aldrei verið misskilið.