27.04.1946
Sameinað þing: 43. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í D-deild Alþingistíðinda. (4266)

228. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Ingólfur Jónsson:

Afstaða mín til hæstv. ríkisstj. hefur miðazt við vinsamlegt hlutleysi, og sannast á því, að ég hef stutt ríkisstj. í afgreiðslu margra mikilvægra framfaramála. Það er skoðun mín, að hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. verðskuldi fullt traust Alþ. og alþjóðar. Það mun og mega þakka stjórnmálahæfileikum þeirra og starfshæfni, að ríkisstj. hefur gert margt vel, enda þótt samstarfið við öfgaflokk hljóti að vera erfitt. — Með tilvísun til þessa vil ég nota tækifærið og lýsa trausti mínu á ráðherrum Sjálfstfl. með því að segja nei við vantrausti því, sem hér um ræðir.