15.02.1946
Neðri deild: 68. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í C-deild Alþingistíðinda. (4270)

169. mál, eftirlit með skipum

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. 18. febr. 1944 samþ. Alþ. ályktun um að skora ú, ríkisstj. að skipa nefnd til að endurskoða lög um eftirlit með skipum. Í marzmánuði 1944voru 5 menn skipaðir til að framkvæma endurskoðun þessa og gera till. um breytingar, og var Bárður Tómasson formaður nefndarinnar, en hefur verið erlendis. Þessir menn unnu fram yfir áramót 1944 og '45 og höfðu lokið starfi sínu og samið að mestu frv., sem þetta hér er gert eftir. Er þetta var athugað í ráðuneytinu, var komið fram í febr. eða marz og orðið svo áliðið, að ekki þótti tiltækilegt að bera málið þá fram. En handritið var þá prentað og því útbýtt meðal þingmanna, svo að þeir gætu kynnt sér það fyrir þetta þing. Í upphafi þessa þings var það svo sent sjútvn. þessarar d. með tilmælum um, að hún flytti það. En eftir að sjútvn. höfðu borizt ýmis gögn í málinu, taldi hún rétt, að frv. yrði breytt og ekki rétt að taka það strax fyrir. Og hefur málið verið í þ., þar til 1. febr., en þá fékk ég þetta frv., og það með að samkomulag hefði náðst. — Breytingar hafa verið gerðar frá handritinu í fyrra, og geta þingmenn kynnt sér þær, en þær eru ekki miklar.

Það þarf ekki að ræða nauðsyn þessa máls, um að skipaskoðunin sé í lagi, því að skipskaðar eru orðnir óskiljanlegir, og gefa tilefni til að fara varlega og hafa þetta í lagi til öryggis þeim, sem á sjónum eru. I. kafli frv. er nýr og að verulegu leyti orðskýringar á ýmsum hnitum og ákvæði um það, til hvaða skipa þetta nær, en það er til allra íslenzkra skipa og báta, sem eru 6 metrar eða lengri, og auk þess eru ákvæði um það, hvenær erlend skip skuli koma undir þetta. — II. kaflinn er um það, hvenær skip telst óhaffært, og einnig um skyldur útgerðarmanna og skipstjóra. — III. kaflinn er um skipaeftirlitið. Landinu er skipt í 5 eftirlitssvæði, og eru þau tilgreind í 11. gr. Sérstakur eftirlitsmaður er skipaður yfir hvert svæði. Hverju eftirlitssvæði er skipt í skoðunarsvæði, og er nánar um þau í 14. gr. Skoðunarsvæðin eru 32 að tölu. Skoðunarmenn eru skipaðir yfir hvert skoðunarsvæði. Í þessum kafla eru ákvæði um, hvernig þeir skuli rækja störf sín, bæði eftirlitsmenn og skoðunarmenn, en alveg sérstök fyrirmæli, hvernig eftirlitsmenn skuli athuga haffæri skipa fyrirvaralaust. — IV. kafli er nánar um skoðunina. Er hann ekki ósvipaður núgildandi l. að ýmsu leyti. — IV. kafla eru ákvæði um smíði, búnað, breytingar og innflutning á skipum. Þetta er nýr kafli með hliðsjón af erlendum fyrirmyndum, þ. e. a. s. frá Danmörku, en þó færður til íslenzkra staðhátta, um það, hvernig skip skuli útbúin, skipsskjöl o. fl. M. a. eru hér ákvæði um, hvaða skilyrðum skip skuli að jafnaði fullnægja. Hér eru einnig sérstök ákvæði um farþegaskip. Loks eru í kaflanum ákvæði um nýsmíði innan lands og utan, svo og breytingar á gömlum skipum og innflutning skipa. Þetta er nýr og mikilvægur kafli, og vænti ég rækilegrar athugunar n. á honum. Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meir um hann.

VI. kafli fjallar um hleðslumerki, sem sé hvaða skip skuli með þeim vera, undanþágur o. fl. Einnig eru hér ákvæði um, hvaða vöruflutningar séu takmörkum háðir að því er farþegaskip varðar. Vænzt er hér nánari ákvæða. VII. kafli er um farbann. Hann er nýr og sniðinn eftir norskum og hollenzkum l., en færður til ísl. staðhátta. — VIII. kafli er einnig nýmæli að miklu leyti. Er hér um hollenzka fyrirmynd að ræða að því er siglingadóminn snertir. Ákvæði um skipun hans eru í 49. gr., en greint frá hlutverki hans í 50 gr. En það er að rannsaka brotamál, skera úr um gjaldskyldu og gjaldsupphæð samkv. IX. kafla o. fl. Kaflinn er sniðinn eftir erlendum fyrirmyndum, hollenzkri, sem fyrr var getið, en auk þess að sumu leyti norskri. Hann er þó færður til íslenzkra staðhátta. Að því er innlendar fyrirmyndir snertir, var félagsdómur helzt hafður í huga. — IX. kafli er um gjöld fyrir skoðanir. Aðalsjónarmið n. við útreikning skoðunargjaldanna hefur verið, að kostnaður við yfirstjórn skipaeftirlitsins, skrifstofu þess og hinn almenni eftirlitskostnaður hvíli á ríkissjóði. Hingað til hefur því verið svo háttað, að skipaskoðunargjöldin hafa borið uppi kostnaðinn. Nú er ekki ætlazt til annars en skrifstofukostnaðurinn greiðist úr ríkissjóði. Gjöldin geta orðið misjöfn eftir stærð skipanna, en aldrei er hægt að kveða nákvæmlega á um þau. Í X. kafla eru laun ýmissa starfsmanna ákveðin. Tekur skipaskoðunarstjóri laun samkv. II. flokki launalaganna, en sérfróðir ráðunautar samkv. V. fl. og eftirlitsmenn samkv. VI. fl. Allir embættis- og sýslunarmenn, sem nefndir eru í kaflanum, taka laun sín úr ríkissjóði. — XI. kafli er svo um refsingar, svipting réttinda o. fl. — XII. kafli fjallar að endingu um gildistöku laganna o. fl.

Ég sé ekki ástæðu til að fara nánar út í þetta og vænti þess, að þær skýringar, er frv. fylgja, nægi án lengri framsögu. Bezt er að lesa grg. frv. og afla sér þar skýringar á ýmsum atriðum.

Eins og ég sagði áðan, munu þm. gera sér ljóst, hve mikilvægt það er, að skoðunin sé í lagi, og þetta frv., ef að l. verður, ætti að tryggja það. Ég veit, að allir hv. þm. vita, hvílík nauðsyn er skipulags og öryggis í þeim efnum, er hér um ræðir. Þetta frv. gengur í þá átt að ráða bót á núverandi ástandi.

Ég vona, að hv. þdm. greiði götu frv. sem bezt, og vænti þess, að það gangi til sjútvn.