07.02.1946
Sameinað þing: 25. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í D-deild Alþingistíðinda. (4289)

97. mál, afnotagjald útvarpsnotenda

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Herra forseti. Þeir, sem þekkja til útvarpsnota úti um landið, vita, hve miklir erfiðleikar eru hjá útvarpsnotendum þeim, sem þannig eru settir, að þeir þurfa að nota rafhlöðutæki, en geta ekki notað straumtæki, og munurinn á aðstöðunni að þessu leyti hjá þeim annars vegar og hins vegar þeim, sem hafa straumtæki. Þeir fyrrnefndu verða að afla sér rafgeyma (sýrugeyma) og margra rafhlaðna yfir árið, til þess að geta haft viðtæki sín í notkun svo vel fari. Þó vill, þrátt fyrir þetta, oft bera út af þessu, þegar rafhlöðurnar, sem hafa verið keyptar fyrir á fimmta tug króna, eru þrotnar, því að þó að þær eigi að endast svo mánuðum skipti með venjulegri notkun, þá vill stundum til, að þær endist ekki nema svo sem tvær vikur eða mánuð. — Í grg. fyrir þessari þáltill., sem við höfum borið fram, ég og hv. þingmenn Skagf., er gerð grein fyrir því, hve mikill munur er á rekstrarkostnaði útvarpstækis eftir því, hvort það er straumtæki eða rafhlöðutæki.

Útvarpsstjóri hefur birt sem svar við því, sem við flm. till. þessarar berum þar fram, að hann telur, að við reiknum þennan kostnað við rafhlöðutækin of háan, á fjórða hundrað kr. á ári, miðað við afnotagjald og kostnað við rafgeyma og rafhlöður. Í svari til útvarpsstjórans aftur sundurliðum við þennan kostnað, og sú umsögn okkar stendur óhrakin, og þar er gert ráð fyrir, að þessi kostnaður verði á ári um 350 kr. Þetta sýnir, hve mikill munur er á kostnaði við rekstur rafhlöðutækis og hins vegar straumtækis, en rekstur hins síðarnefnda mun ekki kosta nema örfáa tugi króna á ári.

Ég vil taka fram í sambandi við það, sem tekið er hér fram í grg., þar sem við teljum þá munu vera nú á milli 4 og 5 þús., sem greiða afnotagjald, en ekki hafa straumtæki, að útvarpsstjóri telur þá miklu færri en við höfum gert ráð fyrir, eða ekki nema eitthvað á fjórða þúsund notendur, sem hafi rafhlöðutæki. Ég vil enn fremur taka það fram, að eins og hv. þm. er kunnugt, sem hafa athugað fjárl. fyrir þetta ár, er áætlað, að viðtækjaverzlunin skili eitthvað um hálfrar millj. kr. hagnaði. en mikill hluti af hagnaði þessarar verzlunar liggur í hagnaði á innkaupum og sölu á rafhlöðum og geymum. Þannig verður það, sem viðtækjaverzlunin græðir, fyrst og fremst verzlunarhagnaður á rafhlöðum og geymum sem hún selur þeim og notendum útvarps, sem ekki hafa straumtæki. Og það lítur út fyrir, að það sé ekki lítið fé. Þannig eru þeir aftur á þennan hátt settir miklu lakar en aðrir útvarpsnotendur. Þeir greiða raunverulega miklu meira til hagnaðar útvarpsins en hinir, sem straumtækin hafa, meðan þeir þó greiða jafnhátt afnotagjald, auk þess sem þeir greiða sem kemur fram sem gróði viðtækjaverzlunarinnar. — Á þetta vil ég benda nú, þar sem það e. t. v. hefur ekki verið athugað áður nógu rækilega.

Ég tel ekki ástæðu til þess að tefja mjög tímann með umr. um þetta mál. Það liggur hér fyrir nokkuð skýrt, og hefur verið rætt fyrr hér á Alþ., sem hv. þm. muna.

Hér liggur fyrir brtt. við þáltill. frá hv. þm. Borgf., en ég sé ekki ástæðu fyrir mig til að ræða um hana, þar sem í henni kemur fram allt annað sjónarmið en er í þáltill., sem sé að lækka afnotagjald allra útvarpsnotenda frá því, sem nú hefur verið ákveðið, og er brtt. byggð á því að flm. hennar telur ekki þörf á að flýta svo byggingu húss fyrir útvarpið sem nú er ráð fyrir gert. En okkar till. í þáltill. er að jafna nokkuð aðstöðu útvarpsnotenda, þannig að sízt eigi að taka mest fé til útvarpsins af þeim notendum, sem stopulast hafa þess not.

Ég legg til, að umr. þessari verði frestað og þáltill. vísað til fjvn. til athugunar.