08.03.1946
Sameinað þing: 31. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í D-deild Alþingistíðinda. (4294)

97. mál, afnotagjald útvarpsnotenda

Frsm. meiri hl. (Sigurður Kristjánsson) :

Herra forseti. Eins og nál. meiri hl. fjvn. á þskj. nr. 425 ber með sér, þá gat fjvn. ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Minni hl. hefur gefið út sérstakt nál. og mun gera grein fyrir sínu áliti. Fyrir hönd okkar meirihlutamanna, sem erum sex, skal ég taka það í fyrsta lagi fram, að við töldum rétt að fallast á brtt. hv. þm. Borgf., sem gerir öllum útvarpsnotendum jafnt undir höfði að því er snertir afnotagjald. Ég þarf ekki að gera sérlega mikla grein fyrir þessu. Það hefur hv. flm. brtt. gert. En á það má benda, að það hefur áður komið til mála hér á hæstv. Alþ. að hafa útvarpsafnotagjaldið mismunandi, og hefur ekki fengið neinar undirtektir, og ástæðan fyrir því er sú, að notkun útvarps er ákaflega dýr, þó að notuð séu straumtæki, því að viðgerðarkostnaður er, eins og menn vita, ákaflega mikill á þessum tækjum, sem eru notuð ákaflega mikið í kaupstöðum og þorpum. Rekstur þeirra verður þess vegna mjög dýr, og má varla á milli sjá, hvor reksturinn verður dýrari, á rafhlöðutækjum eða straumtækjum. Hitt er þó aðalatriðið, að við í meiri hl. fjvn. viljum ekki fallast á, að útvarpsafnotagjaldið hækki frá því, sem það hefur verið áður.

Hv. minni hl. n. hefur nú fært þau rök fyrir sínu máli, því að vísa málinu frá með rökst. dagskrá, að þetta mál sé mál ríkisstj., þar sem ráðh. sé falið að ákveða þessi gjöld, og telur minni hl., að Alþ. geti ekki skorizt þar í leik, hafi ekki um það að segja. Vitanlega er nú þetta allt byggt á misskilningi. Mér þykir mjög merkilegt, að hv. minni hl. n. skyldi tjalda þessum rökum fyrir sínu máli. Því að enda þótt ríkisstj. sé falið að ákveða útvarpsafnotagjaldið í samráði við útvarpsstjóra, þá er það ekki neitt, sem ríkisstj. er gefið einræði um um aldur og ævi. Alþ. á auðvitað rétt á því að láta sinn vilja í ljós. Og ekki aðeins það, heldur er Alþ. skylt að láta sinn vilja í ljós, og ekki sízt ef ríkisstj. hefur aðrar skoðanir á þessu en Alþ. hefur. Og þessi þáltill. er ekkert annað en það að láta í ljós vilja Alþ. um það, hvort afnotagjöldin skuli hækka eða ekki, og það er þess vegna algerlega misskilningur hjá hv. minni hl. n. að halda því fram, að þetta sé fyrir utan verksvið Alþ. Það er helzt á áliti hv. minni hl. að skilja, að meiri hl. n, vilji leggja til, að tekið sé fram fyrir hendurnar á ríkisstj. og af henni það vald, sem hún hefur að l. í þessu efni. En þessu fer alls fjarri. Till. meiri hl. n. eru um ekkert annað en að skora á ríkisstj. að framkvæma sitt vald á þann hátt, sem í þáltill. á þskj. 164 og brtt. á þskj. nr. 425 segir. En rök meiri hl. fjvn. fyrir því að vilja ekki hækka afnotagjöldin eru fyrst og fremst þau, að það er alveg sýnt og sannað með rekstri útvarpsins, að því er séð fyrir alveg nægum tekjum með þeim afnotagjöldum, sem nú eru. Ég vil benda á það, að í áætlun um tekjur og gjöld útvarpsins á yfirstandandi ári á núverandi fjárl. er gert ráð fyrir miklum .tekjuafgangi. Það er gert ráð fyrir því, að tekjuafgangurinn verði yfir 1½ millj. kr. Því fer þess vegna alveg fjarri, að útvarpið hafi til rekstrar þörf á því að hækka afnotagjaldið. Hins vegar er rétt að taka það fram, sem ég hygg, að sé álit allra okkar meirihlutamanna, að afnotagjöldin eru alls ekki há miðað við það, sem menn verða nú að borga fyrir ýmis önnur lífsþægindi. En við meirihlutamenn í n. getum ekki séð, að það geti orðið neinum til meins, þó að ekki séu allir hlutir í geipiverði, sem menn veita sér til lífsbjargar og lífsþæginda, og megi því selja þessa hluti við því verði, sem hentast er og vel er hægt að selja þá.

Með þessari hækkun, sem ætlunin er að framkvæma á afnotagjöldunum, mun vera ætlazt til þess, að útvarpið leggi nú þegar í stórbyggingu. En meiri hl. fjvn. vill láta það koma fram, að hann telur þetta mjög varhugavert. Ég hef heyrt, að samkv. áætlun muni þessi bygging kosta um 9 millj. kr. Og eftir því sem aðrar áætlanir standast nú um byggingar, þá er það ekki mikil fjarstæða, þó að maður gizki á það, að þessi bygging komi til með að kosta á annan tug millj. kr. Nú er það svo, að þó að ætíð sé hægt að segja um slíka hluti, að þeir horfi til menningar og að skemmtilegt sé að eiga fullkomnar og fagrar byggingar, þá er það orðið nokkuð áberandi í þjóðarbúskap okkar að leggja í stórar byggingar, sem eingöngu eru til skrauts, en ekki á nokkurn hátt til þess að létta lífsbaráttu þjóðarinnar. Og þegar maður lítur á þetta sem ætlað er á fjárl. til bygginga, en þó alls ekki er ætlað til þess að bæta híbýli almennings í landinu, þá sýnist nokkuð gífurlegt að bæta þar við þessari stóru höll nú þegar. Enn er á það að benda, að það er alls ekkert víst, að fáanlegt sé ótakmarkað byggingarefni til landsins, og bygging útvarpshallar mundi þess vegna verka í þá átt að hefta íbúðarhúsabyggingar almennings, því að maður getur búizt við, að aðili, sem hefur eins sterka aðstöðu og ríkið sjálft, mundi geta setið fyrir byggingarefni, sem til landsins flyzt, ef það vill. — Og loks er á það mjög alvarlega efni rétt að benda, að ríkið hefur með opinberum framkvæmdum — og á það hef ég áður minnzt hér — stofnað til svo harðvítugrar samkeppni við atvinnuvegina um vinnuaflið í landinu, að það er óhugsandi annað en að hver hv. þm. hljóti að líta á það sem mjög alvarlegan hlut. Það er þegar komið í ljós, og mun miklu meira koma í ljós síðar á þessu ári, að þetta er svo alvarlegur hlutur, að þetta getur orðið til þess að draga stórkostlega úr framleiðslu þjóðarinnar.

Ég held, að þessi atriði, sem ég nú hef lagt áherzlu á: í fyrsta lagi, að ríkisútvarpið hefur enga þörf fyrir hækkun á afnotagjaldinu til rekstrar síns, — í öðru lagi, að það er mjög vafasamt, hvort svo mikill innflutningur fæst á byggingarefni, að byggingarefni í þessa höll megi missast frá því að byggja yfir fólkið, — og loks það, að hér er enn stefnt til hinnar harðvítugustu samkeppni við framleiðslu þjóðarinnar um vinnuaflið, — ég held, að þessi þrjú atriði séu alveg nægilegar ástæður til að rökstyðja okkar mál, sem leggjum til, að þáltill. verði samþ. með þeirri breyt., sem prentuð er á þskj. 425.