08.03.1946
Sameinað þing: 31. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í D-deild Alþingistíðinda. (4295)

97. mál, afnotagjald útvarpsnotenda

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að fjvn. varð ekki öll sammála um þetta mál. En ég vil þó, til leiðréttingar því, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, taka fram, að það kemur beint fram í nál., að minni hl. n. lítur svo á, að það sé þýðingarlaust að samþ. þessa þáltill., vegna þess að hún ein út af fyrir sig, þó samþ. verði, taki ekki valdið af ráðh. til þess að láta þetta gjald standa óbreytt yfir árið 1946 eins og það áður var, og vil ég færa nokkur rök fyrir því. Í 6. gr. l. um þetta efni frá 1934 stendur alveg ákveðið, að ráðh. eigi að ákveða upphæð útvarpsafnotagjaldsins fyrir eitt ár í senn, að fengnum till. útvarpsstjóra og útvarpsráðs. Hér er í þáltill. hins vegar skorað á viðkomandi ráðh. að víkja frá þessum rétti sínum. En viðkomandi ráðh. hefur hins vegar marglýst yfir því við fjvn., að hann mundi ekki víkja frá ákvörðun sinni um þetta gjald fyrir árið 1946, þannig að það verði hærra en áður, og hefur tjáð, að undirbúningur sé hafinn undir prentun eyðublaða í samræmi við þá fyrirskipun.

Árið 1942 var samþ. þáltill. hér á Alþ., sem líkt stóð á með, þar sem mikill meiri hl. alþm. samþ. áskorun um það, að kosin væri nefnd af Alþ. til þess að úthluta bifreiðum, algerlega gegn þeim rétti, sem þáv. ráðh. hafði til þess að ráðstafa bifreiðum samkv. l. um einkasölu á bifreiðum. Viðkomandi ráðh. lýsti þá einnig yfir því, að hann mundi ekki telja sig skuldbundinn af þessum vilja Alþ., svo lengi sem l. stæðu óbreytt um það atriði. Og hann fór ekki heldur eftir þessum vilja Alþ. Út af því urðu svo málaferli, þar sem menn, sem hafði verið úthlutað bifreiðum frá nefndinni, sem Alþ. hafði kosið, vildu ekki beygja sig undir úrskurð ráðh. um það, að þeir fengju ekki tilteknar bifreiðar. Þeir höfðuðu skaðabótamál á hendur ríkisstj. út af þessu, og dómur gekk hjá hæstarétti um það, að ráðh. hefði í þessu efni haft rétt fyrir sér og hefði ekki skyldur til þess að fara eftir þessum vilja Alþ., þó að meiri hl. Alþ. hefði samþ. þá áskorun á Alþ., sem ég gat um. — Nákvæmlega það sama gildir hér í þessu máli. Það er að sjálfsögðu meinlaust að samþ. þessa þáltill., en ráðh. er ekki skuldbundinn af þeirri viljayfirlýsingu Alþ. Hitt er svo rétt, að Alþ. hefur á hverjum tíma rétt til þess að segja álit sitt um þetta atriði á annan hátt, þ. e., ef það vill breyta því ákvæði 6. gr. viðkomandi l., sem ég nefndi áðan, og taka af ráðh. með lagabreyt. valdið til þess að ákveða upphæð afnotagjaldsins. Það getur Alþ. gert, ef það vill, og ef meiri hl. Alþ. vill taka valdið af ráðh. í þessu efni, ætti hann að fara þá leið að reyna að fá 6. gr. l. breytt um þetta atriði.

Ég vil þá koma nokkuð að hinu atriðinu, sem hv. frsm. meiri hl. n. minntist á, að ekki væri þörf á að hafa þetta gjald svo hátt sem ráð er fyrir gert, vegna hinna miklu tekna útvarpsins, og ekki þörf á að verja stórum upphæðum til þess að byggja útvarpshöll. Um þetta er ég hv. meiri hl. n. ekki sammála. Hv. frsm. meiri hl. fjvn. veit vel, að sett var á síðustu fjárl. upphæð, 1080000 kr., sem ákveðið var, að verja skyldi til byggingar útvarpshallar í Reykjavík. Hv. fjvn. gerði brtt. við þennan lið og vildi láta setja við þessa upphæð, að þetta yrði lagt til hliðar til frekari ákvörðunar Alþ. síðar meir. Þetta er hv. frsm. meiri hl. fjvn. vel kunnugt um. En meiri hl. hv. alþm. felldi þessar till. fjvn. og lét standa í fjárl., að þessum 1080000 kr. skuli varið til byggingar útvarpshallar í Reykjavík. Það er því ákveðið með ákvæðum fjárl., að þetta fé skuli notað til þess að byggja útvarpshöll. Ég minntist á þetta sem form. fjvn. við viðkomandi ráðh. og útvarpsráð, að samkv. l. nr. 68 frá 1934 hefði ekki útvarpsráð heimild til þess að nota þetta fé til þess að byggja útvarpshöll fyrir, nema með sérstökum l. frá Alþ. Þá vísaði hæstv. ráðh. í 2. gr. sömu l. og taldi, að hann hefði þar heimild í 2. málsgr. til þessa, þar sem stendur, að tekjum ríkisútvarpsins og starfsgreina þeirra, sem reknar verði á vegum þess, megi eingöngu verja í þágu útvarpsrekstrarins og útvarpsnota. Hæstv. ráðh. taldi, að þarna hefði hann heimild, skildist mér, til þess að verja þessum tekjuafgangi eins og honum sýndist. En ég er alveg annarrar skoðunar um þetta og leyfi mér að benda á það, að í 1. gr. þessara sömu l. er alveg ákveðið tekið fram, að það þurfi að leita heimildar hjá Alþ. til þess, að hægt sé að stækka eða byggja fyrir ríkisútvarpið. Ég tel því, að þó að þessara tekna sé aflað af ríkisútvarpinu og stofnunum, sem starfa á vegum þess, þá hafi Alþ. alltaf tækifæri, hvenær sem er, til að neita ráðh. um meira fé en þegar hefur verið veitt, til þess að byggja þessa höll.

Ég vil taka það fram, að ég er sammála meiri hl. n. um það, að ekki er rétt að leggja sérstakan skatt á þjóðina, en ég er ósammála honum um það, að þótt þessi till. verði samþ., geti hún á nokkurn hátt skert vald ráðh., og þess vegna leggjum við minnihlutamenn til, að till. verði vísað frá með rökst. dagskrá, sem þegar hefur verið lögð fram.