08.03.1946
Sameinað þing: 32. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í D-deild Alþingistíðinda. (4312)

97. mál, afnotagjald útvarpsnotenda

Þórður Benediktsson:

Aðeins nokkur orð frá minni hl. Ég lít svo á, að þáltill. á þskj. 164 sé móðgun í garð ráðh., útvarpsstjóra og útvarpsráðs, þar sem skorað er á ríkisstj. að breyta því, sem aðilar áður hafa ákveðið um þetta efni lögum samkvæmt. Ef ríkisstj. lítur svo á, að sér beri að fara eftir vilja Alþ., þá hefur það þær afleiðingar í för með sér, að Ríkisútvarpið missir af rösklega einni millj. kr. En þessi 40 kr. hækkun á afnotagjaldinu, sem gilda á aðeins í eitt ár, er ekki stór liður á búreikningi, og ég trúi því ekki, að útvarpshlustendur sjái eftir að leggja fram þessar krónur í byggingarsjóð útvarpsins. Það býr nú við algerlega óviðunandi húsakost, sem stendur því fyrir þrifum, en þar að auki stendur það í vegi fyrir stækkun bæjarsímakerfisins. Þess vegna er mikil þörf á nýju húsi. Á fyrstu árunum var útvarpið dægradvöl, en nú má segja, að það sé orðið nauðsyn. Mér þætti gaman að sjá upplitið á mönnum, ef það ætti að taka útvarpið af þeim. — Ég lít svo á, að útvarpið verði að eignast gildan byggingarsjóð og bezt sé að nota tækifærið á meðan 40 kr. eru lítill liður á búreikningi manna. — Senn líður nú að því, að sjónvarpið verði almennt, og ef ég þekki Íslendinga rétt, hygg ég, að þeir láti sér ekki lynda að verða síðastir að taka það upp. Við verðum að fá sjónvarpið, og ekki verður það starfrækt nema í stórhýsi.

Ég vona, að hv. alþm. sýni útvarpinu góðan hug og að eigendur viðtækja sjái ekki eftir lítilli fjárupphæð til þessarar stofnunar, sem orðin er nauðsyn.