08.03.1946
Sameinað þing: 32. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í D-deild Alþingistíðinda. (4316)

97. mál, afnotagjald útvarpsnotenda

Frsm. meiri hl. (Sigurður Kristjánsson) :

Herra forseti. Hv. þm. Dal. hefur að vísu tekið nokkuð af því fram, sem ég þurfti hér að undirstrika. Það, sem hv. frsm. minni hl. n. lagði áherzlu á, er hið sama og felst í rökst. dagskránni að því undanskildu, að hann lýsti yfir, sem er frá hans brjósti, að ég hygg, að með þessu verði ekki, lögð á hærri útvarpsgjöld en árlega voru innheimt á síðustu árum, og að ekki verði lagt í byggingu útvarpshallar. Hinu heldur hann enn þá fram, að ekki komi til mála, að Alþ. láti annan vilja í ljós en þann, sem viðkomandi ráðh. hefur í þessum efnum. Í þessu liggur svo mikill misskilningur, sem ég lagði áherzlu á í framsöguræðu minni og hv. þm. Dal. hefur og gert. Í fyrsta lagi er alls ekki farið fram á það í þáltill. að taka nokkurt vald af ríkisstj., heldur er hér aðeins um áskorun til ríkisstj. að ræða. Ef till. verður samþ., þýðir hún aðeins yfirlýsingu frá hv. Alþ. um þessi efni, en svo er það á valdi hæstv. ráðh., hvað honum virðist bera að gera í málinu. Það er alkunnugt, að algengt er, að Alþ. láti í ljós vilja sinn til ríkisstj. um framkvæmdir á ýmsum málum, sem hún annast framkvæmd á eða hefur lagalegan rétt til, og ef sá háttur á að takast upp, að Alþ. leyfist ekki að láta í ljós vilja sinn í slíkum tilfellum, þá er það ekkert annað en uppgjöf hjá Alþ. um það að vilja eiga nokkra hlutdeild í framkvæmdavaldinu.

Þegar hv. frsm. minni hl. hélt sína ræðu, var alveg ósannað mál, hvort hæstv. ráðh. mundi fara eftir vilja Alþ. eða ekki, ef þáltill. yrði samþ. Nú hefur hæstv. ráðh. látið í ljós, að hann muni vilja fara eftir samþ. Alþ. í þessu máli, hver sem hún verður. En ef hún yrði á þá leið að innheimta ekki hærri afnotagjöld en þau voru síðastliðið ár, þá vildi hann fá að vita um það, hvort það þýddi, að Alþ. ætli sér á annan hátt að leggja fram fé til fyrirhugaðrar útvarpshallar. Ég tala að sjálfsögðu ekki fyrir hönd Alþ., það verður að láta vilja sinn í ljós við atkvgr. um þáltill., — en tala hér fyrir munn 6 manna í fjvn. Er vilji þeirra í fullu samræmi við þann, er var í n., þegar síðustu fjárl. voru afgr., en hann er sá, að n. hefur verið því mótfallin, að útvarpsgjöld yrðu hækkuð og alveg sérstaklega í þeim tilgangi að byggja útvarpshöll fyrir það, af því að meiri hl. n. er þeirrar skoðunar, að þegar sé fulllangt gengið í nýbyggingum og megi ekki ofan á það bæta. Það er því ekki ætlun n., að Alþ. leggi á annan hátt fram fé til byggingar útvarpshallarinnar. Það er alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að með samþykkt síðustu fjárl. hefur Alþ. gert ráð fyrir þessum gjöldum, en jafnframt hefur það gert ráð fyrir því, að um 1½ millj. kr. yrði afgangs hjá útvarpinu, og að það væri því ekki á flæðiskeri statt, þótt afnotagjöldin yrðu ekki hækkuð, en verði fé þessu til byggingar útvarpshallar. Ég vona, að hv. þm. skilji, að það er misskilningur hjá minni hl., að meiri hl. hafi meint, að hann gæti breytt l. með samþykkt þessarar þáltill. Slíkt hefur honum aldrei dottið í hug, en það hefur verið skoðun meiri hl. n., að Alþ. mætti láta í ljós vilja sinn, um það, hvernig framkvæmd þeirra hluta er, sem ríkisstj. hefur vald til að framkvæma í l. Þess vegna er það tímabært af Alþ., að það láti í ljós vilja sinn um það, hvort ríkisstj. skuli setja þetta gjald hærra eða lægra.

Ég vil leggja áherzlu á það og tel það engum vafa bundið, að hæstv. ráðh. skilji það svo, að verði rökst. dagskráin samþ., þýði hún viljayfirlýsingu hæstv. Alþ. um byggingu útvarpshallar og hækkun útvarpsgjalda á þessu ári. Þeir hv. þm., sem vilja ekki láta hækka útvarpsgjöld, geta því ekki greitt atkv. með rökst. dagskrártill.