15.03.1946
Sameinað þing: 33. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í D-deild Alþingistíðinda. (4324)

97. mál, afnotagjald útvarpsnotenda

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Ég vildi aðeins, áður en til atkvgr. kemur um málið, upplýsa það, að útvarpið hefur nú þegar sent út um land reikninga og innheimtuplögg og gengið út frá innheimtu samkv. þeim. Þessi till. er því í rauninni af þessum ástæðum einum óframkvæmanleg, þar eð fjöldi manns hefur nú þegar greitt sín 100 kr. afnotagjöld, og það mundi hafa í för með sér bæði kostnað og fyrirhöfn að endurkalla innheimtugjöld og reikninga og endurgreiða svo hluta af afnota gjaldinu. Þó skal ég ekki segja, hvort stj. mundi ekki gera þetta, ef fyrir lægi skýlaus vilji frá Alþ. um það að leggja fram féð, 1 millj. og 80 þús. kr., beint úr ríkissjóði. En til þess að lagt yrði í þetta, yrði að liggja fyrir trygging um þennan stórhug Alþ.

Ég vildi bara gefa þessar upplýsingar, áður en atkvgr. færi fram.