24.04.1946
Sameinað þing: 38. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í D-deild Alþingistíðinda. (4366)

210. mál, herstöðvamálið

Forseti (JPálm.) :

Ég skal, út af ásökun hv. þm. Str. varðandi fyrirtekt á þessu máli á dagskrá, taka það fram, að síðan þetta mál var lagt fram hér á Alþ., er þetta 3. fundurinn, sem haldinn hefur verið í Sþ., og á öllum þessum 3 fundum hefur málið verið á dagskrá. Á fyrsta fundinum var ákveðið, sem venja er til, hvernig ræða skuli. Þar næst var fundur í gær í rúman klukkutíma og því ekki tækifæri til þess að taka mál fyrir, sem þó voru á dagskránni. Og nú er þetta 3. fundurinn, sem haldinn er í Sþ., og það hafa ekki fleiri fundir verið haldnir.

Þá vil ég líka mótmæla því, sem hv. þm. Str. sagði, að það að vísa máli til n. sé sama og að svæfa það. Og ef ekki verða frekari umr. um þetta mál, mun borin verða upp sú till., að umr. sé frestað og málinu visað til utanrmn.