24.04.1946
Sameinað þing: 38. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í D-deild Alþingistíðinda. (4367)

210. mál, herstöðvamálið

Forsrh. (Ólafur Thors) :

Þegar þessi þáltill. kom fram, undraðist ég mjög efni hennar og ekki síður fyrir það, að flm. hennar hefur verið forsrh., því að ég ætlaði, að hann hefði nokkurn kunnugleika um slík mál. Og ég held, að ég verði að sýna þann góðvilja og telja, að ástæðan fyrir því, að hann hefur borið þessa þáltill. fram, eins og hún er og með þeim skýringum, sem henni fylgja, að það hljóti að vera sú ástæða, að honum sé ekki kunnugt um það, að það er ekki venja milli þjóða að prenta skjöl málsins á meðan slík mál liggja til umr. En ég býst við, að margir aðrir viti það. Og það er gagnslaust að reyna að sannfæra hv. þm. um það, að það er ófrávíkjanleg venja, hvað sem hann vill um það segja hér, að í skiptum milli vinveittra þjóða eru skjölin ekki prentuð, sem á milli fara, meðan á málsmeðferð stendur. Og ég veit nú, að ég þarf ekki að ræða það mikið við hv. þm. Str., að það gæti haft talsverðar afleiðingar í för með sér, ef sá háttur væri upp tekinn að prenta það, sem fer milli ríkisstj. og trúnaðarmanna hennar erlendis. Ég fyrir mitt leyti, ef ég væri trúnaðarmaður ríkisstj. erlendis, mundi fara varlega í það að senda trúnaðarskýrslur, sem varðaði hag Íslands, og geta átt það á hættu, að það yrði prentað í blöðum strax, þá væri brotin á bak aftur aðstaða sendisveitanna, sem þær hafa haft til þess að inna af hendi sín störf: Það væri ekki óviturlegt að taka upp á því að prenta þetta allt saman. Og ég geri ráð fyrir því, að ef umboðsmenn okkar þjóðar eru færir um það að hafa slík sambönd að geta aflað upplýsinga, sem ekki fást í blöðum eða á gatnamótum, og ef þeir væru svo lánsamir að ná í þau sambönd, já, þá væri sannarlega verið að brjóta alla aðstöðu á bak aftur með því að taka upp þann sið og venju á Íslandi að prenta þau plögg, sem sendimenn Íslands erlendis eru færir um að afla fyrir sína ríkisstj. Hvað hugsar annars sá Íslendingur, sem meinar það?

Ég skal ekki ræða frekar um þetta mál hér, ég mun gera það í utanrmn. En ég vil benda á það, að það þarf ekki að vera nein skelfing, sem ísl. ríkisstj. óskar eftir að leyna, og þó að hún taki ekki þann sið að birta eða prenta það, sem fer á milli hennar og trúnaðarmanna hennar erlendis.

Ég held svo fast við það og get tekið undir með hv. þm. Str., að þetta sé eitt hið merkilegasta mál þingsins og það eigi að fá þá málsmeðferð, sem þykir hæfa smámáli, hvað þá stórmáli, þ. e. a. s., að það fái undirbúning í n., og það er einmitt utanrmn., sem er réttur vettvangur, því að þar geta menn talað eins og þeim býr í brjósti um allt málið, þótt ekki þyki henta hagsmunum þjóðarinnar að gera það á opinberum vettvangi.

Ég skal svo lýsa því yfir, að gefnu tilefni, að nýlega hefur fulltrúi Bandaríkjanna tilkynnt mér, að stjórn Bandaríkjanna hafi alls engar upplýsingar gefið um málið sem slíkt.