24.04.1946
Sameinað þing: 38. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í D-deild Alþingistíðinda. (4369)

210. mál, herstöðvamálið

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég skal verða fáorður um málið á þessu stigi. Og mér þykir ólíklegt, úr því að hv. flm. telur svo mjög á hlut sinn gengið í þessu máli, að hann notar það tækifæri, sem hann bað um, eins og hv. þm. hafa heyrt, þannig að hann er ekki farinn að botna neitt í málinu sjálfur. Og ég ætla að bíða að ræða málið, þar til seinna í kvöld, að fleiri eru á fundi, og vita, hvort hv. þm. Str. verður eins órólegur og óstyrkur og mér virtist hann vera nú, þegar hann settist. Ég sé ekki ástæðu til að leiðbeina honum um samningsviðskipti milli þjóða, en áður en þessu máli er lokið, skal mér ánægja að gera það og minna hann þá aðeins á það, sem hann sagði hér, og ef hann hefur gleymt þeim ummælum, þegar hann hefur betra tækifæri til þess að ræða málið, þá skal ég ekki gleyma þeim.

Hv. þm. Str. virðist þó bera nokkru meira skyn á sumar hliðar þessa máls en meginhluti ræðuhalds hans hefur gefið til kynna, því að hann sagði frá því, að hann hefði sjálfur birt öruggur einhver plögg frá erlendu ríki, en svo bætir hann við : Ég gat birt þetta með góðri samvizku, því að ég hafði leyfi til þess. En hér er farið fram á, að ríkisstj. birti skjöl án þess að leitað sé leyfis, sem hv. þm. Str. telur, að sér hafi verið skylt að gera, þegar hann var ráðh. Mér finnst þetta nú stangast dálítið á. Og ég skal ekki segja, ef hv. þm. fengi nú vilja sínum framgengt, að öðlast það heiti að vera minnst síðaði maður þingsins, eins og hann hér var að bera öðrum hv. þm. á brýn, þó að honum láðist að færa fyrir því aðrar sannanir en þær, að hann er sýnilega lamaður og óánægður eftir viðureignina við þennan hv. þm. Barð. (GJ).

Ef þessi málsmeðferð er svona fyrir neðan allar hellur að dómi hv. þm. Str., hvernig stendur þá á því, að hann hefur látið þetta viðgangast í 6 mánuði? Hvernig má svo lundaður maður una slíku aðgerðarleysi í hálft ár, og hvernig stendur á því, að steinsofandi samvizka vaknar allt í einu eftir 6 mánaða svefn 1. apríl, úr því að hún hefur sofið undanfarna mánuði og legið á þessu eins og ormur á gulli? Það skyldi þó ekki eiga neitt skylt við kosningar?

Þá vildi ég spyrja hv. þm. að því, ég hef gert það áður: Meinar hann það, að það eigi að prenta öll slík skjöl, sem berast frá trúnaðarmönnum ríkisstj. erlendis? Það er ekki neinn einn sendiherra, sem hefur fjallað um þetta mál. Allir sendiherrar Íslands hafa fjallað um það. Heldur hv. þm. Str., að það væri hentugt fyrir sendiherrana, að við birtum öll skjöl, sem fara á milli þeirra og ríkisstj.? Ég tel, að með því væri farið inn á mjög varhugaverða braut.

Ég ætla svo aðeins að segja það, að ég og hv þm. Str. erum ekki skildir að skiptum í þessu máli.