24.04.1946
Sameinað þing: 38. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í D-deild Alþingistíðinda. (4378)

210. mál, herstöðvamálið

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég dreg ekki í efa, að þetta mál verði rætt meira en hér hefur verið gert. En ég hef nú verið að tæpa á því, að mér þætti nokkuð greinilega koma í ljós, að Framsfl. veit ekki sjálfur, hvað hann er að fara fram á með flutningi þessarar till., og má vera rétt að láta þá þegar vita, hvað það er, sem á milli ber. Hér er um tvö ólík atriði að ræða. Annars vegar um birtingu á efnishlið málsins, hins vegar um birtingu á skjölum málsins. Þetta eru tvö ólík spursmál, svo ólík, að um hið fyrra, að birta efnishlið málsins, á ríkisstj. íslenzka kröfurétt á ríkisstj. Bandaríkjanna, og. ríkisstj. íslenzka mun, þegar henni sýnist, birta efnishlið málsins, þótt hún telji sér ekki fært, án fulls samþykkis ríkisstj. Bandaríkjanna, að birta skjölin í málinu, en það er það, sem þessi till. fer fram á. Það er rétt, að ég segi framsóknarmönnum frá þessu, sem þeir virðast ekki vita, til þess að þeir komist hjá því að vera með þessar vífilengjur; sem hér hafa hvað eftir annað verið endurteknar nú við meðferð málsins. Ég skal endurtaka þetta. Það er um tvær ólíkar kröfur að ræða. Annars vegar að birta efnishlið málsins, og það mun ríkisstj. gera, þegar henni sýnist, áður en gengið verður til kosninga. Hitt er það, sem þessi till. vill, að skjölin í málinu séu birt, sem ég tel algera óhæfu, og hef ég þar fyrir mér mikinn fjölda manna.

Hv. þm. Str. sagði, að ég hefði ekki lesið grg., þar sem hann þar segði, að ekki ætti endilega að birta skjölin, sem hefðu farið á milli í málinu, heldur efnishlið málsins. En í sjálfri grg. stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Í þingsályktunartillögunni er gert ráð fyrir því, að öll símskeyti og bréf snertandi herstöðvamálið verði birt.“ Það er þetta, sem ekki er talið samrýmast velsæmi í viðskiptum meðal vinveittra þjóða. En varðandi hitt, að birta yfirlýsingu um efnishlið málsins, þá telur ríkisstj., að hún eigi kröfu til að gera það og hefur löngu ráðið að gera það í tæka tíð, til þess að öll þjóðin geti gengið til kosninga.

Varðandi till. mína um, að málið fari til n., sem hv. þm. Str. hefur andmælt, vil ég lesa upp hans eigin orð úr grg.: „Sennilega verða og tvær umr. um till. þessa, og getur þá ríkisstj. skýrt málið fyrir nefnd þeirri, er um málið fjallar.“ Honum hefur því, þegar hann lagði þessa till. fram, ekki dottið annað í hug en að hún færi til n., og auk þess hefur heldur ekki verið gert ráð fyrir, að hún kæmi á dagskrá fyrr en þetta. (Forseti: Till. hefur verið á dagskrá nokkrum sinnum). Já, en ekki komið til umr., og er ekki hægt að fella forseta undir sök í málinu.

Af því, sem ég hef sagt, vænti ég, að flestir skilji það, að umr. um þetta mál á ráðherrafundi hafa eingöngu snúizt um það, hvenær ríkisstj. ætti að nota það vald, sem hún hefur til þessarar birtingar, hvort hún teldi heppilegra að gera það fremur í dag en á morgun. Um það hafa verið skiptar skoðanir. En fyrir því skal gerð grein. Hitt hefur aldrei verið gengið til atkv. um innan ríkisstj., hvort ætti að samþ. að birta öll skjöl, því að það datt engum ráðh. í hug.

Ég vænti þess, að þessar leiðbeiningar geti orðið til þess, þegar rætt verður um þetta mál að nýju, að komizt verði hjá því, sem nú hefur hent flm. og framsóknarmenn ýmsa, sem hér hafa talað, að skilja ekki þann eðlismun, sem hér um ræðir. Ég vil aðeins minna á það til sönnunar því, að flm. hefur þó á sínum tíma gert sér grein fyrir þessum eðlismun, að hann hefur sjálfur skýrt frá því, að þegar hann ætlaði að birta bréfaviðskipti milli ríkisstjórnarinnar íslenzku og erlends sendiherra, taldi hann sér skylt að leita samþykkis þess erlenda sendiherra. Þetta er aðalatriði málsins. Og það er sitt hvað, hvort íslenzka ríkisstj. hefur haft leyfi Bandaríkjastjórnar til þess að birta efnishlið málsins eða Bandaríkin taki í mál, að skjölin séu birt. Og það er áreiðanlegt, að svo er ekki, auk þess sem ég hef hér sýnt fram á, og hv. 1. þm. Eyf. tók undir það með mér, hvílík vitleysa það væri að ætla að taka upp þann hátt að birta það, sem fer á milli íslenzku ríkisstj. og trúnaðarmanna hennar í öðrum löndum um viðkvæm mál eins og þetta.

Ég vil svo að lokum minnast á það, sem hv. þm. Str. beindi til mín vegna ummæla minna um fjarveru framsóknarmanna hér á Alþ. í dag, segja það, að ég var út af fyrir sig ekkert að ámæla eða sakast um fjarveru þeirri, heldur hélt ég því fram, að fjarvera þeirra væri notuð til þess að fresta hér afgreiðslu nú, jafnmikið og nú er liðið á þing. Ég álít, að þeim sé heimilt með leyfi forseta að fara úr bænum, og um það var ég ekkert að sakast. Hitt vildi ég ekki, að þessi fjarvera væri notuð til þess að fresta afgreiðslu málsins.