29.04.1946
Sameinað þing: 44. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í D-deild Alþingistíðinda. (4383)

210. mál, herstöðvamálið

Eysteinn Jónsson:

Ég sé ekki ástæðu til að halda áfram þeim kappræðum, sem áttu sér stað þegar málið var til umr. síðast og var svo haldið áfram í sambandi við annað mál, sem nú hefur verið afgreitt. Hins vegar hefur komið fram annað í málinu, sem ég vildi minnast á með örfáum orðum.

Ég vil fyrst lýsa yfir þeirri skoðun minni, að mér finnst jafnrík ástæða til þess nú að samþ. þessa till. og áður. Þótt hæstv. ríkisstj. hafi gefið út nokkra skýrslu um það, sem fram hefur farið í málinu, þá væri að mínum dómi rétt, að þál. yrði samþ., sérstaklega varðandi það efni málsins, að skjölin yrðu birt fyrir þingheimi. En ég skal ekki fara lengra út í að færa rök fyrir því, það yrði endurtekning á því, sem áður hefur verið sagt. — En þar næst vildi ég með tilliti til þess sem fram hefur komið í blöðum, gera fyrirspurnir til hæstv. forseta. Það hefur verið skýrt frá því, að Bandaríkjastjórn hefur gefið út yfirlýsingu um þetta málefni. Þær blaðafregnir, sem komið hafa um þá yfirlýsingu, hafa verið óljósar, en eftir þeim skilst mér þó, að svo beri að líta á, sem Bandaríkjastjórn hafi fært fram nýjar uppástungur um þetta mál til ríkisstj. um það, að herinn yrði hér þangað til friðarsamningum væri lokið. Nú vil ég spyrja hæstv. forsrh., hvað um þetta hefur komið frá Bandaríkjastjórn og hvernig yfirlýsing hennar var, sem birt var í Washington.

Þar næst vildi ég fara nokkrum orðum um það svar, sem hæstv. ríkisstj. gaf Bandaríkjastjórn . 6. nóv. og birt hefur verið orðrétt. Í þessu svari er byrjað á að skýra frá því, að 25. febr. s. l. hafi allir flokkar Alþ. lýst yfir því, að þeir óskuðu þess, að Íslendingar yrðu þá þegar viðurkenndir sem ein hinna sameinuðu þjóðanna. Út af þessu vil ég taka fram, að mér virðist þetta geta valdið misskilningi. Sennilega er átt við það, að haldinn var lokaður fundur í sambandi við, að óskað var eftir því af öðrum þjóðum, að Ísland lýsti yfir ófriði við Þýzkaland og öxulríkin. Á þeim fundi var samþ. ályktun, sem ekki er heimilt að greina frá, en að efni til fjallaði hún um það, að Íslendingar vildu vera með á þeirri ráðstefnu, sem haldin var í San Fransisko. Þessi. till. var samþ. á lokuðum fundi gegn atkv. framsóknarmanna. Það má segja, en ekki er hægt að rekja gang þessa máls í einstökum atriðum, að ég hef að minnsta kosti litið svo á, að þessi yfirlýsing, eins og hún var send af þingi og stjórn, hafi aðeins verið ósk um það, að við vildum taka þátt í San Fransisko-ráðstefnunni, en engin endanleg ákvörðun um það, hvort Íslendingar yrðu þátttakendur í bandalagi því, sem yrði stofnað og taka að sér hvaða skuldbindingar sem því væri samfara. Þannig leit ég á afgreiðslu þessa máls. Og ég vil taka það fram til að fyrirbyggja misskilning um afstöðu Framsfl. um þetta mál og til þess að lýsa sérstaklega mínum skilningi, að ég álít það þurfi sérstaka ákvörðun þingsins til þess, að Íslendingar gerist aðilar að bandalagi sameinuðu þjóðanna og gangist undir þær kvaðir, sem því eru samfara. — Þar næst vildi ég segja það, að út af næstsíðasta lið þessa svars, þar sem tekið er fram eftirfarandi: Íslendingum er ljóst, að ein afleiðing þess, að þeir verði viðurkenndir sem ein hinna sameinuðu þjóða, er sú, að þeir takist á hendur þær kvaðir um þátttöku í ráðstöfunum til tryggingar heimsfriðinum, sem sáttmáli hinna sameinuðu þjóða gerir ráð fyrir, — að það er náttúrlega ekki heimilt að undirgangast slíkar kvaðir nema með samþ. Alþ. Og það er óákveðið, hvaða kvaðir það eru, sem undirgangast verður til þess að ganga í bandalagið. Þetta allt þarf sérstakrar athugunar við. Og ég vil lýsa yfir því sem skilningi mínum og míns flokks, að ég tel ekki heimilt að undirgangast neinar slíkar kvaðir nema með sérstöku samþ. þingsins. Undir þetta gæti fallið, að sameinuðu þjóðirnar færu fram á að hafa hér her, og það er augljóst, að undir slíkar kvaðir eða nokkrar kvaðir er óheimilt að gangast nema með sérstöku samþ. þingsins. Þær umr., sem fóru fram um stríðsyfirlýsingarmálið, voru enginn undirbúningur undir þátttöku Íslands í alþjóðasamstarfi. Það þarf miklu nánari undirbúning en þar fór fram.

Ég tel skylt, að þessi skilningur komi fram hér í þinginu í tilefni af því svari, sem hæstv. ríkisstj. hefur birt. Og ég geri mér vonir um það, að þótt svarið hafi verið með þessu móti á sínum tíma, þá liti hæstv. ríkisstj, líka eins á þetta mál, að ekki verði tekin ákvörðun um að undirgangast neinar kvaðir eða annað slíkt án þess að þingið ákveði það. Ég fer fram á, að hæstv. forsrh. lýsi yfir sínum skilningi á þessu.