29.04.1946
Sameinað þing: 44. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í D-deild Alþingistíðinda. (4397)

210. mál, herstöðvamálið

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Það er aðeins fyrirspurn í tilefni af því, að hér kom fram hjá hv. þm. Str. sá skilningur áðan, að e. t. v. gætu Bandaríkin litið þannig á, að í skjóli þeirrar málaleitunar, sem Bandaríkjamenn hafa borið fram um herstöðvar hér á landi, gætu þeir haldið áfram að hafa her hér í landinu. Nú hafði ég skilið það svar, sem hæstv. ríkisstj. hefur gefið Bandaríkjastjórn við þeirra málaleitun, sem fram hefur komið um herstöðvar hér, þannig, að þetta svar væri þannig, að þessari málaleitun hefði algerlega verið neitað. Ef svo er, þá standa ekki yfir neinir samningar um þetta efni, sem geta gefið Bandaríkjastjórn neinn rétt til þess að hafa herstöðvar hér í landi framar því, sem hervarnarsamningurinn, sem við gerðum við Bandaríkin, hljóðar um, og talið er, að ákvæði hans um þetta efni séu nú þegar útrunnin. — Ég vildi aðeins óska svars hæstv. ríkisstj. um það, hvort það beri ekki að skoða þetta sem ríkisstj. sem algera neitun á því að samningar standi yfir um þetta herstöðvamál.

Til viðbótar við þetta vil ég aðeins taka undir það, sem hér hefur komið fram, að ég tel, að ekki sé hægt eða rétt að taka ákvörðun um það, að Íslendingar gangi í bandalag hinna sameinuðu þjóða, fyrr en farið hefur fram um það opinber atkvgr. á Alþ. Ég undirstrika þetta vegna þess, sem fram hefur komið frá öðrum hv. þm. um þetta atriði, því að ég tel þá samþykkt, sem gerð var á lokuðum fundi um þetta efni, þess eðlis, að hún sé ekki nægilega traust undirstaða til þess að byggja á svo alvarlega ákvörðun.