10.10.1945
Neðri deild: 5. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í B-deild Alþingistíðinda. (443)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er staðfesting brbl., sem sett voru 20. ágúst s. l. Eins og öllum hv. dm. er kunnugt um, voru sett þau ákvæði í dýrtíðarl. frá 14. apríl 1943, að skipa skyldi 6 manna nefnd, er gera skyldi tilraun til að finna grundvöll fyrir vísitölu framleiðslukostnaðar landbúnaðarafurða. Ef nefndin yrði sammála, skyldi ákveða verð á landbúnaðarafurðum í samræmi við það. Þessi tilhögun skyldi þó aðeins haldast „meðan núverandi ófriðarástand helzt.“ — Þessi 6 manna nefnd var svo skipuð vorið 1943, starfaði hún fram eftir sumrinu, og eins og kunnugt er, varð samkomulag innan n. um framleiðslukostnað landbúnaðarafurða. Þetta var hið svonefnda 6 manna nefndar álit, sem mjög hefur verið rætt um síðan og mjög hafa verið skiptar skoðanir um, og hefur gætt nokkurra öfga á báðar hliðar, sumir hafa viljað álíta þetta 6 manna n. álit nokkurs konar „evangelium“, og aðrir hafa talið það á engum rökum reist. Ég held, að sannleikurinn liggi þarna einhvers staðar á milli og efast ekki um það, að n. hefur reynt að vinna samvizkusamlega úr þeim gögnum, sem fyrir henni lágu, en um hitt má svo deila, hvort þessi gögn hafi öll verið á réttum grundvelli reist.

Haustið 1943 fór svo verðlagning landbúnaðar afurða fram samkv. 6 manna n. álitinu, og breyttist þá í raun og veru viðhorf þeirrar verðlagsnefndar, sem fram að þessu hafði fjallað um verðlagningu landbúnaðarafurða. Hennar störf hættu þá í raun réttri að vera mat, heldur varð það ekkert annað en útreikningur, sem byggðist á 6 manna n. álitinu. — Þegar svo komið var að verðlagningu haustið 1944, var, eins og kunnugt er, horfið frá þessu ráði. Hækkun hafði þá orðið á vísitölu landbúnaðarframleiðslunnar, sem nam 9,4%, en eftir að búnaðarþing hafði fjallað um málið og mælt með því, að verðlagning þessara afurða héldist óbreytt, varð það úr, að samþ. var með l. á hv. Alþ., að verðlagningin skyldi haldast sú sama og 1943, en aftur á móti tók ríkissjóður þá ábyrgð á sama verði fyrir útfluttar landbúnaðarafurðir og þær, sem seldar yrðu á innlendum markaði, — og með sama verði og reiknað var með í 6 manna n. álitinu. Eins og kunnugt er, hafa risið miklar deilur um þær ráðstafanir, sem voru gerðar haustið 1944, en um það gildir hið sama og um 6 manna n. álitið, að ég tel þær ekki hér til umr. og vil því ekki að fyrra bragði draga þær inn í umræðuefnið. Nú í vor var hins vegar sú breyting á orðin, að Evrópuófriðnum var lokið, áður en til þess kæmi að ákvarða verð á kjötframleiðslunni, og ákvæði dýrtíðarl. frá 1943 þar með niður fallið. Það var því eigi um það að ræða, að verðlagið á þessu hausti gæti farið fram samkv. þeim lögum eða að verðlagið formlega yrði byggt á hinu svo nefnda 6 manna n. áliti. Nú varð hins vegar ekki hjá því komizt, að sett yrði verð á þessar vörur, þegar þær komu á markaðinn, og má því segja, að ríkisstj. hafi þá átt um þrjár leiðir að velja. Í fyrsta lagi gat hún að sjálfsögðu kallað saman þing, sem naumast gat orðið fyrr en 1. sept., og látið það ráða fram úr þessum vanda, sem sannast að segja var þá undir hælinn lagt, hvort úrlausn hefði náðst á þ. nægilega snemma, og sem auk þess hefði haft mikinn kostnað í för með sér, þar sem þ. að öðru leyti gat ekki orðið nægilega undirbúið á svo skömmum tíma. Önnur leiðin var sú að hverfa aftur að hinu gamla fyrirkomulagi og láta verðlagsnefndirnar, sem þó ekkert samband höfðu sín á milli, ákveða verðið. Þriðja leiðin var sú, sem valin var, að ríkisstj. kæmi sér saman um bráðabirgðal., er verðlagning skyldi reist á. — Það gefur að skilja, að það tók alllangan tíma að ná samkomulagi um þessa löggjöf, því að þar var að sjálfsögðu um margvísleg sjónarmið að ræða, og þarf ekki að undra það, þótt fulltrúar verklýðsfélaganna í ríkisstj. hugsuðu sig tvisvar um, áður en þeir féllust á að gefa framleiðendum svo mikið vald yfir verðlagsmálunum, sem raun varð á.

Þessi brbl. voru sett 20. ágúst s.l., og er hv. dm. kunnugt efni þeirra, svo að ég skal ekki rekja efni þeirra nákvæmlega, en aðeins minnast á höfuðatriðin. Samkv. 1. gr. l. skal landbrh. skipa til eins árs í senn nefnd 25 manna, er nefnist „búnaðarráð“. Nefndin skal skipuð bændum eða mönnum, sem á einn eða annan hátt starfa í þágu landbúnaðarins. Heimilt er að tilnefna jafnmarga varamenn. — Var sú heimild notuð, og liggur í augum uppi, að þetta ákvæði er sett í því skyni að gera búnaðarráð óháð ríkisstj., þ. e. a. s., að það er ekki undir geðþótta ríkisstj. komið, hvaða maður kemur í stað aðalmanns, ef aðalmaður gæti ekki sótt fund. — Þetta 25 manna ráð, sem landbrh. skipar formann fyrir, á að kalla saman til fundar í síðasta lagi 5. sept. ár hvert.

Í 3. gr. frv. segir, að á 1. eða 2. fundi sínum skuli búnaðarráð kjósa 4 menn í n., er nefnist „verðlagsnefnd landbúnaðarafurða.“ Í sömu gr. segir enn fremur, að nefndarmenn skuli að jafnaði valdir innan vébanda búnaðarráðs, en heimilt sé þó að víkja frá því, ef heppilegra sé talið. Þetta er einnig gert í því skyni að gefa búnaðarráði sem víðtækast valdssvið og til þess að gera það sem óháðast ríkisstj., þannig að það sé ekki bundið vilja manna í n. — úr þeirra hópi, sem landbrh. hefur tilnefnt í búnaðarráð. Verðlagsnefnd skal kosin meirihlutakosningu, og er enginn löglega kjörinn nema hann hafi hlotið atkv. meiri hluta búnaðarráðsmanna.

Samkv. 4. gr. á búnaðarráð enn fremur að gegna ýmsum störfum, svo sem að gera till. um setning reglna um gæðaflokkun og verðflokkun landbúnaðarafurða, ákveða verðjöfnunarsvæði og verðlagssvæði, ákveða verðjöfnunargjald á ýmsum landbúnaðarafurðum og stuðla að hagnýtri verkun og meðferð landbúnaðarafurða og nýtingu markaða fyrir þær, jafnt innan lands sem utan. — Hafa störf þessi legið undir öðrum stjórnskipuðum nefndum. Sum af þessum verkefnum eru að mínu áliti allmikilvæg og hefur ef til vill ekki fram að þessu verið gefinn sá gaumur, eftir því sem mér hefur skilizt, sem að minnsta kosti æskilegt hefði verið fyrir bændastéttina. Á ég þar ekki sízt við 1. lið 4. gr., sem ræðir um setning reglna um gæðaflokkun og verðflokkun landbúnaðarafurða. Annars er skiptingin í höfuðatriðunum milli búnaðarráðs og verðlagsn. sú, að búnaðarráð markar línuna, — það ákveður í stórum dráttum, en verðlagsn. verður aftur á móti eins og framkvæmdarráð búnaðarráðs, sem á að annast einstök atriði þeirra samþykkta, sem búnaðarráð gerir. Má þar benda á 4. lið 4. gr., sem ræðir um meðferð landbúnaðarafurða. — Verðlagsn. er skipuð 5 mönnum, einum tilnefndum af landbrh., sem er form. búnaðarráðs, og 4, sem búnaðarráð kýs. Störf hennar eru m. a. að ákveða verðlag á landbúnaðarafurðum á innanlandsmarkaði og svo að annast aðrar framkvæmdir, sem hingað til hafa verið í höndum mjólkursölun., mjólkurverðlagsn., kjötverðlagsn. og verðlagsn. garðávaxta. Verðlagsn. ræður sér svo framkvæmdastjóra.

Þeir kostir, sem ríkisstj. þóttist sjá við þessa nýju tilhögun fram yfir þá gömlu, voru aðallega tveir. Í fyrsta lagi með því að fela einni n. verðlagningu allra landbúnaðarvara á að mega treysta betra samræmi í verðlagningunni heldur en þegar margar nefndir, sem ekkert samband hafa sín á milli, eiga að annast þessi sömu störf, hver út af fyrir sig. Þessi sameining valdsins hjá einni n. á að geta komið í veg fyrir þá tortryggni, sem stundum hefur verið meðal neytenda, sem hafa talið, að kapphlaup væri milli verðlagsnefndanna. Slík tortryggni er jafn óheppileg bæði fyrir framleiðendur og neytendur, og hún er raunar jafnóheppileg, hvort sem hún er á rökum reist eða ekki, a. m. k. er hún alltaf óheppileg. Þetta er fyrri ástæðan, en hin síðari er sú, að með þessari nýju tilhögun er verðlagsvaldið óskipt lagt í hendur framleiðandans. Hann einn getur nú ákveðið, hverju verði varan skuli seld. Má segja, að þetta sé líkt og var fram til ársins 1943, að öðru leyti heldur en því, að nú er það sama stofnunin, sem ákveður verðlag landbúnaðarafurða fyrir allt landið, en áður voru það ýmsar stofnanir framleiðenda, sem ákváðu verðið hver á sínu sviði, og má því treysta því betur nú, að betra samræmi fáist hvað verðlagninguna snertir.

Það er ljóst, að hér er framleiðendum fengið mikið vald í hendur, en því valdi fylgir líka mikil ábyrgð. Það er og ljóst, að ef þessu valdi er misbeitt, hlýtur það fyrst og fremst að koma niður á framleiðendum sjálfum, og ég hygg fyrir mitt leyti og vona, að reynslan sýni það, að þetta aðhald sé nægilegt og að þessi tilhögun gefi vonir um skynsamlegri og heppilegri niðurstöðu bæði fyrir framleiðendur og neytendur en það reiptog, sem átt hefur sér stað undanfarið milli þessara aðila, og hafa úrslit þess í raun og veru oltið á áliti eins stjórnskipaðs manns, því að eins og kunnugt er, hefur ríkisstj. kosið oddamann í þessar n., sem annazt hafa þessi störf, og hefur hann þannig haft úrslitavaldið. — Nú er það að sjálfsögðu ljóst, að reynslan ein mun skera úr um það, hvernig þessi tilhögun gefst, og er ekki vert að vera með miklar getgátur um það fyrirfram.

Strax eftir að 1. voru sett, var búnaðarráð skipað bændum úr öllum sveitakjördæmum landsins, auk nokkurra manna, er vinna mikilvæg störf í þágu landbúnaðarins. Formaður búnaðarráðs var skipaður einn af fremstu forvígismönnum bænda, maður, sem að ýmsu leyti hefur látið sér meira annt um velferð landbúnaðarins og náð þar meiri árangri heldur en ef til vill nokkur annar og eftir liggur meira og betra starf í þágu landbúnaðarins en flesta, ef ekki alla aðra.

Ég vil því vona, að reynslan sýni, að þessi nýja skipan og það traust, sem bændastéttinni hefur verið með þessu sýnt, með því að fela henni einvörðungu verðlagninguna, gefist vel, og ég hygg, að sú fyrsta reynsla, sem á þessu hefur fengizt, sé á þann veg, að báðir aðilar, framleiðendur og neytendur, uni sæmilega vel við, þótt náttúrlega hafi verið gerðar tilraunir frá báðum hliðum til þess að gera störf verðlagningarn. tortryggileg.

Að endingu vil ég svo leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til hv. landbn. þessarar hv. d.