07.02.1946
Sameinað þing: 25. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í D-deild Alþingistíðinda. (4449)

103. mál, húsaleiga

Flm. (Hermann Jónasson) :

Herra forseti. Þetta mál var rætt hér allmikið í gær, og sé ég ekki ástæðu til þess að halda hér um það langa ræðu.

Það er nokkurn veginn auðsætt, eins og ég minntist á í sambandi við aðra till., sem lá fyrir um þetta sama mál í gærdag, að það er ekki ætlun Alþingis að gera neitt í þessu máli eftir því, sem ég tel, að hafi komið fram við afgreiðslu till. í gær, þó að það sé alveg auðsætt mál, að þetta ástand, sem nú ríkir í húsnæðismálunum í landinu, er alveg óviðunandi til lengdar, og var bent á margt af því við umr., sem ég sé ekki ástæðu til að endurtaka. En sérstaklega er það þó eitt, sem hefur hættulegastar afleiðingar í för með sér, og það er það, að eins og nú er komið, er framleiðslukostnaður okkar orðinn ískyggilega mikill, og húsaleiga okkar er stöðugt að hækka og er nú einn stærsti útgjaldaliður hverrar fjölskyldu og hvers manns, eins og við vitum. Það er alveg auðsætt, að ef svo fer fram sem nú horfir og gert hefur síðast liðin ár, þá er frekar, stutt að bíða þess, að húsaleiga fyrir 3–4 herbergi og eldhús í sæmilegu íbúðarhúsi muni næstum verða 800–1000 krónur á mánuði. Við hljótum að gera okkur það ljóst, að nú fjölgar nýjum húsum mjög ört, og að sú leiguupphæð, sem ég nefndi, 800–1000 kr. á mánuði fyrir 4 herbergi og eldhús, er frekar lág upphæð, þegar til er tekin leiga, sem er nú almenn í bænum, en þegar athugaður er byggingarkostnaður og söluverð húsa, þá er þessi leiga þó þannig, að húsin gera ekki betur en renta sig. Afleiðingin af þessu verður sú, að því meir sem þessum nýju húsum fjölgar, því fleiri sem flytjast úr gömlu húsunum og leigan er hækkuð þar, því nær dregur því, að þessi húsaleiga verður ríkjandi, a. m. k. hér í þessum bæ. Það er alveg óhætt fyrir þm., sem ekki hafa kynnt sér þetta, að trúa því, að þessi tala, 800–1000 kr. fyrir 4 herbergi og eldhús, er frekar lágt til tekin og að oft verður þar á ofan að borga stórar upphæðir til að fá að komast inn í húsin fyrir það verð. Afleiðingin af þessu verður sú, að það er ekki hægt að halda þessu fyrir utan vísitöluna, heldur verður að taka það með, þegar framfærslukostnaðurinn er reiknaður út.

Við sjáum, hvaða geysilegur munur er orðinn á kjörum manna, sem búa, sem borga nú 150–200 kr. fyrir sína íbúð og vinna kannske við sömu stofnun og fyrir sama kaup og menn, sem borga 800–1000 kr. fyrir sína íbúð og verða þannig að borga 600–800 kr. af launum sínum fram yfir það, sem aðrir, sem vinna við sömu stofnun, greiða í húsaleigu. Það er ekki neinn smáræðis munur á lífskjörum þessara tveggja aðila, sem hafa þó nákvæmlega sama kaup og sömu aðstöðu að öðru leyti.

En það, sem ég vil sérstaklega draga hér fram, er það, að um leið og þetta verður ríkjandi húsaleiga, þá verður ekki hægt að halda því áfram, sem nú er gert, að ekkert tillit sé tekið til þessarar húsaleigu í vísitölunni, því að nú telst svo til, eftir því sem sá hagfræðingur telur, sem hefur þessa útreikninga með höndum, að vísitalan sé raunverulega, ef tekið er meðaltal af húsaleigunni, fölsuð gagnvart neytendum um 25–30 stig, en það hefur hins vegar komið fram, að ef hún væri tekin eins og hún raunverulega er, þá væri það eitthvað milli 30 og 40 stig. Fyrri tölurnar gilda, ef húsaleigan væri tekin út úr vísitölunni, þannig að hún væri engin áhrif látin hafa og gengið út frá, að húsaleigan hefði hækkað á sama hátt og aðrar nauðsynjar, sem teknar eru til greina, þegar vísitalan er reiknuð út. En ef tekin er til greina hækkun sú, sem orðið hefur á húsaleigunni, sem er meiri en á flestu öðru, þá er fölsunin milli 30 og 40 stig samkvæmt hans útreikningi. Þetta getur ekki gengið svo áfram, því að vitanlega gera launþegar kröfu til, að þessi útgjaldaliður verði tekinn til greina, og er þess skammt að bíða, vegna þess að hin háa húsaleiga er smátt og smátt að verða hin ríkjandi, og yrði þess vegna að fara meir og meir eftir þessum kröfum neytenda. Sjá allir, hvaða afleiðingar það mundi hafa fyrir framleiðslu landsmanna. Það er m. ö. o. þannig, að það er ekki hægt að halda framleiðslunni á floti nema með því að falsa vísitöluna á þann hátt, sem hagfræðingurinn bendir á.

Þegar talað er um að ráða bót á þessu, þá verður að viðurkenna, að það er engan veginn auðvelt verk. Það er auðsætt mál, að ef húsaleigul. eru afnumin nú án þess að gera róttækar ráðstafanir jafnhliða, þá mundi það hafa slíkar afleiðingar fyrir framleiðsluna sem komið var hér að í gær af hæstv. dómsmrh. og menn geta ráðið af því, sem ég hef sagt. Hins vegar geta menn ekki gengið fram hjá því, að þetta er vandamál, sem verður ekki komizt hjá að hugsa fyrir að ráða bót á. Till., sem var samþ. hér í gær, hefur að mínu áliti þann galla, að málið verður í rannsókn til næsta hausts, eða það verður a. m. k. svo, að sú rannsókn, sem gert er ráð fyrir, að fari fram samkv. till., verður lögð fyrir næsta reglulegt Alþingi, sem ekki eru líkur til, að haldið verði fyrr en næsta haust, og þá er raunverulega of seint að gera þær ráðstafanir, sem gera þarf til þess, að líkur séu til, að hægt verði að ráða fram úr þessum málum, af því að þá er komið haust og getur farið svo, að lítið verði úr framkvæmdum þeim, sem gera þarf til að ráða bót á málinu. Við fáum því með samþykkt þessarar till. að vita næsta haust, hvað þarf að gera, en þá eru allar líkur til, að leiðir verði lokaðar fyrir það, sem gera þarf til að ráða bót á málinu. Ég álít, að drátturinn á afgreiðslu þessarar till. sé raunverulega of langur. Ég álít gagnslaust að afgr. þessa till. hér, ef það verður ekki gert næstu daga, til þess að þingið geti tekið afstöðu til þess, hvort það vill gera þær ráðstafanir, sem þáltill. fer fram á, að gerðar verði, og sumar þessar ráðstafanir þarf að gera með því að setja nýja löggjöf eða breyta lögum.

Ég skal vera stuttorður um þessar ráðstafanir, því að þær koma greinilega fram í till. sjálfri og sérstaklega í þeirri grg., sem henni fylgir.

Fyrsta atriðið, sem gera þarf í húsnæðismálunum, er vitanlega að fá yfirlit yfir það, hvað er margt af húsnæðislausu fólki og hver er hinn raunverulegi húsnæðisskortur. Jafnmikið stórmál eins og þetta er, svo mikið sem hefur verið um það talað, þá má það þykja næsta merkilegt, að ég geri ráð fyrir, að það viti það raunverulega enginn þm., hver húsnæðisskorturinn er í raun og veru, því að um þetta liggja ekki fyrir neinar skýrslur aðrar en þær, sem a. m. k. mjög mikið er deilt um. Þetta er vitanlega fyrsta atriðið, sem þarf vitneskju um í þessu máli. Það sýnir vel, hvað unnið hefur verið ákaflega óskipulega í þessu máli, að það skuli ekki liggja fyrir framan hvern þm. skýrsla um það, sem hefði verið auðvelt að afla m. a. hér í Reykjavík frá bæjaryfirvöldunum um það, hver væri hinn raunverulegi húsnæðisskortur í landinu.

Annað atriði þarf vitanlega að liggja fyrir um þetta mál, sem auðvelt er að afla á 1–2 dögum, meira að segja af þeirri þingn., sem fjallar um málið, en það er, hvað mikið er af húsum hér í byggingu. Þegar við höfum þetta tvennt, þá sjáum við, hvað þarf að byggja mikið af húsum til þess, að ekki verði tilfinnanlegur og helzt enginn húsnæðisskortur hér í Reykjavík. Þetta er það fyrsta, sem gera þarf.

Annað atriðið er að hlutast til um, að byggingarefni það, sem til landsins flyzt, verði notað til að byggja íbúðarhús, en eigi bygginga, sem eru ekki aðkallandi, enda þótt það verði að taka upp skömmtun á byggingarefni og jafnvel vinnukrafti til að byggja þau hús, sem telja verður þörf á í þessu efni.

En jafnvel þó að þetta hvort tveggja sé gert, þá eru líkur til, að ekki verði nægilegt vinnuafl til að byggja þau íbúðarhús, sem byggja þarf. Þess vegna er gert ráð fyrir í þessari þáltill. minni, að það verði leitazt eftir því að fá útflutningsleyfi erlendis fyrir fleiri tilbúnum húsum en verið hefur til þessa, og þess er alveg sérstaklega þörf vegna þess, að mér er tjáð, að ekki sé enn þá byrjað á neinum samningum við Svíþjóð í framhaldi af þeim samningum, sem renna út innan skamms. Það hefur jafnvel heyrzt, að Svíar hafi gert það mikið af samningum við aðrar þjóðir, að þetta setji okkur nú þegar í nokkra hættu fyrir því, að okkur gangi erfiðlega að fá þaðan timbur og tilbúin hús eftir því, sem við áreiðanlega þörfnumst á þessu ári.

Eins og menn sjá á þessari þáltill., þá þolir þetta mál ekki neina bið. Ef á að rannsaka þetta mál til næsta hausts, þá er orðið allt of seint að afla þessara útflutningsleyfa og of seint að reisa þessi hús, sem þyrfti að flytja inn í vor og byggja í sumar.

Þá er gert ráð fyrir í þessari þáltill., að ekki verði teknir hærri tollar af þessum tilbúnu húsum en venjulegu byggingarefni. Það munar mjög miklu fyrir þá, sem kaupa hús og alveg ástæðulaust að hafa þennan toll svo háan, þar sem hann er fyrst og fremst lagður á til að vernda innlendan vinnukraft, því að það er margupplýst, að við höfum ekki nægan vinnukraft í landinu hvorki til að byggja þessi hús né til annars. Það er þess vegna ekki gengið á rétt neins iðnaðarmanns eða verkamanns í landinu, þó að þessum tolli sé af létt, og virðist alveg sjálfsagt, þar sem við svo marga erfiðleika er að stríða fyrir margt húsnæðislaust fólk, að íþyngja því ekki með því að taka toll af þessum húsum. Um þetta þarf löggjöf, og er fullvíst, að það munar miklu, hvort tollurinn er afnuminn eða ekki, svo að það mundi fyrir ýmsa fátæka menn algerlega vera látið ráða, hvort þeir keyptu og flyttu þessi hús inn eða ekki. Hér er enn ein hlið, sem þarf að taka afstöðu til strax, hvort Alþingi vill hér hjálpa til með breyttri löggjöf.

Enn fremur er gert ráð fyrir því í þessari þáltill. að leyfa sænskum verkfræðingum að koma hingað til þess að setja þessi hús upp, því að það er upplýst mál, að það munar ákaflega miklu á dýrleika húsanna, hvort þeir menn, sem eru verkvanir, vinna það eða viðvaningar í þessari grein, en það er áreiðanlega hv. alþm. kunnugt, að þessi hús hafa verið reist í Svíþjóð, svo að mörgum þúsundum skiptir, svo að Svíar hafa mikla æfingu í að setja þau upp, sem mundi lærast mjög fljótt, ef þeir kæmu hingað og kenndu íslenzkum mönnum.

Enn fremur er gert ráð fyrir, að séð verði fyrir lóðum fyrir þessi hús og eignarnámsheimild verði veitt af Alþingi, ef þörf krefur, en það hefur þótt skorta að undanförnu, að nægar lóðir væru til staðar fyrir þau hús, sem menn hafa viljað reisa. – Þessar ráðstafanir mundu að mínu áliti stórlækka byggingarkostnaðinn í landinu.

Ég viðurkenni, að ég er ekki sérfróður maður í húsbyggingarmálum, og mér getur að sjálfsögðu yfirsézt mjög um val þessara húsa. En ég hef þó rannsakað þetta mál eftir því, sem ég hef bezt getað, og spurt sérfróða menn, sem ég vel treysti, um það atriði, og ég er ekki í neinum vafa um, eftir að ég hef gert þá athugun, að þessi hús, sem gert er ráð fyrir að flytja inn, það eru mjög hlý og góð hús.

Með því að taka þannig á málunum eru líkur til, að hægt sé að lækka byggingarkostnað verulega og þar með húsaleiguna, og ef þessar athuganir eru gerðar nú þegar og þessi verk undirbúin nú áður en vorar og hægt að hefjast handa um byggingar, þá er ég ekki í neinum vafa um, að það er hægt að skapa það ástand fyrir haustið, að það verði hægt að afnema húsaleigul., og það er það, sem þörf er að gera sem allra fyrst, því að það er ekki hægt að láta þvingunarl. standa nema stuttan tíma til að afstýra neyðarástandi, því að ef þau eiga að verða varanleg löggjöf fyrir lengri tíma, þá veldur það svo mikilli spillingu og misrétti, að það er alveg óviðunandi fyrir nokkurt þjóðfélag að búa undir því.

Ég ætla ekki að fara að rekja hér það misrétti, sem húsaleigulögin hafa skapað. Sú saga er allt of löng til þess, og menn þekkja hana ýmsir vel, þó að hv. þm. þekki hana ekki eins vel og æskilegt væri. En ekki er það ótítt, að menn búi í íbúð, sem kostar 150–200 kr., fjögur eða jafnvel fimm herbergi, og hafi síðan reist hvert stórhýsið eftir annað, þeir sömu menn, og selt fyrir of fjár, svo að þeir hafa orðið auðugir menn, en fólkið, sem býr hjá þeim, býr við okurleigu. Gömlu húseigendurnir í þessum bæ eru flestir millistéttarfólk, sem hefur lagt fyrir nokkrar fjárhæðir, og að því leyti er þessu öðruvísi háttað hér en víða erlendis, þar sem húseigendurnir eru menn, sem eiga fjölda húsa hver og hafa leigusölu á húsum beinlínis fyrir atvinnu. Víðast er þetta svo hér, að menn hafa byggt yfir sig eitthvað lítils háttar meira en þeir höfðu þörf fyrir sjálfir, og sú leigusala, sem þeir hafa með höndum, er þess vegna eins konar ellitrygging frekar en atvinnufyrirtæki. Þessir menn hafa talið það eins heppilegt og að leggja smáupphæðir í banka að leggja þær í að byggja ofurlítið stærra en þeir þurftu sjálfir að nota fyrir sig. Það mun verða niðurstaðan hjá þeim hv. þm., sem kynna sér þessi mál, að gamla húseigendastéttin í Reykjavík hefur ekki grætt á því að byggja og leigja út með okurkjörum, og að þessir menn eru millistéttarfólk og flest fátækt. Þess vegna hafa húsaleigulögin, — sem voru alveg nauðsynleg, þegar þau voru sett, — komið hart niður á þessu fólki. Og þessi lög eru að vísu sums staðar enn nauðsynleg, vegna þess, hvernig haldið hefur verið á húsnæðismálunum. En þau eru óþolandi lengur en það ástand helzt, að ekki er hægt að komast af án þeirra. Og það er nú orðið hægt að komast af án þeirra og afnema það ranglæti, sem þau hafa valdið, með því að gera þær ráðstafanir í höfuðatriðum, sem ég hef bent á.

Ég man vel eftir því, þegar húsaleigulögin voru afnumin eftir styrjöldina 1914–1918, vegna þess að ég var þá nákvæmlega sömu skoðunar um afnám þeirra 1. og ég er gagnvart húsaleigul. nú. Og það var eitthvert fyrsta málið, sem ég beitti mér fyrir. Sú skoðun var uppi þá, að afnám þeirra l. mundi skapa hin mestu vandræði. En niðurstaðan varð þveröfug. — Nú er það svo, að það eru til auðar íbúðir, sem fólk vill ekki leigja með þeim kjörum, sem húsaleigul. ákveða, því að húseigendurnir telja alls ekki borga sig að leigja fyrir þær fjárhæðir, sem þeir geta tekið án þess að brjóta húsaleigulögin. Þannig var þetta, áður en gömlu húsaleigul. voru afnumin, og þannig er þetta nú.

Ef samþykkt þessarar þáltill. á að verða að gagni, verður að samþ. hana alveg næstu daga, af því að það þarf að gera þær ráðstafanir, sem ákvæði eru í þáltill. um, sem allra fyrst, og af því að möguleikar eru á því að hefja byggingarvinnu í vetur og vor. En ef þetta er ekki gert, er að mínu viti haldið áfram stefnu út í það öngþveiti í húsaleigumálunum, sem hlýtur áður en varir að hafa hinar margvíslegustu afleiðingar, m. a. þær, að háa húsaleigan verði ríkjandi húsaleiga og hún verði eitt af því, sem verði verst að ráða við í framfærslukostnaðinum, þegar neytendur að lokum finna, að farg hinnar háu húsaleigu er svo þungt, að þeir hefjast handa og krefjast þess, að húsaleigukostnaðurinn verði tekinn inn í vísitölureikninginn með þeirri upphæð, sem hann raunverulega er. Og þá munum við sjá, hvernig við stöndum gagnvart framleiðslukostnaðinum í landinu. Þegar húsaleigan er orðin það há almennt, þá er kannske of seint að gera þessar ráðstafanir, eða a. m. k. vont að ráða við málið.

Það var sagt hér í fyrradag, að þessi þáltill. mín væri flutt í auglýsingaskyni við bæjarstjórnarkosningarnar. Það er oft sagt ýmislegt þessu líkt hér í þessum sölum. En ég vil segja það eins og ég meina, að það getur vel verið, að mér missjáist að einhverju leyti í till. mínum um lausn málsins. En hitt fullyrði ég hér, að það séu engar leiðir líklegri til þess að ráða bót á málinu — og það er aðkallandi að ráða bót á því — heldur en þær leiðir, sem hér er á bent. Það er ákaflega æskilegt, að þessi till. gæti í meðförum í n., sem fjallar um hana, tekið einhverjum endurbótum, þannig að hægt væri að ráða skjótar og betur bót á því máli, sem er eitt af okkar stærstu vandamálum, húsnæðismálinu. Og ég skal verða fyrsti maður til að fagna því. En ég vænti þess, að því meir sem þetta mál verður athugað, því nær komist menn þeirri niðurstöðu, að þessi atriði séu það, sem gera þarf, sem tekið er fram í þáltill., og að það eigi að gera strax ráðstafanir til þess að hefja verkið í vor, sem nauðsynlegt er til úrbóta í þessum efnum, því að annars verður þetta vandamál lítt viðráðanlegt fyrir okkar þjóðfélag og atvinnulíf.