07.02.1946
Sameinað þing: 25. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í D-deild Alþingistíðinda. (4451)

103. mál, húsaleiga

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég fagna þeirri viðleitni, sem fram kemur á hæstv. Alþ. um það að leysa þessi tvö vandamál, að bæta úr húsnæðisvandamálunum og hitt, að bæta úr því ranglæti, sem hinir einstöku þegnar þjóðfélagsins hafa orðið fyrir með húsaleigulögunum. Ég vil ekki láta telja mig til þess flokks hér á hæstv. Alþ., sem ekkert vill gera í þessum málum. Og ég fagna þessari viðleitni engu síður, þó að hún komi fram frá hv. þm. Str., ef hann meinar það í fullri alvöru, sem hann ber hér fram um þetta á hæstv. Alþ., og vil taka upp samstarf við hann í þessu máli, ef um annað hjá honum er að ræða en auglýsingastarfsemi. En ég tel það miklu miður farið, að hv. þm. Str. hefur ekki rekið meira eftir þessu máli en raun ber vitni um. Þessari þáltill. er útbýtt á Alþ. 20. nóv. og er fyrst til fyrri umr. hér í dag, 7. febrúar. En það var þá fyrir allshn. þáltill. um líkt efni, sem var samþ. hér í sameinuðu Alþ. í fyrradag. Og mér þykir það benda á sáralítinn áhuga hjá hv. þm. Str. að hafa ekki knúð fram a. m. k., að það mál, sem afgr. var hér í fyrradag, væri ekki látið halda áfram í n. fyrr en það væri umbætt eftir þeim till., sem fram koma í þessari þáltill., sem hér liggur fyrir í dag. Ef svo hefði verið að farið, hefði ekki þurft að þrátta um þetta mál nú, sem er um það, sem raunverulega var samþ. þál. um í fyrradag. Af þessum ástæðum, sem ég hef greint, finnst mér ekki hafa fylgt jafnmikill hugur máli að undanförnu hjá hv. þm. Str. í þessu efni eins og ætla mætti eftir ræðum hans nú út af fyrir sig.

Ég vildi fá skýringar hjá hv. flm. þessarar þáltill., áður en ég treysti mér til að greiða atkv. um málið. — Það er fyrst fram tekið í þáltill., að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að láta rannsaka nú þegar húsnæðisskortinn í landinu og birta niðurstöður þeirrar rannsóknar. Mér skilst, að þetta hafi verið ákveðið með þeirri þál., sem samþ. var hér í fyrradag, og mér finnst þetta uppfyllt með þeirri samþykkt. Og hv. flm. þeirrar þáltill. fullyrti, að hægt væri að gera þetta á 4–5 dögum. Það ætti því ekki að líða langur tími, þar til þeirri rannsókn væri lokið. Næst er í þáltill. lagt til að fela ríkisstj. að hlutast til um, að byggingarefni, sem til landsins flyzt, verði notað til þess að byggja íbúðarhús, en eigi til bygginga, sem eru ekki aðkallandi. Þetta er alveg sérstakt mál og spursmál, hvort ekki þarf löggjöf um það og hvort ekki er rétt að fá slíka löggjöf samþ. á Alþ. og bíða alls ekki með það eftir þessari áminnztu rannsókn. Því að mér skilst, að það sé yfirleitt mikill skilningur á því meðal hv. þm., að það sé eitt af þeim málum, sem tvímælalaust þurfi að framkvæma, að skammta byggingarefni, þannig að það fari ekki nema til nauðsynlegra íbúðarhúsabygginga í landinu. Vill þm. Str. ef til vill leggja til, að hætt verði við byggingu Búnaðarbankans og fleiri byggingar, sem nú eru í smíðum? Það virðist misræmi í því að greiða fyrst atkv. með stórkostlegum framkvæmdum og vilja svo stöðva þær. Í till. er gert ráð fyrir lækkuðum tollum á öllu, sem til þess þarf, og þess vegna þarf til að framkvæma þetta stórkostlegar lagabreytingar: Þá er gert ráð fyrir, að ráðnir verði sænskir smiðir hingað til að reisa húsin. Ekki veit ég, hvort flm. á hér við verkfræðinga og yfirsmiði eða óbreytta trésmiði til að vinna verkið. En hér er sýnilega sama árás á íslenzka iðnaðarmenn og þm. S.-Þ. er nú að gera á sjómannastéttina.

Auk þessa á að sjá fyrir lóðum og taka þær eignarnámi, ef með þarf. Reykjavíkurbær á nú orðið mikið af lóðum, og ekki veit ég, hvort fleiri vilja verða til þess, að þær verði teknar eignarnámi af bænum.

Svo það síðasta, þegar allar þessar lagabreytingar hafa verið gerðar, þá á að athuga, hvort ekki er hægt að afnema húsaleigulögin.

Nei. Þm. Str. hefur riðið gandreið í þessu máli. Ég held, að það væri nauðsynlegt, að þeir, sem vilja eitthvað gera í þessu máli, snúi sér að kjarna málsins, og að a. m. k. verði lögð áherzla á það að fá þau herbergi í notkun, sem nú eru í smíðum, og vona ég, að þm. láti ekki á sér standa til þess.