07.02.1946
Sameinað þing: 25. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í D-deild Alþingistíðinda. (4454)

103. mál, húsaleiga

Gísli Jónsson:

Mér þótti miklu betra að fá þær upplýsingar, sem komu fram í ræðu hv. flm. í þessu máli, ef ég má taka það svo, að það sé raunverulegt, að þegar menn greiða atkv. um þetta mál, þá séu þeir með því að lýsa vilja sínum við þau einstöku atriði í till., t. d. um það, hvort skammta ætti byggingarefni eins og ákveðið er í till., og önnur atriði, svo sem að leyfa inn sérfræðingum, hvort ætti að lækka tolla o. s. frv. En hér er um mörg mismunandi og veigamikil atriði að ræða. Þá mun ég ekki sjá mér fært að fylgja þessari till., ef þetta á að takast sem viljayfirlýsing um það, að maður fylgi einnig þeim málum, þegar þau koma fram í lagaformi, eins og hv. flm. skýrði frá. Það er því að athuga það mál, hvort samþykkt þessarar till. eigi að takast sem samþykkt á þeim atriðum, þó að viðkomandi aðilar hafi ekki viljað fylgja þeim, og ég hygg, að það hafi ekki vakað fyrir hv. flm. að binda þetta aftur saman, þó að hann léti svo orð falla.

Ég vil mótmæla þeirri ásökun, sem hann setti fram á íslenzka iðnaðarmenn, og ef hv. þm. vill kynna sér verðlagið á bátunum, sem smíðaðir voru í Svíþjóð, fyrir milligöngu Vilhjálms Þórs á sínum tíma, og rómað var af Framsókn, þá mun hann komast að þeirri niðurstöðu, að sænskir verkamenn hafa lítið minni laun en íslenzkir og minni afköst, því að það tekur helmingi lengri tíma að fá þessa báta smíðaða en lofað var og lengri tíma en það hefði tekið hjá okkur. Það er því ekki þess að vænta, að þessir smiðir komi húsunum upp ódýrar eða á skemmri tíma heldur en Íslendingar.

Ég vil svo að síðustu aðeins leyfa mér að segja það, að ég tek ekki á móti ráðleggingum hv. þm. Str. En ég vil beina því til hans, hvort hann vilji ekki athuga, hvort ekki er tími til kominn fyrir hann, eftir að hafa setið samfleytt í 8 ár sem forsrh., að hætta að bera slúður af opnum fundum og lokuðum fundum, hætta að fara með rangfærslur. En þetta hefur þessi hv. þm. lagt mjög í vana sinn í seinni tíð. Ég vil upplýsa hann um það, að ummælin, sem hann hafði í frammi áður um ummæli mín á fundi fasteignaeigendafélagsins í Reykjavík, eru röng. Þau voru sögð af flokksbróður þessa hv. þm., og ég hygg, að það sé það, sem hann vonar, að þessi ályktun verði stj. að falli, enda kom það berlega fram hjá þeim mönnum, sem hv. þm. Str. sendi til þess að halda uppi málsvörn á þeim fundi. Ég held, að honum væri meiri sómi að því að kunna almenna þingsiði heldur en að sýna hér siðleysi og fara með rangfærslur og leggja út af máli, sem hann skilur ekki eða vísvitandi fer rangt með.