10.10.1945
Neðri deild: 5. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í B-deild Alþingistíðinda. (446)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Bjarni Ásgeirsson:

Ég ætla að segja nokkur orð út af ræðu hæstv. ráðh. Ég ætla ekki að deila um það, hvort ákvæði 6 manna n. séu í gildi enn eða ekki. Hæstv. ráðh. sagði, að það mætti bíða lengi eftir gerbreyttu ástandi, eins og var fyrir stríð, og er það að vísu rétt. En eftirspurnin er mikil erlendis, og má gera ráð fyrir, að við fáum bráðum aðgang að fleiri mörkuðum en nú. Það verður að teljast mjög svo varhugavert að vísa bændum algerlega út á klaka framboðs og eftirspurnar, á meðan grundvöllurinn undir framleiðslunni er eins óviss og nú.

Hæstv. ráðh. sagði, að stéttarsamtök bænda hefðu ekki verið stofnuð, þegar þurfti að taka endanlegar ákvarðanir um þetta, en það stóð til, að þau yrðu stofnuð, og ég álit, að hægt hefði verið að bíða með setningu bráðabirgðalaganna til 9. september. Og ég vona, að orð hans þýði það, að þetta vald fari til stéttarsamtakanna.

Mér virðist óþarfi að deila um það, að búnaðarráð sé ekki fulltrúi bændastéttarinnar. Ég held, að hæstv. ráðh. hafi verið mér sammála, að ef valið hefði verið búnaðarráð af bændum landsins, hefði andstöðuflokkur stj. ráðið lögum og lofum. Ég hef ekki orðið var við nein stéttaskipti í þessu máli. Á fundum hafa bændur staðið sem einn maður, hvaða flokki sem þeir annars fylgja. Þannig var á stofnfundi stéttarsamtaka bænda og öllum öðrum fundum, sem ég hef verið á. — En kannske allir bændur séu þá stjórnarandstæðingar?

Ráðh. hefur viðurkennt, að búnaðarráð er ekki stéttarstofnun bænda, heldur pólitísk stofnun, skipuð af pólitískum ráðh. Ef þessi stofnun hefði verið fulltrúi bændanna, þá hefðu stjórnarandstæðingar lent í meiri hl. Ráðh. spurði, hvort það væri tillaga mín, að skipuð yrði nefnd manna til að skera úr deilumálum sjómanna og atvinnurekenda, sem nú stendur yfir. Ég álít hins vegar, að stétt eigi ávallt að hafa eins rík ítök í hagsmunamálum sínum og unnt er, en það komi ekki til mála, að ríkisvaldið ráði þar einungis. En hitt er annað mál, að það er ekki sama, hvaða ráðh. fer með þessi mál. (Fjmrh.: Vill þá ekki hv. þm. láta Alþýðusambandið ráða fyrir sína aðila?). Það getur vel verið, en það er alls ekki sama, hver fer með valdið. En þó að valdið sé í höndum velviljaðra manna, er það allt annað, ef það kemst í hendur óhliðhollra manna, og því er fordæmið stórhættulegt, jafnvel þótt bændur væru ánægðir með þetta vald í höndum ráðh., er það eins forkastanlegt.

Þá var ráðh. að tala um, að mér fyndist ósamræmi samkv. 6 manna n. álitinu að láta setja hærra verð á landbúnaðarafurðir og hvernig flokksblöð hafa skrifað um málið. Ég hef lesið flokksblað Framsóknar og ekki rekizt á neitt slíkt. En í Degi hef ég séð það gagnrýnt, að vanrækt hafi verið að greiða niður verð landbúnaðarafurða og neytendur hafi borið þar skarðan hlut frá borði. Þó að bændur hafi ekki verið skaðaðir, hafa neytendur verið vanræktir.

Þá minntist ráðh. á, að ef verðið hefði verið hækkað á innlendum markaði, hefði dýrtíðin aukizt og þar með verðlag í landinu og svo koll af kolli. Þetta er rétt, en ég viðurkenni ekki hitt, að það megi koma niður á einni stétt.

Bændur hafa fyrr boðið það að lækka verð á afurðum sínum, og þeim mundi hafa líkað vel þessi niðurfærsla, ef kaup hefði einnig verið fært niður. Og ég þori að fullyrða, að bændur eru alltaf reiðubúnir að færa fórnir, ef aðrar stéttir gera slíkt hið sama. En hins vegar sætta bændur sig ekki við, ef þunginn hvílir eingöngu á þeim. Og af þessu stafar óánægjan.