10.10.1945
Neðri deild: 5. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (448)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Því hefur nú verið lýst af hv. þm. Mýr., hvernig skipun búnaðarráðs er langt frá því að vera gerð af bændum. Það eru öfugmæli hjá ráðh., að það séu fulltrúar bænda, sem fari með verðlag landbúnaðarafurða, heldur eru það vikapiltar ráðh., skipaðir af honum sjálfum. Það er augljóst af því, hvernig vikapiltarnir töluðu áður, að annaðhvort hafa þeir breytt um stefnu og skoðun eða þeir gera sem aðrir bjóða þeim að gera gegn betri vitund. Dæmi mætti nefna um 3 menn, sem eru í búnaðarráði og verðlagsnefnd og áður höfðu aðra skoðun um verðlagið. Ég held, að þeir hafi ekki breytt um skoðun, heldur hafi þeir unnið eins og þægir verkamenn gera, þegar þeim er skipað. Ráðh. telur, að ekki hafi verið hægt að bíða eftir stéttarþingi bænda. Ef stéttarsamband bænda hefði verið til í byrjun ágúst, telur ráðherra, að hann hefði falið því þessi störf, en ráðh. fannst ófært að bíða til 7. sept.

En hvenær kom svo búnaðarráðið saman? Tveimur dögum áður en stéttarsambandið var stofnað. En þó að það hefði beðið í tvo daga, hefði það ekki sakað, því að það gerði lítið þá dagana.

Ráðh. telur, að afurðaverðinu hafi verið stillt í hóf og báðir megi vel við una, neytendur og framleiðendur. Hvað mjólkina snertir, held ég, að hún hafi verið sett smánarlega lág. Þegar mjólkin í Reykjavík kostaði 45 aura, voru árslaun verkamanna, tæp 3000 kr. eða meðalárskaup verkamanna rúmlega 2800 kr. En nú sýna opinberar skýrslur, að meðalárstekjur verkamanna eru tæpl. 21 þús. kr., og svo segir ráðh., að mjólkurverðinu sé stillt í hóf, þegar mjólkin er seld á kr. 1.82 pr. lítra. Ég held, að kaupgeta sé svo mikil, að það hefði verið upplagt að setja mjólkurverðið samkv. 6 manna n. álitinu.

Fyrir stofnun búnaðarráðs heyrði ég þrjá af þeim, sem síðar komust í búnaðarráð, segja, að fylgja bæri 6 manna n. álitinu. En þeir hafa síðar fallið frá því, og ekki fyrir bændur, heldur fyrir ráðh. Það er líklegt, að 6 manna n. verðið á kjöti án niðurgreiðslu hefði dregið úr sölu þess, en þó að mjólkin hefði ekki verið greidd niður, hefði hún samt selzt. En þó að kjötið hefði verið selt með 6 manna n. verðinu og það dregið eitthvað úr sölu þess, þá hefur silaskapur og vanræksla ráðh. dregið margfalt meira úr sölunni, — fyrst og fremst með því, að lögin hafa verið svo óljós, enginn hefur vitað, hvernig niðurgreiðslum yrði hagað. Sláturtíð er að enda og reglugerð ekki komin. Menn biðu og biðu með að gera kjötkaup til vetrarins, til að vita, hvað yrði. Afleiðing er, að lítið hefur verið keypt af kjöti. Ég veit um dæmi í einu þorpi, að til skamms tíma hafa aðeins 2 skrokkar verið seldir. Ég held, að þetta sé ekki því að kenna, hvað verðið hefur verið hátt, heldur miklu frekar hinu, — óvissunni um, hvernig þessu öllu yrði hagað. En framkvæmdum hefur verið hagað þannig til þess, að hægt væri að segja: það dró úr sölunni, og kjötverðið var of hátt. — En það dró bara svona úr sölunni af því, að ekki var tilkynnt, hvaða leiðir yrðu farnar, fyrir sofandahátt ráðh., þó að hann nú hins vegar greiði kjötið niður, þrátt fyrir að hafa lýst því yfir í fyrra, að kjötið yrði ekki greitt niður. En minnkandi sölu á mjólk, er þó ekki til að dreifa vegna hins of háa verðs, því að jafnvel þá dagana, sem hún var ekki greidd niður, seldist hún öll.

En þegar nú á þingi mun koma fram frv. um að fela stéttarfélagi bænda verðlagsmál landbúnaðarafurða, þá vona ég, að ráðh. ljái því máli lið, — þar sem hann hefur lýst svo vel hugarfari sínu, ef stéttarfélagið hefði verið til í ágúst. Þó að vikapiltarnir að dómi ráðh. hafi verið of stutt í búnaðarráði, þá hafa þeir ekki unnið svo vel, að eftirsjón sé í því að gefa þeim þegar frí.

Ráðh. vildi halda því fram í fyrstu ræðu sinni, að eftir að verð 6 manna n. kom fram, hafi starf verðlagsnefndarinnar orðið erfiðara og útsöluverð takmarkað við framleiðslukostnað til bænda. Mér skilst á tveim mönnum í verðlagsnefnd, að sleppt hafi verið að taka til greina hækkun á framleiðslukostnaði, sem varð 1943, og þetta eigi að vera gert af því, að búnaðarþing í fyrra gerði samþykkt sína um eftirgjöf á hækkun þá. En búnaðarþing setti það skilyrði, að útfluttar afurðir yrðu bættar upp, svo að 6 manna n. verð 1943 fengist fyrir alla framleiðsluna 1944. Ef þessi trygging fengist núna, þá yrði verðjöfnunargjaldið — kr. 1.50 á hvert kíló fellt niður, og þá horfði málið allt öðruvísi við, en það var stefnan, sem Búnaðarfélagið ætlaði að fara. Stefnan, sem átti að taka í haust, var þessi: Bændur áttu að fá fyrir vöru sína eins og hún var verðlögð eftir 6 manna n. álitinu, kr. 8.62 fyrir kjötkg. og 1.92–1.94 fyrir mjólk, og væri það þá sambærilegt við tekjur verkamanna síðustu 12 mánuði fyrir 16. sept. 1945. Og ríkisstjórnin átti vitanlega að kalla Alþingi saman 1. sept., svo að það gæti fjallað um málið og fundið leiðir til úrlausnar. Og þótt móti því væri staðið á síðasta þingi að kalla þing svo snemma saman, þá átti ríkisstjórnin að sjá sig um hönd, þegar hún sá, hvernig málið horfði við. Það var ekki meira að gera það en þegar ráðh. nú fer og greiðir niður verð landbúnaðarvara, eftir að hafa marglýst því yfir á síðasta þingi, að það verði aldrei gert, frá þeirri stefnu verði að hverfa. Hefði stjórnin gert það, þá hefði málið leystst sæmilega, en nú er það illa leyst, öllum til óhagræðis og engum til sóma, sem við þá lausn hafa fengizt.