11.02.1946
Sameinað þing: 26. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í D-deild Alþingistíðinda. (4481)

130. mál, flutningur hengibrúar

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Árn., 1, flm.brtt. á þskj. 306, er ekki viðstaddur, en þar sem ég flyt till. með honum, þykir mér hlýða að gera með fáum orðum grein fyrir flutningi hennar.

Hv. þm. Mýr. var að mæla fyrir þáltill. um að flytja Ölfusárbrúna vestur á Hvítá í Borgarfirði, en okkur flm. till. á þskj. 306 finnst eðlilegra, að Ölfusárbrúin sé notuð á Suðurlandsundirlendinu, ef hún skyldi passa á vatnsföllin þar, sem óbrúuð eru og nauðsynlegt er að brúa á næstu árum. Í brtt. okkar er farið fram á, að. það verði rannsakað, hvort Ölfusárbrúin passi ekki á eitthvert þessara mörgu vatnsfalla fyrir austan. Ég fyrir mitt leyti hef sérstaklega í huga eitt fljót. Það er Tungnaá, þar sem hún fellur í Þjórsá. Ég hef oft farið yfir Tungnaá á þessum stað, og ég held, að Ölfusárbrúin, hvað lengd snertir, gæti passað á þann stað. — Ég veit ekki, hvort það er leyfilegt á þessu stigi málsins að vitna í vegamálastjóra, en ég held þó, að það sé ekkert launungarmál, að hann hafi áhuga fyrir því að brúa Tungnaá og tengja saman á þann hátt Sunnlendinga- og Norðlendingafjórðung. Mér finnst, að það sé engin goðgá að rannsaka og mæla brúarstæðið á Tungnaá og rannsaka, hvort Ölfusárbrúin er ekki heppileg á þeim stað. Það hefur verið talað um það áður, að það væri eðlilegt að flytja Ölfusárbrúna að Iðu og setja hana þar niður, en það mun hafa verið rannsakað nokkuð og talið, að hún sé of stutt til þess að geta komið þar að notum. — Í Rangárvallasýslu er eitt vatnsfall, sem ef til vill gæti líka komið til greina, en það er Hólmsá. Það hefur ekki verið rannsakað, hvort Ölfusárbrúin gæti ekki passað þar, og í Árnessýslu eru einnig mörg vatnsföll, sem bíða eftir því að verða brúuð, eftir því sem hv. 2. þm. Árn. segir, og gæti komið til mála, að Ölfusárbrúin hentaði þar. Það tekur vitanlega ekki langan tíma hjá vegamálaskrifstofunni að rannsaka það, hvort Ölfusárbrúin er nothæf á þessi mörgu vatnsföll fyrir austan, sem eru óbrúuð, og till. okkar fer ekki fram á annað. Ég vil hins vegar unna hv. þm. Mýr. og hv. þm. Borgf. að fá þessa gömlu brú til sín, ef rannsókn leiðir í ljós, að hún sé ekki hentug á vatnsföllin fyrir austan, sem nauðsynlegt er að brúa og verða brúuð næstu ár. En mér sýnist það svo ekki vera skynsamlegt að flytja þessa gömlu brú í annan landsfjórðung, ef hún skyldi vera heppileg rétt hjá þar sem hún hefur verið. Ég vænti því, að hæstv. Alþ. taki brtt. okkar til athugunar og að hún verði samþ.