23.04.1946
Sameinað þing: 37. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í D-deild Alþingistíðinda. (4488)

130. mál, flutningur hengibrúar

Frsm. (Björn Kristjánsson):

Herra forseti.

Þessi þáltill., sem flutt er af hv. þm. Mýr. og hv. þm. Borgf., fer fram á að heimila ríkisstj. að láta flytja gömlu hengibrúna á Ölfusá og setja hana niður á fyrirhugað brúarstæði á Hvítá í Borgarfirði hjá Bjarnastöðum í Hvítársíðu. — Fjvn. hefur leitað álits vegamálastjóra um þessa þáltill. ásamt fleiri till., sem eru sama efnis, um flutning þessarar gömlu brúar. Og vegamálastjóri hefur látið þá skoðun sína í ljós við n., að tæpast muni hægt að treysta því, að þessi brú, ef flutt yrði, yrði nægilega sterk til þess að þola umferð stórra bifreiða við fólksflutninga og aðra þungaflutninga á þessum tiltekna stað. Að öðru leyti telur hann, að þetta mál sé órannsakað, þannig að ekki sé hægt nú þegar að segja um, hve mikið sé hægt að nota af þessu brúarefni. Þessi rannsókn er ógerð enn, en þörfin fyrir brýr er ákaflega mikil, víðs vegar um landið, og það er þess vegna full ástæða til þess að athuga gaumgæfilega, hvort hægt sé að nota þetta brúarefni, ef það mætti verða til þess, að aðrar stórbrýr yrðu byggðar annars staðar á landinu. En þar sem þessi rannsókn, eins og ég hef sagt, er enn eftir og verður ekki gerð fyrr en brúin hefur verið tekin niður, þá sér fjvn. sér ekki fært að gera neinar ákveðnar till. um það, hvað gert skuli við þessa gömlu brú, og leggur n. því til, að þessu máli verði vísað til hæstv. ríkisstj., sem þá mundi ráða málinu til lykta eftir till. sérfróðra manna á vegamálaskrifstofunni.