23.04.1946
Sameinað þing: 37. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í D-deild Alþingistíðinda. (4489)

130. mál, flutningur hengibrúar

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Það liggur hér fyrir brtt. við þessa þáltill., sem er frá mér og hv. 2. þm. Rang., um hagnýtingu á gömlu brúnni á Ölfusá. Það liggja fyrir ýmsar till. um hagnýtingu á þessari gömlu brú, eins og hv. þm. vita. En með þeirri álitsgerð, sem nú er að styðjast við frá vegamálastjóra, þykir mér það eðlileg till., sem fram hefur komið, að vísa þessu máli til hæstv. ríkisstj. Ég álít hægt með því að ná skynsamlegri niðurstöðu um hagnýtingu þessarar brúar, fremur en að láta ákvörðun Alþ. af handahófi ráða niðurstöðu um þetta efni. Allt öðru máli hefði verið að gegna, ef vegamálastjóri hefði lagt eitthvað ákveðið til um þessa hagnýtingu, sem er ekki til staðar. En af fróðum mönnum hefur verið dæmd frá sú tilhögun að hagnýta brúarefni þetta á þeim stað, sem ég og fleiri höfðum áður lagt til, sem sé á Hvítá hjá Iðu. Það var samþ. og réttmætur skilningur hjá hæstv. Alþ., að þar yrði þetta brúarefni notað, ef tiltækilegt þætti að gera það. En sérfræðin sagði nei við því, „hún dugir þar ekki“. Og það varð að hlíta því. Og ég hygg þá hagkvæmast og réttast að láta þá, sem eiga að hafa bezt vit á þessum hlutum og eiga að vera óhlutdrægastir í þessum efnum, ráða niðurstöðunni um það, hvar þessi gamla brú eða efni úr henni skuli hagnýtt. En ég vil samt sem áður leggja áherzlu á það, sem fram kemur í brtt. frá mér og hv. 2. þm. Rang., að því skemmra sem þessi brú eða efni hennar verður flutt, þar sem tiltækilegt er að nota efnið, því réttlátara sýnist, að öðru jöfnu, að hagnýta þetta efni heldur þar en annars staðar. En ég hygg, að það sé bezt, að vegamálastjóri ákveði um þetta endanlega, en ekki hæstv. Alþ.