10.10.1945
Neðri deild: 5. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (449)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Ég fann heldur lítið nýtt í ræðu hv. 2. þm. N.-M., heldur endurtekning á því, sem áður hefur komið fram.

Hv. þm. var að leitast við að leiða rök að því, að ríkisstj. hefði haft nægan tíma til þess að skipa verðlagsmálum, þó að hún biði með það til 10. sept. Hann hélt fram, að það hefði verið búið að gera það 10. sept. Ég vil minna hv. þm. á, að búnaðarráð hafði nokkurn veginn lokið sínum störfum 10. sept., að vísu ekki slitið fundi fyrr en 11. sept., en það er ekki aðalatriði, hitt er aðalatriðið, að á þeim tíma, sem nauðsynlegt var fyrir ríkisstj. að taka ákvörðun um lausn málsins, var með öllu ókunnugt um það, og hv. 2. þm. N.-M. vissi það ekki heldur, hvort nokkuð yrði af þessari stofnun stéttarsamtaka bænda á Laugarvatni. Það vissu allir, að hver höndin var þar upp á móti annarri, og ég veit ekki enn í dag, hvort þessi samtök verða viðurkennd sem stéttarsamtök bænda, og hv. 2. þm. N.-M. veit það ekki heldur, svo að það er ástæðulaust að deila um þetta. Það hljóta allir sanngjarnir menn að sjá, að eftir þessu er ekki hægt að bíða fyrir ríkisstj., og satt að segja held ég, að flestir sanngjarnir menn úr andstöðufl. ríkisstj. játi þetta. Ég skal svo ekki ræða um þetta frekar.

Það er næsta furðulegt, að jafnskýr maður og hv. 2. þm. N.-M. skuli ekki sjá, að þegar hann er að lýsa viðskiptum mínum við verðlagsn., þá eru það ekki þau viðskipti, sem hann er að lýsa, enda veit hann ekkert um þau. Það sjá allir, að það, sem hann er að lýsa, er það, hvernig verkið gekk til, þegar hann sjálfur var í sömu sporum og þessir menn nú, hvernig hann var þægur við ríkisstj. og gerði það, sem honum var sagt. En hann má ómögulega draga þá ályktun, að þannig gangi fyrir sig hjá öðrum; það eru ekki allir jafnsamvizkuliðugir og þægir við yfirboðara sína í þessu efni. Þetta verður hann svo að gera upp við sjálfan sig. Og þeir, sem trúa því, að þessir menn, sem þar eiga hlut að máli, sem ég held, að sé ekki ofmælt, að séu reyndir fyrirmyndar bændur og bændafulltrúar í landinu, láti nota sig eins og lítilþæga þjóna, mega trúa því fyrir mér. En það gæti verið, að það hefði verið rekið upp óp af hv. 2. þm. N.-M. eða einhverjum, sem honum standa nærri, ef aðrir hefðu lýst bændastétt landsins þannig.

Þá var hv. 2. þm. N.-M. að tala um það, hve ríkisstj. hefði gert bændum mikið tjón með seinlæti sínu hvað haustslátrun snerti og hversu seint hefði verið tilkynnt, að hún ætlaði að greiða niður nokkurn hluta af landbúnaðarvörunum, og hve mikill dráttur hefði verið á að setja reglugerð samkv. bráðabirgðal. eftir 9. sept. Það liggur ekki nú fyrir til umr., en vegna þess að hv. þm, gefur tilefni til, mun ég nokkuð ræða það mál.

Ég býst við, að hv. þm. hljóti að sjá, ef hann hugsar sig um, að það er ekki lítið atriði fyrir stj. og skiptir ekki litlu máli, hvort hækkun á verði leiddi til þess, að kjötsala minnkaði stórum frá því, sem var á undanförnum árum, eða héldist óbreytt eins og hún hefur áður verið. Þetta varð ríkisstj. að fá að vita, áður en hún gæti tekið endanlega afstöðu til endurgreiðslu: Það er reynslan ein, sem getur skorið úr í þessu efni, nema ef vera kynni, að hv. 2. þm. N.-M. hefði getað sagt um það, en það er eftir að vita, hvort hans spádómar hefðu verið teknir jafngildir og reynslan. Reynslan sýndi það svo, að það dró svo mikið úr kjötsölunni, að stj., taldi ekki fært að láta þar við sitja. Og a. m. k. meðfram vegna þessarar reynslu var þessi ákvörðun tekin, að greiða niður til þess að örva kjötsöluna, en þó að það hafi dregizt í fulla viku að setja reglugerðina, þá er það aðeins fyrirsláttur, sem enginn maður meinar neitt með, að segja, að það hafi áhrif á kjötsöluna, enda aðeins haldið fram til þess að sverta með störf ríkisstj. Eftir að l. eru komin, vita menn þau í öllum aðalatriðum og hvernig niðurgreiðslum er háttað, og það skiptir mestu máli.

Þá skal ég taka það fram, að í niðurlagi ræðu hv. 2. þm. N.-M. held ég, að hafi verið mjög mikil skynsemi, en af því að ég skildi hana ekki til fulls, treysti ég mér ekki til þess að svara henni.