26.04.1946
Efri deild: 114. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í C-deild Alþingistíðinda. (4493)

50. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft þetta frv. til athugunar, og hafa nm. orðið á einu máli um að leggja til, að breyt. verði gerð á frv. Hins vegar hafa nm. ekki getað orðið sammála um, hverjar þær breyt. ættu að vera, sem gerðar yrðu, nema að því er tekur til Jóhanns Stefáns Thorarensens, en nm. eru allir sammála um að leggja til, að hann verði tekinn í frv. Meiri hl. allshn., hv. þm. Seyðf., hv. 6. þm. Reykv. og ég, vill að þessu sinni eingöngu láta veita þeim mönnum íslenzkan ríkisborgararétt, sem eru af íslenzkum ættum eða hafa dvalið hér á landi frá barnæsku, en öðrum verði að þessu sinni neitað um ríkisborgararétt. Minni hl. n., hv. 1. þm. Eyf. og hv. 4. landsk. þm., vilja hins vegar samþ. frv. eins og það liggur fyrir, þó með Jóhanni Stefáni Thorarensen að viðbættum einum erlendum manni, sem þeir leggja til, að verði tekinn upp í frv. Í l. um ríkisborgararétt frá 1935 er þeirri reglu slegið fastri, að hægt sé að veita mönnum íslenzkan ríkisborgararétt, ef þeir hafa verið búnir að vera hér á landi heimilisfastir í 10 ár og fullnægt öðrum skilyrðum. Það hefur verið venja hingað til að veita erlendum mönnum þennan ríkisborgararétt, ef þeir hafa fullnægt þeim almennu skilyrðum, sem sett eru í þessum 1. frá 1935. Síðan þessi 1. voru sett, hafa mjög margir erlendir menn leitað hingað til lands og fengið hér búsetu og atvinnuréttindi, og hafa sennilega á þessum rúmum 10 árum, sem þessi 1. hafa gilt, leitað hingað og fengið hér atvinnuréttindi fleiri erlendir menn en nokkru sinni áður. Veldur því ýmislegt, en ekki hvað sízt, að í einu fjölmennasta landi álfunnar hafa innanlandsástæður valdið því, að margir menn hafa orðið að flýja það land og taka sér aðsetur annars staðar, þar á meðal hér á landi. Þannig að fyrir stríð höfðu ákaflega margir erlendir menn leitað hér eftir búsetu og atvinnuréttindum og fengið það. Í sjálfu stríðinu hafa einnig margir erlendir menn leitað hingað og fengið að dvelja hér og notið hér aðeins réttinda, sem hægt er að veita útlendingum, sem ekki hafa hér ríkisborgararétt, og meira að segja eftir að sjálfu stríðinu lauk, hafa leitað hingað fjöldamargir útlendingar eftir dvöl og atvinnu, og má segja, að með hverju skipi, sem kemur frá útlöndum, komi erlendir menn, og það svo hundruðum skiptir, hingað til lands til að setjast hér að og reyna að skapa sér hér atvinnuskilyrði. Fjöldamargir leita svo eftir að fá að koma hingað, en er neitað um landsvist. Nú þegar styrjöldinni, sem staðið hefur í nokkur ár, er lokið, og ýmis aðstaða verður öðruvísi en meðan á henni stóð og árin þar á undan, virðist okkur, meiri hl. allshn., að það sé fullkomin ástæða til að taka til athugunar og endurskoðunar, hvort ekki sé rétt að taka upp nýja stefnu í starfsaðferðum um að veita íslenzkan ríkisborgararétt. Um verulegan hluta af þeim erlendu mönnum, sem hér eru staddir og leita og munu leita eftir íslenzkum ríkisborgararétti, má segja, að sé beinlínis óhjákvæmilegt að veita hann. Á ég þar fyrst og fremst við danska ríkisborgara eftir að sambandinu milli Íslands og Danmerkur var slitið og fyrir er séð um það, að hinn sameiginlegi ríkisborgararéttur milli þessara landa hlýtur að falla niður eða verða gerbreytt, og þá er óhjákvæmilegt að koma einhverri nýrri ákveðinni skipun á þau mál. Eins og nú standa sakir milli þessara tveggja landa og hv. alþm. er kunnugt, fara fram samningaumleitanir um það, hvernig þeim málum skuli skipað, sem við sérstaklega þurfum að semja við Dani um. Eitt af þeim málum er einmitt ríkisborgararétturinn og hvernig skuli farið með þá Dani, sem hér dvelja, og þá Íslendinga, sem í Danmörku dvelja. Þetta er atriði, sem samninganefndir þær, sem nú eru starfandi milli ríkjanna, hljóta að ræða og gera sínar till. um. Meiri hl. allshn. finnst réttara, meðan þessir samningar standa yfir, að staldra við og bíða eftir niðurstöðu af þeim samningum en að taka ákvarðanir um að veita frekari ríkisborgararétt til danskra þegna. Nokkuð svipuðu máli má segja, að gegni um þá aðra erlenda ríkisborgara, sem fyrir eru og leita eftir íslenzkum ríkisborgararétti. Langmestur hluti þeirra, þegar Dönum er sleppt, eru þýzkir ríkisborgarar. Það eru yfirleitt menn, sem hafa orðið að flýja land sitt, flestir af innanlandsástæðum, sumpart vegna stjórnmálaskoðana sinna og sumpart af kynflokkaástæðum. Nú þegar styrjöldinni er lokið, þá eru að sjálfsögðu ekki lengur fyrir hendi þær ástæður, sem fyrir hendi voru, þegar þessir menn komu hér og tóku sér hér búsetu og fengu vinnuréttindi. Ástandið er nú þannig, eða má vænta þess að það verði, að það sé opin leið fyrir þessa menn að leita aftur heim til föðurlands síns, ef þeir kjósa að setjast þar að á ný, án þess að verða fyrir ofsóknum vegna stjórnmálaskoðana sinna eða vegna þess, af hvaða kynflokki þeir eru. Það er því mjög eðlilegt, einnig í sambandi við þessi mál, þegar aðstæður eru þannig breyttar, að það sé líka staldrað við og séð til með það, hvort þeir óska ekki nú, þegar aðstæður eru breyttar og kyrrð verður komin á, að leita aftur heim til föðurlands síns að nýju, og hvort íslenzk stjórnarvöld sjá ástæðu til að hafa landið eins opið fyrir þessum flóttamönnum og hefur verið hingað til.

Ég skal taka það fram, að ég er ekki sérstaklega að benda á það eða halda því fram, að við eigum að neita þessum mönnum um ríkisborgararétt, þegar til kemur. Mér virðist ástæða til, eins og sakir standa, að við hinkrum við og sjáum til, hvernig málin skipast, þegar kyrrð er komin á og búið að taka til endurskoðunar þau ákvæði og þær starfsaðferðir, sem hingað til hafa gilt um veitingu íslenzks ríkisborgararéttar. Þetta ætti ekki að þurfa að taka ýkja langan tíma. Þessum málum ætti að geta verið lokið það snemma, að hægt verði að gera það upp við sjálfan sig og koma því á hreint nú í sumar, hvernig þessum málum verður skipað. Og Alþ. í haust ætti að geta tekið ákveðna afstöðu til þess, hvernig þessu máli skuli hagað í framtíðinni. Það er að sjálfsögðu engin hætta eða óþægindi að þessum fresti fyrir þá útlendinga, sem hér eiga hlut að máli og ætlazt er til, að verði að bíða, meðan athugun fer fram, vegna þess að þeir hafa hér atvinnu og landsvistarrétt og engum hefur komið til hugar, að þeim verði vísað úr landi, meðan þessi mál eru í athugun.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fylgja þessum till. okkar meiri hl. úr garði með fleiri orðum. En ég legg áherzlu á það, að við höfum eingöngu lagt til, að ríkisborgararéttur verði að þessu sinni aðeins veittur þeim mönnum, sem eru af íslenzkum ættum eða hafa dvalið hér á landi frá barnæsku.