26.04.1946
Efri deild: 114. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í C-deild Alþingistíðinda. (4495)

50. mál, ríkisborgararéttur

Bjarni Benediktsson:

Ég get ekki stillt mig um að segja nokkur orð vegna ummæla hæstv. forseta. Þetta mál er talsvert erfitt, og ætti helzt ekki að tala um einstaka menn. En ég tel rétt vegna ummæla hæstv. forseta, þess efnis, að ekkert væri við menn þessa að athuga, að skýra frá því, að í fyrra kom til mín einn af þessum umsækjendum og lagði fast að mér að stuðla að því eftir megni, að rétturinn yrði veittur. Hann kvaðst mundu hverfa af landi brott þegar er hann hefði öðlazt réttinn, því að þá gæti hann fengið landsvistarleyfi annars staðar. Við vitum, að þetta hefur komið fyrir áður. Menn hafa komið hingað, haft skamma viðdvöl, horfið síðan af landi og fengið leyfi til landsvistar í öðru landi, en það hafa þeir fengið einvörðungu vegna þess, að áður höfðu þeir öðlazt ríkisborgararétt hér á landi. Nú liggur fyrir vitneskja um það, að einn aðili a. m. k. af umsækjendunum ætli að nota þennan rétt á greindan hátt, og er þá af þeim sökum full ástæða til þess fyrir okkur að fara varlega. Hins vegar, þegar ró er komin á í heiminum, þá horfir málið öðruvísi við, ef fólk þetta vill dveljast hér framvegis og haga sér vel, og er ekkert nema gott um það að segja að veita því þá réttinn. En hér ber þess og að gæta, að margir af téðum mönnum hafa dvalizt hér nauðugir síðastliðin 5–6 ár, og er nauðsynlegt að draga þau ár raunverulega frá að því er varðar veitingu réttarins, því að þau sýna ekki vilja fólksins til dvalar hér. Að minni hyggju er óverjandi að veita öllu þessu fólki ríkisborgararétt að órannsökuðu máli. Stjskr. okkar ætlast til, að þetta mál sé grandgæfilega athugað.

Ef við viljum á annað borð veita réttinn, þá verðum við að veita öllum þeim, er um hafa sótt og uppfyllt skilyrði til að öðlast hann. En ég tel skaðlaust að láta málið bíða og vil líka, að það verði látið koma í ljós, hvort fólkið vill í rauninni dveljast hér, því að undanfarin 6 ár bera ekki á nokkurn hátt vitni þess, hvort menn vilja verða Íslendingar. Hér má og taka til athugunar, hvort einhverjum þessara manna leiki hugur á að öðlast íslenzkan ríkisborgararétt aðeins til þess að geta síðan fengið landsvist í öðru landi.

Vitanlega hef ég alls ekkert á móti því, að margt fólk öðlist þennan rétt, en ég held því fram, að láta eigi núverandi ástand sjatna og róast, áður en gengið sé til víðtækra breytinga á hlutaðeigandi löggjöf.