10.10.1945
Neðri deild: 5. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í B-deild Alþingistíðinda. (450)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Páll Zóphóníasson:

Ég sagði áðan í ræðu minni, að það, sem gæfi mér ástæðu til þess að segja, að verðlagsn. væri þæg við ráðh., væri það, að tveim vikum áður en hún var skipuð þá höfðu sumir nm. það álit, að það ætti að fást fullt 6 manna nefndar verð fyrir vörurnar. Svo fara þeir í n., og þá heldur enginn þeirra því fram, sem þeir höfðu áður talað um. Af þessu dreg ég þá ályktun, að þeir hafi skipt um skoðun. Hæstv. ráðh. má segja, að þeir hafi ekki haft neina skoðun, þó að þeir hafi haldið þessu fram, eða þá að þeir skipti um skoðun á nokkurra vikna fresti. Mér er sama, hvort heldur er. Hvorugu fylgir neinn manndómur. Og ef hæstv. ráðh. vill halda því fram, að það hafi verið hringlað í mér, þegar ég var í verðlagsnefndunum, þá væri gott, að hann vildi nefna dæmi því til sönnunar, og að ég hafi haldið fram, að verð á landbúnaðarafurðum ætti að vera allt annað en varð viku áður en ég tók þátt í að ákveða það. Ég skal fúslega viðurkenna, að stj. hafi hrært í mér, ef hann getur bent á, að ég hafi einu sinni haldið öðru verðlagi fram, áður en verð var ákveðið, en það síðar varð. Ég gæti hugsað mér, að það væri dálítið erfitt að finna dæmi um það.

Hæstv. ráðh. sagði, að þeir menn, sem hann hefði valið í landbúnaðarráð, séu í fremstu röð íslenzkra bænda. En þó er það nú svo, að helmingur af þeim eða allt að því eru menn, sem hafa verið að leita fyrir sér að fá að verða opinberir fulltrúar bænda í því héraði, sem þeir eiga heima í, en bændur hafa ekki viljað líta við þeim, og sumir hafa reynt það oft og sumir á fleiri en einu sviði. Svo félagslega þroskaðir eru þeir, að af ca. 10% af bændum landsins, sem ekki eru í kaupfélögum, er meira en helmingur af þeim mönnum, sem eru í búnaðarráð valdir. Þá er úr þeim fámenna hópi manna, sem ekki hafa viljað taka jarðræktarstyrk eftir samþykkt 17. gr. jarðræktarlaga, hægt að finna tvo til þess að verða í búnaðarráði, og þó eru ekki nema um 30 menn, sem ekki hafa tekið styrk eftir að 17. gr. varð til. Það eru svo sem félagslega þroskaðir menn, sem þarna eiga að vera formælendur fyrir bændur, og það þarf dirfsku til þess að halda því fram, að bændur hefðu valið þessa menn sjálfir, ef þeir hefðu verið að spurðir, þar sem það er vitað, að þeir hafa ekki hingað til þegið, að þeir ynnu neitt fyrir sig.

Þá sagði hæstv. ráðh., að hann hefði ekki á nokkurn hátt getað gert neitt til þess að ákveða, hvort hann greiddi niður kjötið eða ekki, fyrr en hann sæi, hvaða áhrif verðið hefði á söluna, og hann beið og sá, að salan var lítil, og þá ákvað hann að greiða niður. Það var af umhyggju fyrir sölunni, sem hann lét greiða niður. En hvers vegna var mjólkin greidd niður? Mjólkurverðið hafði engin áhrif á söluna. Í hálfan mánuð kostaði hún 1,82 lítr., en það hafði engin áhrif, nema kannske rétt fyrstu dagana, svo ekki meir. Hvers vegna þá að greiða niður mjólkina? Er það af umhyggju fyrir sölu hennar? Ætli það sé ekki af umhyggju fyrir einhverju öðru, fyrir vísitölunni og atvinnurekstri landsmanna yfir höfuð, það er fyrir því að verðlagsvísitalan færi hækkandi? Það mætti segja mér það, að af því að verðlagsvísitalan er reiknuð út annan virkan dag hvers mánaðar, þá hefur ekki verið hugsað um, þó að verðið væri hærra þennan part af sept., því að þá er búið að reikna út vísitöluna. Það mætti segja mér, að það væri hvorki af umhyggju fyrir framleiðendum né neytendum, heldur fyrir verði vísitölunnar í heild. Og það þarf enginn að segja mér það, að það sé annað en vísitalan, sem kemur þarna til greina. Neytendur mega borga, og það skiptir engu, hvort selst mikið eða lítið. En strax og mánaðamótin koma hefur verðið áhrif á vísitöluna, og áður þurfti að greiða niður.

Þá er það ákaflega margt, sem þarf að upplýsa í sambandi við þetta mál. Það er mjög óljóst, hvernig verðið verður greitt niður. Það eru margir hér í bæ og margir af stjórnarsinnum, sem segja, að það sé bara fyrirsláttur með þessar niðurgreiðslur, þær verði engar, l. verði breytt áður. Alltaf sé eilíft hringl í stjórninni, og henni megi í engu treysta. Nú er það eftir skattskránni, sem menn eiga að fá kjötniðurgreiðslu, en það eru margir, sem hafa flutzt hingað til landsins; sem komnir eru á þann aldur, að þeir þurfa kjöt, en þeir geta ekki fengið það, vegna þess að skattstofan má ekki ráðstafa þeim á skrána, því þeir eru ekki á skattskrá. Enn vita menn ekkert um, hverjir af skattskránni komast í „kjötskrána“ og fá kjötniðurgreiðslu. Þess vegna er það nauðsynlegt, að reglugerðin komi strax.