10.10.1945
Neðri deild: 5. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í B-deild Alþingistíðinda. (451)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Eysteinn Jónsson:

Ég ætla ekki að verða langorður, en það eru aðeins nokkur atriði, sem munu hafa komið fram í umr. áðan og mig langar að endurtaka, áður en málið fer til n.

Það er efni þessa máls, eins og hér hefur verið bent á af hæstv. ráðh. og þeim, sem hafa andmælt frv., að búnaðarráði er falið að kjósa verðlagsn. og henni falið að ákveða verðlag landbúnaðarafurða. En þetta búnaðarráð, sem á að hafa þetta mikla vald, er ekki skipað af bændastétt landsins, ekki kosið af bændum. Það er skipað af ráðh. Nú hefur hæstv. fjmrh. haldið því fram hér í þessum umr., og það hefur heyrzt áður, að með þessu hafi verðlagningarvaldið á landbúnaðarafurðum verið lagt í hendur bændanna sjálfra. Það er tæplega hægt að hugsa sér að ganga lengra í rökfalsi en með því að slá öðru eins og þessu fram. Á sama hátt mætti halda fram, að ef einhver stj. tæki upp á því að tilnefna þm. úr hópi landsmanna, þá væri samt sem áður valdið í höndum landsmanna. (Forsrh.: Í höndum landsmanna?). Já, í höndum landsmanna. Mundi hæstv. ráðh. vilja bera sér þessi rök í munn, ef hann treystir sér ekki til þess hér á Alþ. og annars staðar að halda slíku fram? Hvers vegna ber hann þá á móti því, sem allir vita, að með þessari ráðstöfun hans er verðlagsvaldið ekki lagt í hendur bændastétt landsins?

Ég vil segja, að með því, sem hér hefur verið gert, sé sparkað í bændastétt landsins, ekki sízt þegar þess er gætt, hvernig þessum málum er háttað í landinu, þegar aðrar stéttir eiga í hlut. Skyldi hæstv. ráðh. hafa boðið verkamannastéttinni að setja þau ákvæði með bráðabirgðal., að ákveðin tala manna, t. d. verkamenn, sem ráðh. sjálfur tilnefndi, ákveði kaupverð sjálfir í verkamannafélögum eða hafi einkarétt á að semja um kaupgjald í verkamannafélögunum? Enginn ráðh. mundi leyfa sér þetta. Hvernig stendur þá á því, að til er ráðh., sem leyfir sér að gera það, þegar bændastéttin á í hlut? Mundi það verða tekið sem góð og gild vara af hendi verkamanna, ef farið væri að á þennan hátt og því haldið fram, að með öðrum eins ráðstöfunum og þessum væri ákvörðun tekin um launagreiðslur og lögð í hendur verkamanna? Ég held ekki. Og það verður heldur ekki tekið sem góð og gild vara, þó að það sé bændastétt landsins, sem á í hlut. Það er ákaflega hættulegur leikur að leika sér þannig með hugtök eins og hæstv. ráðh. og stjórnarliðið gerir í sambandi við þetta mál, að halda því fram, að þetta málefni sé lagt í hendur ákveðinnar stéttar, þegar einstakur maður tekur völd og skipar menn til þess að fara með málið. Þetta er sama aðferðin og ofbeldismenn nota, þegar þeir kúga undir sig lönd og þjóðir. Hvernig var það t. d. í Noregi? Þar óðu þessir ofbeldismenn fram og tilnefndu menn úr hópi sinnar þjóðar til þess að fara með málin og sögðu: „Það eru Norðmenn, sem fara með sín mál“. Vildu Norðmenn taka undir það, að það væri norska þjóðin, sem færi með þessi mál? Nei, þeir vildu það ekki. Það er að vísu mikill stigmunur á því, sem ég tek til dæmis, en eðlið er það sama, og það er ekki heldur hægt að segja, að það sé bændastétt landsins, sem fer með verðlagsmál sín, nema hún kjósi sjálf fulltrúa til þess.

Um þessi mál ættu allir að geta verið sammála, og ég verð að segja það, að það er leiðinlegt að sitja á Alþ. og hlusta á það, að ráðh. haldi því fram, að með þessum ráðstöfunum, sem hér hafa verið gerðar, séu þessi mál lögð í hendur bænda, — og með því að nota orðið bændur eiga þeir við bændastéttina, því að annars er það markleysa, sem þeir segja.

Að síðustu vil ég minnast á það, sem hæstv. ráðh. sagði, að það hefði ekki verið hægt að fela bændastéttinni sjálfri að fara með þessi málefni að velja sér fulltrúa til þess að skipa verðlagsmálum, vegna þess, að mér skildist, — hann leiðréttir þá, ef það er ekki rétt, — að þá mundu hafa verið kosnir fulltrúar bænda til þess að ákveða verðlag landbúnaðarvara menn, sem væru á móti ríkisstj., og mundu þá um leið gera ráðstafanir, sem kæmu sér illa fyrir hana. Þessi hugsunarháttur er svo furðulegur, að ég er satt að segja undrandi yfir því, að hann skuli vera látinn koma fram, enda þótt hann væri til staðar. Þessi hugsunarháttur, að þeir, sem ákveða verð á landbúnaðarafurðum, verði að þjóna hug ríkisstj., þeir eigi ekki að starfa sem fulltrúar bændastéttarinnar, heldur fara alveg eftir því, sem ríkisstj. segir á hverjum tíma.

Ef þessi hugsunarháttur á rétt á sér, hvernig stendur þá á því, að ríkisstj. telur sér ekki nauðsynlegt að hafa sams konar vinnubrögð t. d. hvað snertir ákvörðun um kaupgjaldsmál í landinu, svo að einn þáttur sé tekinn? Ef ákvörðun í verðlagsmálum landbúnaðarins getur orðið svo örlagarík að verða ríkisstj. að fótakefli, þá á það líklega ekki síður við um ákvörðun kaupgjaldsmála. Ef ríkisstj. getur ekki starfað í landinu án þess að draga undir sig allt vald í því, taka af mönnum allt sjálfsákvörðunarvald í þessu efni, og hefur út frá þessum forsendum starfað í verðlagsmálum landbúnaðarins, hvernig getur hún þá komizt hjá því að gera það sama hvað aðrar stéttir snertir?

En það, sem hæstv. landbrh. upplýsti í þessu sambandi, var að því leyti þýðingarmikið, að með þessu er játað, hvernig stendur á því, að hæstv. stj. hefur viðhaft þessa aðferð, þegar bændastéttin á í hlut. Það stendur svo á því, að hæstv. ríkisstj. varð að kaupa sér áframhaldandi líf um stundarsakir með því að skipa fulltrúa til þess að ráðstafa verðlagsmálum landbúnaðarins, sem lækkuðu verðlagið, svo að hæstv. stj. gæti flotið af þeim ástæðum. Hæstv. stj. varð að setja menn, sem hún treysti til að skipa málunum ekki á þá lund, sem gerði bændastéttina jafnréttháa og aðra í þjóðfélaginu, heldur menn, sem skipuðu málunum á þá lund, sem yrði ekki til óþæginda fyrir hæstv. stj.

Nú hefur hæstv. ráðh. tekið fram, að þetta geti ekki staðizt, þó að hann annað veifið geri grein fyrir, að þetta sé ástæðan, vegna þess að hann hafi aldrei gert neina tilraun til að hafa áhrif á þá menn, sem hafa verið skipaðir í búnaðarráð eða kosnir í verðlagsn. landbúnaðarins. En það rétta í þessu máli er það, og það vita allir, að þeir voru skipaðir í búnaðarráð og kosnir í verðlagsn. sem fulltrúar hæstv. ríkisstj., en ekki sem fulltrúar landbúnaðarins. Ég skal ekki segja, hvað þeim hefur verið sagt, en þeir vissu, að þeir voru skipaðir til þess, að hæstv. stj. hefði ekki of mikil óþægindi af því, að það yrði henni ekki að fótakefli. Hvort hæstv. ráðh. hefur talað um, hvað margar krónur kjötkílóið mætti vera, skal ég ekki segja um, — það getur verið, að hann hafi ekki gert það, — en þessir menn vissu vel, til hvers þeir voru skipaðir, og valið á mönnum í búnaðarráðið og verðlagsn. sýnir þetta líka ákaflega glöggt. Þeir menn voru ekki valdir eftir því, hvort líklegt væri, að bændur mundu vilja fela þeim þessi málefni. Ég geri ráð fyrir, að telja megi þá menn í búnaðarráði á fingrum annarrar handar, sem valdir hefðu verið, ef bændur hefðu átt að gera það sjálfir. Nokkrir úrvals trúnaðarmenn bænda hafa verið valdir í ráðið, eins og Jón Árnason og Helgi Bergs, til þess að fyrirkomulagið geti haft á sér nægilega andstyggilegt yfirskin, en að mestu leyti eru skipaðir menn til að þjóna hinu sjónarmiðinu, sem ég lýsti áðan. Sést það bezt á því, að þótt ekki séu nema tiltölulega fáir bændur, sem fylgja hæstv. stj. pólitískt, þá hittist svo á, kannske af tilviljun, að yfirgnæfandi meiri hluti þeirra er úr þessum fámenna hópi bændastéttarinnar, þar á meðal einstakir menn, sem ekki mundu eiga þess nokkurn kost að komast í hreppsn. í sinni sveit, en eru skipaðir af stjórn landsins til að fara með þessi þýðingarmestu mál bændastéttarinnar. En svo til að bíta höfuðið af skömminni er því bætt við, að þessir menn séu fulltrúar bænda og með þessu sé verið að leggja þessi mál í hendur bænda, í staðinn fyrir að játa þá staðreynd, að þessir menn séu fulltrúar ríkisstj.

Ég skal svo ekki hafa þetta mál lengra. Ég vildi aðeins undirstrika þessi örfáu atriði, áður en málið fer til n. Tafalaust verður sú till. gerð í n., að stéttarsambandi bænda, sem nú hefur verið stofnað, verði falið að fara með þessi málefni. Það sést við meðferð málsins í n. og við 2. umr. málsins, hvort hægt er að byggja á því, sem fram hefur komið af hendi hæstv. ráðh. við þessa umr., en ég get ekki skilið það öðruvísi en svo, að hann væri með því að leggja þessi málefni í hendur stéttarsamtaka bænda, því að hann sagði, að ef til hefðu verið í landinu stéttarsamtök bænda í júlí s.l., þá hefði hann ekki hikað við að fela þeim verðlagsmálin. (Fjmrh.: Sagði ég ekki svolítið meira?) Ekki rekur mig minni til þess, — hæstv. ráðh. leiðréttir það þá. En síðar var hæstv. ráðh. að tala um, að það væri leiðinleg óeining hjá bændum um, hvernig þeir ættu að koma fyrir samtökum sínum. Illgjarn maður hefði getað litið svo á, að með þessu hefði hæstv. ráðh. verið að taka eitthvað af þessu aftur. Mér dettur ekki í hug, að hæstv. ráðh. viðhafi þá lítilmennsku að nota sér þann ágreining um hreint form til að taka aftur þá yfirlýsingu, sem hann hefur komið með, að hann í prinsipinu væri samþykkur því, að stéttarsamtök landbúnaðarins hefðu þessi mál með höndum, ef þau væru til, því að ef hæstv. ráðh. hefur meint alvarlega það, sem síðar kom fram innan sviga, þá hefði hann betur alls ekki sagt það, sem hann sagði áður í ræðunni.

Hitt vil ég taka fram, að það sjá allir, að það getur engin stétt komið upp og haldið uppi stéttarsamtökum, án þess að lítils háttar ágreiningur sé um formsatriði og fyrirkomulag. Vil ég þar vísa til verkamannasamtakanna, sem eru sterk samtök og hafa verið mikils virt í áratugi, en hvað eftir annað hefur verið uppi ágreiningur um einstök fyrirkomulagsatriði. Stundum hafa þær ágreiningsöldur risið nokkuð hátt, en ég man aldrei eftir, að nokkur maður hafi leyft sér að segja, að það væri almennur dómur um, að þau ætti að hafa að engu og þau gætu ekki talizt réttur aðili fyrir verkamenn í landinu, enda eru slík rök með öllu gersamlega óframbærileg. Ég vonast satt að segja eftir því, að við eigum ekki eftir að fá það ofan á allt annað, að því verði skotið við í sambandi við þetta mál, að sá ágreiningur, sem varð í sambandi við stofnun stéttarsamtaka bændanna, — sem var jafnaður á þann hátt, sem gert er, þar sem fyllsta lýðræði ríkir, að meiri hlutinn réði og minni hlutinn tók samt sem áður þátt í samtökunum, sé látinn vera þess valdandi, að slík samtök fái ekki að njóta réttar síns, því að þá hlýtur að liggja eitthvað annað þar á bak við en réttsýni og góðvilji í þessum málum.