02.03.1946
Sameinað þing: 30. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í D-deild Alþingistíðinda. (4525)

137. mál, kaup á skipinu Pétursey

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér, ásamt hv. þm. V.-Sk. og 10. landsk., að bera fram till. á þskj. 299. — Sjóminjasafn Íslands á m. a. að hafa það verkefni að varðveita og geyma margvísleg tæki, sem menn hafa á ýmsum tímum notað við sjómennsku, til þess að eftirkomendur okkar fái sem bezt yfirlit yfir atvinnuhætti þjóðarinnar. Nú eru hin opnu skip óðum að hverfa úr sögunni, a. m. k. hin stærri. Þessi skip eiga margra alda merkilega sögu að baki sér. Það er ekki tími til þess hér að fara ýtarlega út í þá sögu, en ekki verður annað sagt en, hún sé orðin löng og afdrifarík. Hin opnu áraskip Íslendinga koma mjög við sögu, enda hafa þau um langa hríð verið meginstoð flutninga og atvinnulífs þjóðarinnar. Ein merkileg tegund þessara opnu skipa eru hin svonefndu sandaskip. Það eru þau skip, sem íbúar Skaftafellssýslna, Rangárvallasýslu og Árnessýslu hafa haft til sjósóknar og aðdrátta um mjög langt skeið. Þessi skip eru mjög merkileg, smíðuð með það fyrir augum að brjótast í gegnum brimlöðrið við suðurströnd landsins. Nú eru þau óðum að hverfa sjónum okkar, og er nú hver síðastur að fá sér slík skip. Þess vegna væri mjög eðlilegt, ef hv. þm. vildu á það fallast að kaupa eitt slíkt skip og geyma til minja um dáðir forfeðra vorra á þessu sviði. Ég veit ekki til, að t. d. í Vestmannaeyjum, þar sem til var fjöldi opinna skipa, sé nú til neitt skip, er gefi rétta hugmynd um opin áraskip, t. d. áttæring eða tíæring. Þau eru horfin, hafa verið rifin eða fúnað. En nú vill svo til, eins og segir í grg. á þskj. 299, að í Vík í Mýrdal er til eitt sæmilega gott opið áraskip í eigu Jóns Halldórssonar kaupmanns. Það heitir Pétursey.

Hún, á merkilega sögu, sem sjálfsagt verður einhvern tíma sögð eftirkomendum okkar. Þetta skip er í allgóðu ástandi og væri hæfilegt sem minjagripur fyrir íbúa þessa lands í framtíðinni. Væri vel til fallið, að þessi merkilega fleyta úr Skaftafellssýslu yrði varðveitt frá eyðileggingu, og þar með mundi sá flokkur skipa, sem hún tilheyrir, verða varðveittur frá gleymsku.

Það mun víst óþarfi að tala hér langt mál, enda erum við flm. þess fullvissir, að hv. alþm. muni taka undir með okkur. Þetta skip hefur verið allvel varðveitt, eins og áður er sagt, enda er það mikill hirðumaður, sem á það, og mætti búast við, að það væri ekki í eins góðu ásigkomulagi, ef það hefði ekki verið í eigu þessa mæta manns. Okkur flm. þótti sjálfsagt að vekja athygli á þessu, ef unnt væri að fá þessar merku minjar um sjósókn landsmanna til varðveizlu og geymslu fyrir óbornar kynslóðir.