29.04.1946
Neðri deild: 129. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í C-deild Alþingistíðinda. (4527)

50. mál, ríkisborgararéttur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil mjög taka undir orð hv. 7. þm. Reykv. að það er fullkominn tími til kominn að afnema þessar leifar hinna konungskjörnu. Það er ósvífið af Ed. að fara að afgreiða svona ranglæti í lok þingsins. Ég álít, að Ed. hafi haldið skammarlega á þessu frv. og níðzt á þessum mönnum, sem um er að ræða, og unnið þjóðinni tjón í ofanálag. Og ég verð að segja, að ég get alls ekki sætt mig við þetta. Mér finnst það hart, að menn, sem orðnir eru Íslendingar og hafa unnið hér alla sína ævi, séu beittir þessum órétti, þegar feður þeirra hafa látið lífið, vegna þess að föðurland þeirra var kúgað.

Mér finnst óeðlilegt, að Nd. sætti sig við svona ofríki Ed. Þessi deild hefur áður stöðvað hin nýtustu mál eða stórskemmt frv. Svo tefur þessi deild þinghaldið. Ég tel sjálfsagt, að Nd. reyni að bæta úr mistökum sínum, og neita því alveg, að Nd. beygi sig undir vilja Ed.

Við eigum að láta Ed. breyta þessu. Og ef brtt. á þskj. 1018 verður ekki samþ., mun ég greiða atkv. á móti frv. Ég tel enga ástæðu til þess, að meiri hl. þings sætti sig við að láta hv. efri deild setja úrslitakosti í þessu máli. Ef hún vill ekki venja sig á að hlíta venjulegum þingræðislegum reglum, hljótum við að kenna henni það, þar sem augljós er vilji þingmeirihlutans í þessu máli.