10.10.1945
Neðri deild: 5. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í B-deild Alþingistíðinda. (454)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls, enda á ég sæti í þeirri n., sem fjallar væntanlega um þetta mál. En umr. í gær hnigu í þá átt, að mér fannst ég ekki geta látið hjá líða að segja nokkur orð sérstaklega um eitt atriði, sem þá kom fram mjög ákveðið og var gert að umtalsefni. Ég skal taka það fram, að ég er andvígur frv., sem hér liggur fyrir, og mun ég ef til vill fá tækifæri til að gera nánari grein fyrir því. En ég fæ ekki séð, að hvaða gagni það getur verið þessu máli að taka fyrir þá menn, sem ráðh. hefur skipað, og úthúða þeim eins og gert var í gær. Þeir af þessum mönnum, sem ég þekki og hef haft spurnir af, eru undantekningarlaust í hópi fremstu manna í sinni stétt. Það var helzt að skilja á tveim ræðumönnum, hv. 2. þm. N.-M. og hv. 2. þm. S.-M., að þessir menn væru nærri því úrhrak bændastéttarinnar, sem ekki einu sinni hefðu komizt svo langt, að þeir hefðu nokkurn tíma komizt í hreppsnefnd. Ég segi það, að ég get ekki séð, hvaða ávinningur þessu máli er að slíkum málflutningi, og ef þessi hv. þm. halda það, þá held ég, að þeir séu á villigötum. Annar ræðumaður sótti þessa ádeilu svo langt, að hann taldi það sýna þroskaleysi þessara manna, að þeir hefðu ekki tekið á móti jarðræktarstyrk. Í mínum augum eru þeir menn að meiri fyrir þetta; ég hef sjálfur aldrei tekið á móti jarðræktarstyrk síðan þær kvaðir voru á hann lagðar, sem gert var, og geri það ekki fyrr en þeim er af létt, og það er af þeim ástæðum, að ég tel mér það í sjálfsvald sett að segja til um það, hvort ég vil taka á móti peningum með ákveðinni kvöð eða ekki. Ef hv. 2. þm. N.-M. væri sett það skilyrði fyrir því, að hann tæki þingfararkaup sitt, að hann greiddi alltaf atkv. eins og forsrh., þá mundi hann auðvitað ekki taka peningana, og í mínum augum væri sá maður, sem það gerði, hinn mesti vesalingur, ef hann gerði slíkt, og það verður auðvitað að vera á valdi hvers manns, hvort hann vill taka á móti peningum, sem kvöð fylgir og hann er andvígur. Það er því síður en svo, að þetta sé nein óvirðing. En hvað hafa þá þessir menn til saka unnið, að þeir séu þannig teknir fyrir hér á Alþ.? Þeir hafa verið kvaddir hér til að vinna ákveðið starf, starf, sem er gert að borgaralegri skyldu að inna af hendi, starf, sem þessir menn áttu ekki annars úrkosta en að takast á hendur. Það, sem er kjarni þessa máls, er að einum manni er fengið alræðisvald til þess að velja þessa menn, og það er það, sem ég er á móti. Slíkt vald getur verið gott og farið sæmilega úr hendi hjá góðum manni, en það er líka jafnvíst, að það er með öllu óþolandi í höndum misindismanna. Og þó að ég telji, að valið út af fyrir sig hafi ekki misheppnazt og það sé þarna margt nýtra og góðra manna, og sumir sómi sinnar stéttar, þá er það svo, að bændastéttin hlýtur að heimta þetta vald í sínar hendur og getur ekki sætt sig við það einræði, sem hér kemur fram.

Það var þetta, sem ég vildi sérstaklega víkja að, að ég kunni ekki við þær umr., sem fóru fram í gær. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fara út í þær missagnir og öfgar, sem komu fram á báðar hliðar, bæði hjá þessum tveim hv. þm. og hv. þm. A.-Húnv., en ég undanskil hæstv. landbrh. og hv, þm. Mýr., sem töluðu um málefnið eins og ræða á málefni okkar bændanna. Þeim verður ekki bezt borgið með hóflausum öfgum, eins og komið hafa fram í þessum umr., heldur með rólegri og skynsamlegri yfirvegun og með því, að menn reyni að finna lausn þeirra vandamála, sem fyrir liggja, en ég tel, að sú lausn liggi ekki fyrir í þessu frv.