10.10.1945
Neðri deild: 5. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í B-deild Alþingistíðinda. (455)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Páll Zóphóníasson:

Það, sem ég vildi einkum segja, var það, að mig undrar, að hv. 2. þm. Skagf., sem er einn í stjórn stéttarsambandsins, skuli vera sammála hv. þm. A.-Húnv. (JPálm) og hæstv. ráðh. Ég skal ekki víkja mörgum orðum að hv. þm. A.-Húnv., enda þarf þess ekki til að sýna, hversu hann er óhlutvandur og ósannsögull.

Mig furðar ekki á því, þótt hæstv. ráðh. haldi því fram, að bændur einir ráði nú verðlagningu landbúnaðarvara, en mig furðar á því, að hv. þm. A.-Húnv., sem telur sig fulltrúa bænda, skuli láta hafa sig til þeirra verka, sem raun ber nú vitni. Hann sagði, að 5 bændur sætu nú í verðlagsnefnd og þeir væru kosnir af bændum. Þetta er alrangt; 5. maðurinn er skipaður af ráðh. og er ekki bóndi, og hinir 4 kosnir af búnaðarráði, sem að vísu eru í margir bændur, en allir skipaðir af ráðh., en ekki kosnir af bændum. Fleira mætti taka fram til að sýna rangfærslur og ósannsögli þessa hv. þm., en þingmenn og alþjóð veit, að hann á erfitt með að gera mun á réttu og röngu eða ruglar því saman vísvitandi, svo að ekki þarf að nefna fleira.