10.10.1945
Neðri deild: 5. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í B-deild Alþingistíðinda. (457)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Jón Pálmason:

Herra forseti. Hv. síðustu ræðumenn hafa talað lengi. Út af ræðum þeirra langar mig til þess að segja nokkur orð. Hv. 2. þm. N.-M. ásakaði mig um að fara með ósannindi. Form. verðfagsnefndar getur nú samt fyllilega talizt bóndi, þar sem hann stjórnaði á s. l. ári stærsta búi ríkisins. Sérstaklega var skipt um fulltrúa í mjólkurn. Ég mun ekki svara þessu meira.

Það var auðvitað algerlega sagt út í bláinn hjá hv. þm., að ég væri einhver eftirlitsmaður ríkisstjórnarinnar við skipun búnaðarráðs, og er ég enginn fulltrúi hennar í búnaðarráði eða verðlagsnefnd.

Hv. 2. þm. S.-M. gæti nú gefið manni tilefni til þess að ræða alla íslenzku pólitíkina, en ég mun aðeins víkja að eftirfarandi: Hann sagði, að það væri hrein óhæfa að skipa þessa menn í búnaðarráð. Hv. 2. þm. Skagf. svaraði tilefnislausum árásum hans á þessa menn. Hins vegar má benda á það, að alla valdatíð Framsfl. voru fulltrúar í verðlagsn. landbúnaðarins pólitískir fulltrúar hans. Hv. þm. breiddi sig út yfir það, að ég og hæstv. fjmrh. hefðum tekið verðlagsvaldið úr höndum bænda og ég hefði sagt það, en ég hef aldrei haft þau orð. Hins vegar hef ég sagt, að það væri í höndum bænda. Áður voru aðeins 2 menn réttilega fulltrúar bænda. En þessir 5 menn, sem nú eru í verðlagsn., fjalla allir um sína eigin hagsmuni. Hjá þeim ríkja engin önnur sjónarmið en bænda.

Hv. 2. þm. S.-M. þótti það furðulegt, að ég skyldi hafa deilt á hv. 2. þm. N.-M. fyrir of hátt afurðaverð. Þetta er fullkomið öfugmæli. Ég hef einmitt haldið því fram, að verðlagið hafi verið of lágt og að landbúnaðurinn hafi hlotið af því óbætanlegt tjón. Verðið hefur verið reiknað aftur í tímann til 1939, en það eru ósannindi, að það hafi verið reiknað af hagstofunni til 1934. (PZ: Það var ekki reiknað af hagstofunni.) Hv. 2. þm. S.-M. talaði um það, hvort fulltrúar verkamanna mundu sætta sig við það, ef einhver ráðh. skipaði 25 menn til þess að ákveða kaupgjald. Hæstv. fjmrh. talaði í gær um það, hvort verkamenn vildu, að félmrh. skipaði það. Neitandi svar kom. Hv. 2. þm. S.-M. vék að því, sem ég gat um áðan, að það hefði sýnt sig, að þeir menn, sem veittu l. harðasta mótspyrnu, væru með yfirsjónarmið, sem ekki miðuðu fyrst og fremst að því að vinna bændum gagn, heldur gera ríkisstj. óleik. En þetta hefur verið sjónarmið Framsfl. Hann sagði, að ég væri með getsakir í garð stéttar minnar. Það er oft tilviljun, hvaða menn veljast í trúnaðarstöður. Hann nefndi dæmi um val í mínu héraði. Enn fremur, að rétt fram að þessu hefði meiri hluti bænda hallazt að því, að stjórnarandstaðan væri málsvari bænda. Meiri hluti búnaðarþings heimtaði 20% hækkun á afurðum bænda og greiðslutryggingu. Þetta hefði kostað landsmenn 40 millj. kr.

Hv. 2. þm. S.-M, bar saman afstöðu bænda og skipaverkfallið á millilandaskipunum. Þær kröfur eru auðvitað ekkert sambærilegar, þar sem sjómenn gera miklu hærri kröfur. En ríkisstj. hefur ekki á sínu valdi að segja: Þú skalt vinna þarna fyrir þetta kaup. Hv. 2. þm. S.-M. vildi halda því fram, að við lægjum á hagsmunum bændastéttarinnar og tröðkuðum á rétti hennar. Þetta er reyndar svo mikil fjarstæða, að hún er naumast svara verð. Það er tæplega hugsanlegt annað en sjónarmið framleiðenda verði alltaf annað en viðhorf launþega. Eða vill nokkur halda því fram, að það sé skylda ríkissjóðs að styrkja framleiðendur, þó að illa ári, eða ætti hann að bæta hallann á síldveiðunum í sumar? Því miður getum við ekki gert kröfu til, að ríkissjóður ábyrgist verðið á afurðum, þó að hann hafi bætt þær upp nú að undanförnu. Afurðirnar hljóta alltaf að vera háðar þeim markaðsmöguleikum, sem fyrir hendi eru: Hér talar því hv. þm. út í bláinn, því að kröfur framleiðenda hljóta með þessu að vera ósambærilegar við verkamanninn, sem verður að taka þá vinnu, sem býðst. Hv. 2. þm. S.-M. sannaði því, á hvaða svellbungu hann er staddur, þegar hann er að lýsa eftirgjöfinni, sem ekki var eftirgjöf, heldur samningur. Í því efni vorum við alveg sammála, að með þeim samningi komumst við bændur lengra en hægt var að komast á annan hátt. Við getum ekki krafizt þess, að ríkissjóður kaupi vörur okkar og tryggi okkur framleiðslukostnað.

Þegar hv. þm. var að segja, að þessi samningur, sem gerður var síðastl. haust, hafi verið notaður til þess að hækka allt kaup, fór hann með tilhæfulaus ósannindi. Það, sem gerzt hefur, er einungis það, sem hv. þm. hafði sjálfur gengið inn á og er afleiðing af því, sem gert var í marz 1944, en þá varð hækkun grunnkaupsins 16% hjá Dagsbrún, því að annað var aðeins samræming, þar sem kaupið víða úti á landi hafði verið allmiklu lægra. Ef einhverja er að ásaka, þá eru það mennirnir, sem að því stóðu. Ein af mörgum villukenningum þeirra, sem eru í andstöðu við ríkisstj., er það, að búnaðarráð hafi ekki verið fulltrúi bændastéttarinnar, því að ekki er hægt að bera á móti því, að búnaðarráð hafi verið skipað bændum og störf þess hagkvæm og unnin af bændum. — Er hægt að líta á það sem réttmæta kröfu, að ríkið greiði 10–20 eða 30 milljónir umfram það, sem nú er ráðgert? Eða hvernig hefði átt að fá þá peninga?

Hv. 2. þm. S.-M. var að deila á ríkisstj. fyrir það, hversu reglugerðin hefði komið seint. Ég viðurkenni, að það hefði verið æskilegra, að hún hefði komið fyrr. En eftir að brbl. voru sett, mátti hver maður vita, að hann átti von á niðurgreiðslu, þó að blöð framsóknarmanna hafi alið á úlfúð og reynt að þyrla upp ryki í þessu máli.