27.04.1946
Sameinað þing: 42. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í D-deild Alþingistíðinda. (4588)

207. mál, vátryggingargjöld vélbáta

Sigurður Kristjánsson:

Hv. þm. Barð. sagði, að samkomulag hefði orðið milli okkar um að hafa þessa umr. ekki langa. Það er rétt, að hann kom til mín og sagðist ekki mundi gefa tilefni til langra umræðna, en yrði þó að gefa skýrslu að því er snerti mína afstöðu. Þá kvaðst hv. þm. Barð. verða því fylgjandi, að málinu yrði vísað til ríkisstj. En nú er hann ekki fyrr staðinn upp en hann svíkur þetta loforð, sem hann gaf ótilkvaddur.

Þá sagði hann, að ég hefði sagt, að grg. fyrir tillögunni væri tóm vitleysa. Ég fór þó mjög hóflega í umsögn minni um þetta, sagði einungis, að n. hefði fengið rangar upplýsingar. En þar sem nú hefur verið gefið tilefni til þess, hlýt ég að fara nánar út í þær skekkjur, sem eru í grg. T. d. stendur í grg., að Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja greiði einungis 3% í iðgjöld. En vitanlega er það eins og að stökkva vatni á stein að segja hv. þm. Barð. þetta, hann bara hristir sig. Af einskærri miskunnsemi hef ég upplýst hv. þm. Barð. um rangfærslur hans í sambandi við iðgjaldagreiðslur Bátaábyrgðarfélags Vestmannaeyja og kostnað við erlenda endurtryggingu. En það eru fleiri en kálfar venjulegir, sem launa illa ofeldið.

Þá telur þessi hv. þm. enga fyrirhyggju í því að tryggja ekki báta eftir kostnaðarverði, en það er það, sem alltaf hefur verið gert. — Hann heldur því fram, að ekkert íslenzkt tryggingarfélag borgi eins lág iðgjöld og Vestmannaeyjafélagið. Þetta er ekki heldur rétt. Það eru til félög hér á landi, sem tryggja fyrir 5%, en það er svipað og hjá Vestmannaeyjafélaginu. — Þannig er öll grg. eintómt fimbulfamb og staðlausir stafir. Mig undrar það stórlega, að maður, sem er að gutla við útgerð, skuli ekki geta skilið jafnaugljósan hlut og þann, að iðgjöldin miðast við áhættuna og það er staðreynd, að hættan er tiltölulega mest í vondum höfnum og það er það, sem verið er að prófa, hvar hættan er mest.

Hv. þm. Barð. sagði, að Stríðstryggingafélag íslenzkra skipshafna hefði gert tilboð í að tryggja bátana, en þetta félag hefur ekki enn þá leyfi til að tryggja. Sannleikurinn er sá, að þetta félag hefur verið að pota við það með n. að bjóðast til að tryggja nýja báta, en hvernig mundi þá fara um ruslið? Ég ætla ekki að draga þetta félag inn í umr., en ég ætla, að það hafi líka tryggt erlendis. Ég hef séð reikninga, sem sýna, að félagið hefur greitt ½ millj. kr. til erlendra aðila, en fékk einungis 100 þús. til baka. Þetta kalla ég að ausa fé til óþarfa.

Ég skal svo láta nægja að endurtaka þetta: Það eru útgerðarmenn sjálfir, sem þetta mál varðar mestu. Þeir ætla sér að tryggja bátana fyrir sanngjarnt verð og hafa falið n., sem þeir hafa sjálfir kosið, að gera till. um þetta mál og ráða fram úr því í samráði við ríkisstj., og það er engin Barðstrendinganefnd, sem íslenzkir útvegsmenn hafa kosið til þessa.

Ég held, að enginn ágreiningur geti orðið um það að vísa málinu til ríkisstj.