10.10.1945
Neðri deild: 5. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í B-deild Alþingistíðinda. (459)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Eysteinn Jónsson:

Ég skal ekki hafa mál mitt langt, því að þess gerist ekki þörf, og auk þess hef ég ekki mikið að kvitta fyrir. Ég vil þó leyfa mér að minnast á fjögur atriði. — Hv. þm. A.-Húnv. gat þess, að ég hafi fallizt á þær kauphækkanir, sem orðið hafa, en þetta eru hrein og bein ósannindi. Enn fremur segir þessi sami hv. þm., að ráðandi menn hafi það ekki á valdi sínu að skipa : Þú skalt hafa þetta kaup og ekki annað. — En nú segja bara ráðandi menn: Þetta færð þú fyrir mjólkina, — jafnvel þó að framleiðendur gætu fengið meira verð fyrir hana.

Þetta virðist mér nú mótsögn. Það hefur þó áunnizt talsvert við þessar umræður, þar sem hv. þm. viðurkennir, að verðlagsmál landbúnaðarafurða eru ekki í höndum bændastéttarinnar. Þetta vissu raunar allir áður, en bæði hann og ráðh. hafa reynt að dylgja með það, að það væru bændur, sem skipuðu málum sínum. Ég vil bara spyrja: Hvað mundu þessir sömu menn kalla það, ef Þjóðverjar hefðu skipað norska menn í stjórn í Noregi, hollenzka menn í Hollandi o. s. frv.? Mundu þeir kalla það, að þjóðin skipaði sínum eigin málum? Þetta er nákvæmlega hliðstæður málflutningur, og þetta þykir mönnum sæmilegt að segja, að valdið sé í höndum bænda, en ekki í höndum bændastéttarinnar. Ég þarf ekki að minnast frekar á þetta, en langar að minnast hér á eitt atriði, sem kórónar þetta allt saman.

Hv. þm. A.-Húnv. segir, að þeir, sem ráði verðlagningu landbúnaðarafurða, hafi viljað gera sitt bezta. En var ómögulegt að finna menn til þess nema landbrh. skipaði þá?

Og að lokum : Það vissu allir, að þannig var ástandið, að bændur vildu ekki slaka til aftur á verði afurða sinna, eins og þeir gerðu í fyrrahaust. Þetta vissi hæstv. ráðh., og þess vegna varð að fá einhverja aðra til þess.