12.12.1945
Sameinað þing: 17. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2141 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. Án þess að blanda mér inn í þetta mál, vil ég spyrja hæstv. forseta, hvort ekki sé unnt að taka á dagskrá till. á þskj. 122, um flugvelli. Þetta er nokkuð skylt mál, því að ef farið verður fram á herstöðvar, þá eru þetta hinar sömu stöðvar. Og óska ég eftir, að leitað verði samkomulags um meðferð þessara stöðva, hvað sem orðsendingu Breta líður. Hitt er svo annað mál, að það þarf að birta, hvað hefur gerzt í þessu máli, og orðsendinguna þarf að birta, og eru allir hissa, að það skuli ekki þegar hafa verið gert. Og ekki veit ég ástæðu til þess, að ríkisstj. haldi þessu leyndu.