08.11.1945
Sameinað þing: 6. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í D-deild Alþingistíðinda. (4605)

47. mál, bændaskóli Suðurlands

Eiríkur Einarsson:

Ég skal stilla orðum mínum í hóf og ekki hafa langt mál um þessa till.

Hv. flm. (JJ) till. minnist á það, að hér mundi ekki vera af andmælenda hálfu um góðan málstað að ræða. Það verður Alþ. að meta sjálft, hvað sé sanngjarnt af þeim rökum, sem fram koma um málið. En venjulega er það ekki talið benda á hinn góða málstaðinn, þegar sókn er hagað þannig, að staðreyndirnar eru hnoðaðar til eftir þörfum. Það þykir að síðustu venjulega bezt, að þær fái að tala sínu máli án tillits til sækjenda og verjenda. Hvað ég á við með þessu, þá vil ég fyrst láta þess getið, að mér finnst það ekki vera að sýna til hlítar vilja til að fara rétt með, þar sem því er sveigt að mér, að ég hafi vent mínu kvæði í kross, þar sem ég hef sótt málið áður, þegar það var í undirbúningi til lagasetningar, með tilliti til þess, að skólinn yrði reistur heima í Skálholti, þar sem bærinn stendur. Ég neita, að þetta sé rétt, og ég skal segja hv. þm., við hvað ég vil styðja þá neitun mína. Eins og öllum er kunnugt, var n. búin að fjalla um þetta mál og hafði gert till. um, að skólinn yrði reistur annaðhvort í Skálholti (meiri hl.) eða í Kálfholti í Ásahreppi ( minni hl. n.). En í nál., sem kom frá þessari n., — og sérstaklega veitti ég því athygli, þegar þetta var rætt, að þá var það gert að álitamáli, hvort skólinn yrði reistur heima í Skálholti eða einhvers staðar þarna vestur frá. Ég vil þar með ekki fara lengra í þessari umsögn en talizt gæti sannleikanum samkvæmt. Ég hygg, að í heild hafi nm. ekki verið á eitt sáttir, og sumir af þeim þremur, sem sæti áttu í n., álitu, að þetta gæti verið álitamál, svo mikið fullyrði ég. Og út af þessu atriði varð á síðasta þingi að lokum enginn hvalablástur. Það er ekki fyrr en nú eftir á, eftir hvalskurðinn, sem það verður. Af minni hálfu lá málið alveg opið fyrir, hver niðurstaðan yrði við útfærsluna eftir beztu manna yfirsýn, og ég tel, að eftir skipun n. að dæma, þá megi telja, að það sé eftir beztu manna yfirsýn.

Þannig lá málið fyrir. Það hefur ekki verið um nein straumhvörf að ræða hjá mér í þessu máll. Ég og margir fleiri eru þeirrar skoðunar, að það þurfi einkennilega málsókn til að telja mönnum trú um það, að með því að reisa skóla þann vestur í hæðadrögunum, sé það sama og að reisa nýbýli eða hjáleigu frá Skálholti. Það skýtur nokkuð skökku við að gera lítið úr þessari Skálholtshjáleigu, því að ólík er aðstaða hjá fátækum mönnum, sem stofna til nýbýla, því að hv. þm., sem hefur orð á þessu, breiðir sig út yfir það, hve mikið ætti að veita til skólans. En til nýbýla eru nú á fjárl. 1 millj. kr. frá í fyrra. Á fjárl. þessa árs 250 þús. kr. og næsta ár er með millj. og svo 1 millj. kr. þar næsta ár, og þessi hv. þm. gefur í skyn, að þetta haldi áfram. Ef þetta rætist, sem hv. 2. þm. Rang. (IngJ) hefur gefið í skyn, þá verður nýbýlið fullreisulegt kot, miðað við nýbýli eins og þau gerast yfirleitt. Það er erfitt að taka þetta alvarlega. — Annars vil ég skjóta því inn, að hv. 2. þm. Rang. breiðir sig út yfir það, hvað hæstv. fjmrh. (PM) hefur treyst sér til að setja í fjárlfrv. nú til bændaskólabyggingar í Skálholti, þá lítur út fyrir, að hv. þm. vilji skjóta gætnum alþm. skelk í bringu, — þá þykja mér þau orð koma úr allra hörðustu átt. Þetta á að verða menntasetur í faglegri kennslu fyrir bændaefni Suðurlands um langa framtíð, og þó nefnd sé milljón og aftur milljón á næstunni, þá hélt ég, að aðrir yrðu til þess en þessi hv. þm. að auka mönnum hræðslu. Og ef þetta væri samtal fyrir utan þinghelgina, vildi ég blátt áfram segja, að hann mætti skammast sín fyrir þetta.

Hv. 2. þm. Rang. vildi gera mikið úr því, hvað vegurinn heim að Skálholtsstað mundi verða kostnaðarsamur, og það er satt, að allar slíkar framkvæmdir eru dýrar og kosta, sína peninga. En til þess að segja blátt áfram, hvað mikla vegalengd er um að ræða, þá get ég upplýst það, að mér hefur verið sagt af þeim, sem hafa mælt þessa vegalengd, að hún sé 1560 metra löng. Vitanlega kostar mikið að leggja þennan veg, en að nefna hundruð þúsunda í sambandi við vegagerð, sem ekki er lengri en þetta, það held ég að sé að fara nokkuð langt yfir það sennilega. Margir bændur í strjálbýlinu hafa verið að basla við að leggja álíka langa vegarspotta heim til sín, með kannske lítils háttar hjálp úr sveitarsjóði, svo að mér þykir hart, að það skuli eiga að gera þetta að grýluatriði í framkvæmd slíks máls. Ef ég hef ekki rétt að mæla í þessu efni, hvað vegalengdina snertir, vona ég, að það verði leiðrétt, því að ég er fús til að taka leiðréttingu, ef hún er sannanleg. Sem sagt, mér er sagt, að vegalengdin sé 1560 m. — Alveg á sama hátt er það, þegar hann segir, að vegalengdin að Þorlákshver frá Skálholti sé 3 km. Þetta munar ekkert miklu, en endilega að láta skekkjuna vera á þennan veginn. Þetta sýnir, að málstaðurinn er ekki sterkur. Mér er sagt, að þessi vegalengd sé 2 km og 100 m samkv. mælingu, en hv. þm. gefur í skyn, að hún sé 3 km. Það skýrir sig sjálft, þetta skakkar ekki mjög miklu, en er nóg til þess að það er slagsíðað frá staðreyndum.

Það er talið af sama hv. þm., að það muni verða erfitt fyrir skólann að nytja túnið í Skálholti, þegar þessi hjáleiga væri stofnuð þarna vesturfrá, um 1 km vegalengd frá heimahlöðum Skálholts, þá ættu að verða vandræði að nýta þetta í 300 hesta Skálholtstún. Ég er barn í búfræði, en það er eins og hann sé varla kominn yfir tanntöku í þeim efnum.

Tillögumaður hefur rætt um staðinn heima í Skálholti og hver misgerð það sé við hann að setja ekki skólann þar heima, og hvað bæjarstæðið hafi verið vel valið af fornmönnum. Hver mundi mótmæla því, að fornmenn hafi verið útsjónarsamir að velja bæjarstæði? Enginn hefur á móti því. En þegar þetta mál er nánar athugað frá sjónarmiði þeirra, sem eru kunnugir í Skálholti, þá er það sjáanlegt, að ef vel væri hýst og uppdubbað, þá er þar fallegt og virðulegt. En bæjarstæðið er nokkuð bratt og út frá því tiltölulega hallalítil mýrarvík strax fyrir austan og sunnan. Og þegar þetta fagra bæjarstæði var valið af þeim gömlu, var það ekki valið með tilliti til slíkra reginbygginga, sem bændaskólastofnun mun hafa í för með sér, og miðað við það álit hygg ég, að hyrfi fegursti svipurinn af túninu, því að það er dálítið þröngt. Þetta veit ég, að var rætt í n. og var gert að nokkru atriði. Í hæðadrögunum, þar sem á að reisa skólann, kemur ekkert slíkt til greina, þar er um að ræða jafnan og þægilegan halla í 3 áttir, og verð ég að segja, að það er talsvert mótsett við bæjarstæðið heima í Skálholti. Ég veit, að þeir, sem eru kunnugir þar, hljóta að játa þessu.

Það hefur verið rætt um það, að heima í Skálholti væru volgrur og þess vegna ætti að reisa skólann þar, og ég geri ráð fyrir, að það séu til volgrur hér og þar í kringum hinn mikla Þorlákshver, sérstaklega eru þær niðurundan tungunni með hæðadrögunum. Í Skálholtstúni skal ég ekki fullyrða, hvort eru volgrur eða kaldavermsl. Sumir halda, að það sé kaldavermsl, en um það skal ég ekki fullyrða. — Hv. tillögumaður gerir ráð fyrir þeim möguleikum báðum, að skólinn verði reistur heima í Skálholti eða við túnið á hinu forna biskupssetri. Ef það yrði nú ofan á, samkv. hans till., að skólinn yrði reistur við túnið, hvar við túnið yrði þá tiltækilegri bændaskólastaður en tæpum 1 km frá túngarðinum, þar sem n. gerir ráð fyrir að hann verði reistur? Ég hygg, að það sé ekki víða.

Ég hef áður látið þess getið, að það eigi ekki að vera að róta í þessu máli, því að því síðar verður byrjað á þessum framkvæmdum og það er aðeins til að drepa málinu á dreif að vera að rugla þetta í því. En ég þarf ekki að ræða þetta lengur. Ég álít, að hér sé um villurök að ræða, að það sé verið að gera á hluta staðarhelginnar í Skálholti með því að fylgja málinu eftir eins og n. hefur ákveðið. Ég álít, að það séu villurök, að til þess að halda ræktarsemi við staðinn eigi að setja skólasetrið heima í Skálholtshlaði. Hið forna Skálholt, með sína sögu og sína menningu, átti sér langtum víðtækara svæði en heimahlöðin á Skálholtsstað. Við þurfum ekki að leita langt. Skammt fyrir ofan túnið í Skálholti stendur mikil skólavarða, og ekki færi leiðinlega á því, að í hæðadrögunum fyrir vestan rísi bændaskóli Suðurlands, í samfelldri túnbreiðu við Skálholtstúnið sjálft, þar sem þarna er ekki ægilegri vegalengd á milli en raun ber vitni. Svo væri hægt að benda á, að í framtíðinni, á þessu vel ræktaða svæði, þar sem biskupssetrið var áður, þar væri búið að byggja upp á myndarlegri, ræktanlegri lóð t. d. fagra kirkju eða myndarlegt minjasafn, kannske gamla Skálholtsbæinn eins og hann var í tíma Brynjólfs Sveinssonar eða eitthvað slíkt. Svo, eins og hæstv. ráðh. hafði orð á, þar væri líka kennarabústaður. Ég álít, að hinar fornu minjar verði á engan hátt betur varðveittar en á þann hátt, sem fyrir mér og n. vakir.

Ég gef svo ekki um að vera að fjölyrða frekar um þetta mál, það hefur sinn gang. Hitt veit ég, að ef fara ætti að hræra í því á ný nú með nýrri ákvörðun í bága við þær ákvarðanir, sem fyrir liggja, þá sé ég ekki, hvað af því kynni að leiða, og einnig af þeim ástæðum mælist ég til þess, að till. verði á þægilegan hátt komið fyrir, ekki beinlínis felld, heldur vísað til ríkisstj. Mér finnst það eiga betur við, því að málið er í ákvörðunarvaldi ríkisstj. hvort sem er.