21.11.1945
Neðri deild: 36. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í C-deild Alþingistíðinda. (4618)

84. mál, mjólkurflutningar

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Það var fyrir nokkrum dögum, sem rætt var um þessa mjólkurflutninga, þ. e. það frv., sem fyrir liggur, og umr. var ekki lokið. Hv. flm. frv. leitaðist þá við að gera grein fyrir því, af hvaða ástæðum málið væri flutt fram í þinginu. Og þó að þau orð, sem ég sagði hér við umr., hefðu ekki verið til annars en þess að kalla það fram, þá tel ég þó ekki unnið fyrir gýg að hafa sagt þau orð hér. Hv. þm. ætti eftir þær umr., sem fram fóru um málið, að vera það orðið ljósara, hvað hér er ætlazt til, að gert sé og hvað hv. þm. er boðið upp á að vinna. Það ætti að vera alveg þarflaust að gefa skýringar á því, hvers konar verk hér er verið að vinna. Og furðulegt er að heyra af vörum hv. flm. þessa frv., að hann skuli tala um einræði í sambandi við þetta mál. Ég mun koma síðar betur að þessu einræðistali hv. þm., til þess ef vera mætti, að hann öðlaðist skilning á því, hvað er lýðræði og hvað er einræði. En mér skilst að þetta frv. hefði getað verið ákaflega stutt og einfalt. Það kom á daginn, alveg eins og ég bjóst við, að annars vegar væri Kaupfélagið Þór, og svo stendur það fast í heilabúi þessa hv. þm., að hins vega sé Egill Thorarensen. Hefði ekki verið óviðeigandi, að einhvers staðar hefði staðið í þessu plaggi, að ef Kaupfélagið Þór gæti ekki annazt þessa flutninga, þá skyldi það undanþegið refsiaðgerðum í þessu efni. Þannig hefði þetta getað hljóðað, og þá hefði tilefni þessa frv. komið fram og málið orðið einfaldara. Þá hefði þetta ekki þurft að ná til annarra manna, ekki einungis til þeirra stofnana, sem nú eru til staðar, heldur og um langa framtíð, því að gera má ráð fyrir, a. m. k. af hálfu hv. flm., að hann álíti áfram þörf á slíkri löggjöf, sem hér um ræðir.

Ég ætla þá, í sambandi við ummæli hv. flm., að víkja nokkru nánar að því, hvernig þetta verður, ef frv. verður að l. — Ég gerði hér áður nokkra grein fyrir því, hvernig háttað væri mjólkurflutningum víðs vegar um land og hvernig þessu „einræði“ er háttað, sem hv. flm. talar um. Það fyrirkomulag, sem nú ríkir í þessum málum, er vitaskuld félagsmál þeirra manna, sem að þeim standa, og hefur ekki borið á öðru en að það hafi farið fram með friði og spekt, og mér vitanlega hafa ekki komið upp raddir um það, að þessum málum væri illa ráðið. Það er að vísu nokkuð mismunandi, hvernig fyrirkomulagið í þessum málum er, en það byggist á því, að þeir menn, sem þessar stofnanir eiga, ráða einir um þær. Hv. flm. sagði, að ég hefði ekki átt að vera að minnast á t. d. Kaupfélag Eyfirðinga og Kaupfélag Skagfirðinga, en ég gerði það til þess að bregða upp ljósi yfir það, hvernig þessum málum er fyrir komið. Til frekari áréttingar hvað Skagafjörð snertir, þá er það kaupfélagið, sem annast mjólkurflutningana, og hið sama gildir um Eyjafjörð. Það er nákvæmlega hið sama, hvort það er ein stofnun, sem annast þessi mál, eða fleiri, sem skipta þeim með sér, og skiptir að sjálfsögðu ekki máli, hvort það eru viðskiptamenn kaupfélagsins í Skagafirði, sem annast mjólkurflutninga þar. Hvað Kaupfélag Borgfirðinga snertir, þá hefur það annazt mjólkurflutninga þar. Annars hefur það verið með nokkuð öðru móti þar og gefizt mjög vel. Þetta er það, sem hv. flm. kallar óskaplegt einræði. En þó er þetta frjáls tilhögun, sem félagsmenn hafa ákveðið. Þetta er það, sem snertir þetta atriði málsins, en svo er að athuga það nánar, hvernig framkvæmdin ætti að verða, ef skipta ætti mjólkursvæðunum niður eftir verzlunum. Í fyrsta lagi gæti þetta rekið sig á, því að verzlunarsvæðin geta verið dreifð sitt á hvað hjá hinum einstöku stofnunum, svo að þetta er ekki hægt að leggja til grundvallar fyrir slíkri skiptingu. Það yrði þá að taka ákveðið mjólkurmagn, eftir því sem frv. hermir, og skipta því þannig niður, en þegar þessi skipting færi fram, þá er ekki eins og mjólkurmagnið haldist jafnt; það er sitt á hvað og fer eftir árstíðum og er mjög mismunandi frá ári til árs. Ætti þá að skipta mjólkurmagninu upp, jafnóðum og þetta færist til? Ég er hræddur um, að þetta færi eitthvað skrítilega úr hendi. Hv. flm. sagði út af því, að ég gerði það að umtalsefni, að þetta yrði dýrt, að ekki væri ætlazt til, að bílarnir væru að skrönglast hálftómir, heldur ættu þeir að hafa fulla hleðslu. En hvernig á að sjá um það? Er alveg víst, að saman fari full bílhleðsla í réttu hlutfalli milli þeirra, sem rétt eiga til flutninga? Hræddur er ég um, að þetta mundi rek sig dálítið á. Þetta er að sjálfsögðu svo fjarri öllu lagi, að það sér hver maður í hendi sér, að engu tali tekur. Þetta eru nú flutningarnir heima fyrir, sem gætu komið svona út. Á leiðinni frá Ölfusárbrú til Reykjavíkur eru mestir mjólkurflutningar, og kostar bíllinn 60 kr. hvora leið. Flytur hann ca. 400 lítra mjólkur annan hvern dag í bæinn, og er flutningskostnaður 15 aurar á hvern mjólkurlítra. En þegar hann flytur ekki nema nokkra lítra, út á hvern gengur það? Út á bændur og stofnanirnar. Þetta er m. a. eitt atriði, hvernig tækist til með þessar stofnanir. Svo koma vetrarflutningarnir. Nú gæfi ég ekki um að staðhæfa það, en eftir því sem 1. gr. frv. er orðuð, þá ætti líka að skipta flutningunum frá búunum, hvort heldur mjólk fluttri frá búunum eða mjólkursvæðunum, og þá ætla ég að gera að umtalsefni mjólkurflutninga yfir Hellisheiði, sem ég gæti trúað, að tækjust stundum ekki sem bezt. Ég hefði viljað mega eiga von á því, að hv. 2. þm. Rang. þekkti það vel til, hve miklum óskapa vandkvæðum það er bundið í vondri tíð og ófærð að koma flutningum yfir Hellisheiði, og þó að svo kunni að vera, að Kaupfélagið Þór hefði nægan bílakost til þess að annast sína flutninga og gæti ef til vill haft í takinu í bíla til þess að koma sínum hluta, þótt hann væri ekki nema einn bílfarmur, þá er ekki alveg víst, að aðrir, sem fyndu upp á því að óska eftir mjólkurflutningum, hefðu það mikinn bílakost. Fyrir utan það, hvernig það er fyrir þessar stofnanir, að þær gætu allt í einu átt von á því að fá kröfu frá mönnum um að flytja svo og svo mikið af vörum, og menn skyldu ekki halda það, að þessi viðskiptavelta, sem leggja á til grundvallar hjá verzlunum, þurfi endilega að vera við bændur — ekki nema að litlu leyti. Viðskiptaveltu verzlananna, hvernig sem hún er, á að leggja til grundvallar. Við skulum hugsa okkur staði úti á landi, þar sem mjög mikil viðskipti eru við verzlun af hálfu allt annarra manna en bænda. Eftir frv. því, er hér liggur fyrir, á að leggja hana til grundvallar fyrir flutningum og fyrir utan, hvað þessu er slegið á dreif. Hv. flm. sagði einmitt viðvíkjandi því atriði, sem ég gerði að umtalsefni, hvað flutningar kynnu að komast á margra hendur, að það hefði verið ofmælt hjá mér, hve margir kaupmenn gætu komið hér til greina að hafa mjólkurflutninga á hendi á mjólkursvæði Flóamanna. Það kann að vera, en um þetta getur hv. þm. ekkert staðhæft, því að um þetta hefur hann ekkert við að styðjast, og úr því getur reynslan ein skorið. Ég drap á, hvað verzlanirnar væru nú margar og tilnefndi töluna 15, og það fannst hv. þm. ofmælt. Þetta er alveg þvert á móti, því að það geta vel komið fleiri til greina á þessu svæði, jafnvel upp undir 20. Hvort þær svo afla sér eða fullnægja þeim skilyrðum, sem sett eru, það getum við ekkert sagt um, en eftir frv. að dæma virðist ekki vera svo erfitt að gera það. Verzlunin þarf að vísu yfirlýsingu eða meðmæli frá 40 mjólkurframleiðendum, sem senda mjólk til mjólkurbús og skipta við verzlunina, en ekkert orð er um það, hve mikil viðskipti mjólkurframleiðandinn þarf að hafa við verzlunina til þess að yfirlýsingin fullnægi, og ekkert orð er um það, að hann megi ekki óska eftir því, að fleiri en ein verzlun annist þessa flutninga. Ég ímynda mér, að sami maðurinn, sem hefur viðskipti við verzlun, eina eða fleiri, og fullnægir settum reglum, geti látið í ljós óskir sínar um þessa flutninga við 2–3 aðila eða fleiri. Það er ekkert því til fyrirstöðu, svo að það er heldur auðvelt að koma þessu atriði í kring, en hvort menn gera þetta, um það veit hvorki ég né hv. þm. Hv. þm. bað mig að nefna með nafni þær verzlanir, sem hér koma til greina. Get ég ekki verið að tefja tímann á því, en skal gefa honum upp tölur, svo að hann geti rannsakað þetta nánar, ef hann vill. Þær munu vera 14 verzlanirnar í Árnessýslu. Ég tel, að þær séu 4 í Rangárvallasýslu, en geta vel verið fleiri. Síðan er Kaupfélagið í Vík og ein verzlun þar. Hv. þm. rökstyður óskir sínar í þessu máli með því, að hann segist hafa að baki sér 150 bændur, og finnst það hart, ef þeir gætu ekki komið því til vegar, að þetta félag hans gæti flutt fyrir þá mjólkina, og kallar það einræði, að slíkt skuli ekki fást. Hvað eru nú margir félagar í Mjólkurbúi Flóamanna? Þeir munu vera hátt á ellefta hundrað. Þegar þetta mál var afgr. á síðastliðnu vori, ætla ég, að 38 fulltrúar hafi verið þar á fundi. Af þeim voru 34 á móti því að dreifa mjólkurflutningunum og að Kaupfélagið Þór fengi þá, en einir 4 voru með því. Ég held, að þetta bragði ekki beinlínis af einræði, þótt hv. þm. hafi ekki fengið þessu framgengt, og ég vil ráða honum til þess, ef hann vil vinna þá á sitt mál, sem um þetta mál hafa fjallað, að hann sýni það, að hann vilji fara eftir lýðræðislegum vinnubrögðum, en fari ekki að flytja málið inn á Alþ. til þess að brjóta á bak aftur verzlun þeirra manna, sem þessar stofnanir eiga. Ég get líka í þessu sambandi vikið að því, að ég tel það jafnvel mjög hæpið, hvort slíkt frv. sem þetta, ef það gengur fram, gangi ekki í bága við 69. gr. stjskr., því að með þessu frv., eins og það er í pottinn búið, er tvímælalaust lagt haft á atvinnufrelsi manna. — Hv. þm. var að tala talsvert mikið um Egil Thorarensen kaupfélagsstjóra og sagði, að honum gengi það til að hafa þessa flutninga á þann hátt sem þeir eru, að hann ætlaði sér að ná viðskiptum manna þar eystra. Ég var hér áður búinn að gera grein fyrir því, að hann ræður um þessi mál ekki nema að sínum hluta, því að í stjórn Mjólkurbús Flóamanna eru aðrir tveir menn, sem eru meiri hluti, og úr því að stjórnin hefur þetta þannig, þá skilst mér, að það sé meiri hluti stjórnar Mjólkurbús Flóamanna, sem óski eftir að hafa þessum málum þannig hagað. Og efalaust er það hún, sem hefur samið við stjórn Kaupfélags Árnesinga, sem eru allt aðrir menn, svo að þetta er samkomulag þeirra á milli. Þegar kemur svo til fulltrúa bænda sjálfra, þá er búið að gera grein fyrir því áður, þannig að það eru 34, sem eru á móti breyttu fyrirkomulagi á þessum málum, en 4 með því. Í tölunni 34 hljóta margir að vera úr Rangárvallasýslu, sem eru á móti þessu, og er hægt að fá nánari upplýsingar um það síðar og liggur í eðli málsins, að svo hlýtur að vera. Mér hefði ekki dottið í hug og ég skil það ekki, að þeir 4 menn, sem vilja breyta svona til til að fá að annast þessa flutninga og láta sér annara um ímyndaða hagsmuni kaupfélaga sinna, að þeir mundu grípa til slíks örþrifaráðs sem hv. flm. þessa frv. ætlar að gera. — Hv. þm. vildi færa það sem ástæðu fyrir því, hvernig háttað væri þessum flutningum hjá Agli í kaupfélaginu, að ekki fengist flutt svo mikið sem einn eldspýtustokkur. Ég veit ekkert um það og hef ekki verið að grafast fyrir slíkt, en þessir bílar mundu ekki geta stanzað á þessum ferðum sínum upp á það að taka hleðslu hér og þar í mörgum verzlunum. En varðandi þau kynni, sem ég hef haft af þessum flutningum hvað mig persónulega áhrærir, þá hafa þessir bílar oft komið með ýmislegt til mín annars staðar frá en frá kaupfélaginu, en það liggur í hlutarins eðli, að slíkt getur ekki orðið í stórum stíl.

Hv. þm. sagðist mótfallinn því, að verzlanirnar gætu ekki staðið sig við flutninga, þótt þeim yrði skipt upp. Það er einfalt að segja slíkt fyrir fram, og ég legg lítið upp úr þeim mótmælum. Er auðvelt að sjá það í hendi sér, ef flutningum yrði dreift eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, að ekki færi hjá því, að meiri og minni misbrestur yrði á flutningunum og þessari vöru áreiðanlega stefnt í stórhættu.

Þá sagði hv. þm., að það væri algert einræði í Kaupfélagi Árnesinga og þessum félagsskap. Hvað áhrærir mjólkina, þá er ég búinn að gera það að umtalsefni og þarf ekki að endurtaka það. Eins og áður er sagt, eru deildir út um sveitirnar, sem bændur kjósa sína fulltrúa í, og mæta þeir á einum allsherjar samkomustað, þar sem þeir ráða málum sínum, og um afgreiðslu mála ræður meiri hluti. En hann vill meina það og sagði það beinlínis, að þessi óskaplegi og ógurlegi maður, Egill Thorarensen, ætli sér að sitja yfir hugum manna. Mér finnst hér koma fram mikill ókunnugleiki hjá hv. þm. á þessum manni, því að það, sem ég þekki til Egils Thorarensens og starfa hans sem formanns stjórnar Mjólkurbús Flóamanna og forstjóra Kaupfélags Árnesinga, er ekki nema allt hið bezta um hann að segja og það hygg ég, að nær allir bændur við hvora þessa stofnun sem er hafi sömu söguna af honum að segja. Hann hefur til að bera dugnað og ósérplægni í störfum og er fullur vilja til að láta þau fara sem bezt úr hendi, svo að sem mest hagræði verði að því, hvernig málum bænda er ráðið. Kaupfélag Árnesinga er byggt upp á svipaðan hátt og Mjólkurbú Flóamanna. Það eru deildir úti um sveitirnar og þar eru kosnir fulltrúar fyrir hverja deild. Fulltrúarnir koma síðan saman og ráða sínum málum, og hefur aldrei borið á því, ef ágreiningur hefur verið um eitthvert mál, að því hafi ekki verið ráðið til lykta á lýðræðislegan hátt og meiri hluti fulltrúanna ráðið eins og í stjórn félagsins, og þannig held ég, að það ætti að vera, ef lýðræði á að vera ríkjandi. En það er þetta lýðræði, sem hv. 2. þm. Rang, virðist ekki geta sætt sig við. Svo að það er ætlunin að taka ráðin af margföldum meiri hl. Ég skal láta það liggja milli hluta, hversu réttmætt það er, en aðeins geta þess, að ég veit, að á tíunda hundrað bænda er á móti þessum ráðagerðum.

Þá sagði hv. þm., af því að ég hafði gert 5. gr. frv. að umræðuefni, en hún er á þá leið, að eldri samningar um mjólkurflutninga skuli upphafnir, þegar frv. þetta sé orðið að lögum, — að sérstök ástæða hefði verið til þess, að þetta ákvæði var haft í frv. Hann gat um ástæðuna, sagði hana þá, að stjórn mjólkurbúsins hefði gert samning við Kaupfélag Árnesinga um mjólkurflutninga til allt að 10 ára. Það ber þá að skoða flutning þessa frv. sem herbragð gegn þessum samningum. Hv. þm. sagði mig kunnugan þessum samningi og hefði ég gert 5. gr. frv. að umræðuefni af þeirri sök. Mér stendur á sama, hvað hann heldur um það. En það væri ekki nema eðlilegt, þótt þessi samningur hefði verið gerður. Það er ekkert athugavert, þótt samningar séu gerðir til nokkurra ára, þegar hægt er að komast að hagkvæmum skilmálum. Hitt er annað mál, að mér þykir viðurkvæmilegra, þó að löggjafinn grípi inn í, að eldri samningar séu látnir renna út. Nú segist hann hafa vitað um þennan samning milli mjólkurbússtjórnarinnar og kaupfélagsins og ætlar að sjá ráð við þessu herbragði, þetta skuli þeir fá yfir sig. Er hann nú alveg viss um, að sopið sé kálið, þótt í ausuna sé komið ? Er hann viss um nema þessi félagsskapur eigi kröfu til ríkisvaldsins til skaðabóta? Hann lítur kannske svo á, að þetta sé svo mikið mál, að ekki sé horfandi í slíkt. En það getur verið, að hæstv. Alþ. horfi í þetta og væri það ekki vansalaust, ef það samþ. frv. og þessar yrðu afleiðingarnar. Þetta er ekki að grípa inn í á lýðræðislegan hátt. Þetta er kúgun og félagsskapnum til skaða og skapraunar. Bændur hafa ekki þurft á þessari hjálp að halda til þess að ráða fram úr málum sínum, og vildi ég gjarnan sjá nöfn þeirra bænda, sem þessa aðferð vilja þekkjast. Þetta er til þess eins að spilla málstað bænda og sýnir gerla, hvernig hv. þm. vill með þá fara. Hann lét þau orð falla, að Egill Thorarensen réði einn í málum bænda eystra og bæri þá ráðum. Svo að hv. þm. hefur ekki þótt nóg að kveðið með því? Hann vill, að ríkisvaldið hafi úrskurðarvald í málum bænda.

Ég ætla, að ég hafi nú gert grein fyrir því, hvers konar mál þetta er. En úr því að hv. þm. fór að gera flokksbönd og flokksviðjar að umtalsefni, má ekki minna vera en að ég bregði upp ljósi yfir þá hlið málsins. Hann færði fram ummæli, sem einhver framsóknarmaður hafði átt að viðhafa á fundi og voru á þá leið, að hann hefði talið sig of flokksbundinn og gæti ekki unað því. Ég get ekki dæmt um, hvort þessi orð eru rétt hermd, enda skiptir það litlu. En að þessi maður, þessi hv. þm., skuli vera að tala um flokksbönd, maður, sem er í þessum flokki og það rétt eftir að búið er að afgreiða hér í þ. það einstakasta mál gagnvart bændastétt landsins, mál, sem felur í sér fullkomna sviptingu mannréttinda fyrir bændastéttina. Og hér hafa átt hlut að máli þm., sem eiga þingsetu sína að þakka bændum. Ég vil ekki ætla þessa hv. þm. svo skyni skroppna, að þeir sjái ekki, hvað þeir eru að gera. En menn munu verða langminnugir þessa verks þeirra. Þess mun getið verða í sögu Íslands um aldir fram. Það hefði ekki verið neitt umtalsmál, þótt þessir menn hefðu gerzt málsvarar þeirra, sem minnst mega sín. En þeir þykjast þess fullvissir, að ekki geti til þess komið, að þeir komist í minnihlutaaðstöðu síðar. Þetta lýtur að þeim, sem greiddu umræddu máli atkv. En þetta verður ekki sagt um þennan hv. þm. (IngJ). Eitthvað fram á sumar var hann talinn andvígur núv. ríkisstj., en aðeins fram á sumar. Ætla mætti, að eitthvað hefði gerzt, sem olli breyt. þeirri, sem á stefnu hans varð. En „sá, sem ekki er með mér, er á móti mér.“ Hann snerist til fylgis við stjórnina. Þessi hv. þm. tók þann kost við fyrstu atkvgr. um búnaðarráð, að hann greiddi ekki atkv., en við aðra atkvgr. sama máls gekk hann út. Ég hygg, að ekki sé hægt að nefna annað mál hentara til þess að brýna bændur á að vera móti stjórninni. En í þessu máli stóð þessi hv. þm., sem á þingi situr fyrir atbeina bænda, ekki með þeim, heldur með stjórninni, og það liggur við, að ég trúi því, að til þess hafi ekki þurft neinn húsaga. Ég held, að til þess hafi ekki þurft meira en skelk þann, sem hv. þm. ber í brjósti til valdamannanna. Ég held, að hann hafi ekki þorað að vera á móti þeim. Maður skyldi þó halda, að ekki hefði þurft mikla brýningu til þess að vera á móti slíku máli. En það liggur fyrir, hvernig hv. þm. stóð sig þar. Það hefði nú átt að vera komið nóg, þar sem þetta mál um búnaðarráð er, en svo virðist ekki vera. En ég verð að segja, að ég hefði kosið v. þm. annað hlutskipti en að berjast á þessum vettvangi, þar sem hann nú er staddur.

Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er þjóðinni til óþurftar, og vil ég til lengstra laga taka það sem óviljaverk, að hv. þm. (IngJ) skuli hafa staðið að flutningi þess. Ég hef ekki nema gott til mannsins að segja, bæði á afmælisdögum og öðrum stundum, og er mér ljúfast, að honum takist vel í sínum vinnubrögðum. Ég vona, að við eigum eftir að koma hvor til annars og að hvorugur þurfi að bera nokkra beiskju í brjósti til hins. Þetta á að vera frjálst mál bænda, en sízt af öllu, að ríkisvaldið grípi á þennan hátt inn í félagsmál stéttarinnar.