26.11.1945
Neðri deild: 39. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í C-deild Alþingistíðinda. (4623)

84. mál, mjólkurflutningar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vildi spyrjast fyrir um það hjá hæstv. forseta líka, hvort Alþ. hafi nokkra heimild til þess að grípa inn í félagsstarf í landinu með þeim hætti, sem hér er gert, grípa inn í starfsemi einkafélaga, því að það gerir Alþ. með því að fyrirskipa í lögum, hverjir skuli flytja mjólkina og með hvaða tækjum mjólkin skuli flutt og hvaða fyrirkomulag á því skuli haft, en ég held, að það sé hvergi til, að gripið sé inn í og fyrirskipanir gefnar um það, hvers konar tæki eigi að nota og hve margir menn skuli vera um hvert tæki, sem flytur mjólk eða kjöt eða aðra framleiðslu, því að ekki er síður ástæða til að nefna kjöt en hvað annað í þessu sambandi. Ég held, að það sé afar hæpið, að þetta væri hægt eftir okkar stjórnarskrá, ef við þegnar þjóðfélagsins eigum að hafa fullkomið frelsi, og ég get ekki skilið annað en að þeir eigi rétt á því að ráða því sjálfir, þegar það kemur ekki í bága við gæði þeirrar vöru, sem hér er um að ræða, hvernig hún er flutt á sölustað. Ég skil það ekki, ef Alþ. telur, að það sé einhver þjóðarnauðsyn til þess að spara kostnaðinn í heild. Hugsum okkur, hví eigum við þá að láta alla þá líklega 40 menn, sem aka á hverjum morgni mjólk frá einkabúum í Reykjavík til neytenda, eyða svona miklum hluta af fyrri part dagsins í mjólkurflutninga? Hvers vegna ekki að láta ríkið grípa inn í og segja: Hví sameinið þið ykkur ekki, góðu menn, sameinið ykkur 30–40 menn um að hafa heldur einn öflugan flutningabíl í förum en að vera að þessum eltingaleik út um allan bæ, hver í sínu lagi, í kannske 30–40 staði hver? Ef Alþ. á að grípa svona inn í félagsstarf og einkalíf manna, þá er ákaflega mikil spurning, hvar þau takmörk eru, sem hægt er að setja, og ég vil halda því fram, að það sé yfirleitt ekki hægt og ekki löglegt samkv. stjórnarskránni að grípa svona inn í félagsstarf og líf einstaklinga.

Það var þetta, sem ég vildi benda hv. n. á og biðja einhverja fróða menn hér að athuga, hvort það sé yfirleitt rétt, að Alþ. grípi inn í starfsemi einkafélaga, eins og hér er gert.