28.11.1945
Sameinað þing: 10. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í D-deild Alþingistíðinda. (4628)

48. mál, hlutleysi útvarpsins

Flm. (Jónas Jónsson) :

Það er orðið nokkuð langt síðan þessi till. kom fram, og hefur málið tekið nokkrum stakkaskiptum síðan. Nokkur úrlausn hefur fengizt á einum lið málsins, en varðandi aðalefni till. hafa engar breytingar orðið.

Eins og hv. þm. muna, var það tilefni þessarar till., að útvarpið eða öllu heldur einn starfsmaður þess, Björn Franzson, hagaði fréttaflutningi sínum þannig, að málfar hans var líkast því sem hann vildi halla sér einungis að skýringum einnar stórþjóðarinnar, Rússa á heimsviðburðunum. Þegar þetta mál var svo rætt í útvarpsráði og meiri hluti ráðsins gerði ráðstafanir til, að þessi fréttaflutningur héldi ekki áfram, tók fréttamaðurinn sig til og hélt ræðu í útvarpið, sem átti að vera almennur fréttafyrirlestur, en snerist brátt upp í allmikla varnarræðu móti blöðum þeim, sem höfðu deilt á hann fyrir fréttaflutning hans. Sérstaklega sneri hann sér að Alþýðublaðinu. Af ástæðum, sem mér eru ókunnar, tók hann það ráð í málsvörninni að lesa upp mikinn hluta af grein nokkurri, sem aðalritstjóri Alþýðublaðsins, Stefán Pétursson, hafði skrifað. Þegar þetta nýja innlegg kom í málið, tók að vaxa mikið óánægja í bænum og úti um land vegna þessa fréttaflutnings. Og þetta varð til þess, að öll aðalblöð bæjarins, Morgunblaðið, Vísir, Alþýðublaðið og Tíminn og einnig Dagur á Akureyri og Skutull á Ísafirði, sem sjaldan eru öll sammála, urðu sammála um það, að þessi vinnubrögð í útvarpinu gætu ekki gengið. Einnig komu mótmæli frá tveim sjálfstæðisfélögum hér í bænum. Það virðist því vera skoðun manna yfirleitt í borgaraflokkunum þrem, að þessi vinnubrögð í útvarpinu ættu helzt ekki að halda áfram. Aftur á móti varði Þjóðviljinn málið alldjarflega og taldi ekkert aðfinnsluvert hjá Birni Franzsyni.

Nú virðist svo sem sá hæstv. ráðh., sem fer með útvarpsmálin, hafi tekið þetta allnærri sér, og notaði hann tækifærið hér í Nd. í umræðum um óskylt mál til þess að deila á formann útvarpsráðs, sem einnig er þm., og hélt hann áfram hér í þinginu á stöðum, sem ekki voru þó ætlaðir til að ræða þetta mál á. Í þeim umr. hélt ráðh. því fram, að hann hefði sérstaklega hvatt Björn til að taka þessa afstöðu í síðara skiptið. Þannig virðist hann hafa tekið á sig ábyrgðina á því, að fréttamaðurinn valdi þessa leið. En þótt hæstv. ráðh. væri að minnsta kosti efnislega samþykkur erindaflutningi Björns Franzsonar, ákvað þó útvarpsráð að leysa hann frá þessu starfi. Þá skrifaði ráðh. útvarpsráði bréf og virtist ætla að knýja það til að breyta þessari afstöðu. Með því tók hann upp þá mjög einkennilegu aðferð að ætla sér að fara að segja þingkosinni n. fyrir verkum. Stóð meiri hl. útvarpsráðs að því að hafa bréf hæstv. ráðh. að engu. En nú þykir svo hafa borið við, að þessi málflutningur hafi aukizt frá því sem áður var í þeirri deild, sem heyrir undir ráðh. Aftur á móti heyrðu fræðifyrirlestrarnir undir deild, sem var undir stjórn útvarpsráðs.

Nú má segja, að með ákvörðun útvarpsráðs hafi þessi deila milli útvarpsráðs annars vegar og hæstv. ráðh. og fréttamannsins hins vegar fengið nokkra stöðvun. En þarna eiga hlut að máli fleiri aðilar en hæstv. ráðh. og útvarpsráð, og stærsti aðilinn er þjóðin sjálf, sem á útvarpið og notar það til að hlusta á það. Hlustendur geta að vísu verið ánægðir, ef framvegis verður ekki tekinn upp sá siður, að starfsmenn útvarpsins eigi í orðakasti og í deilum í gegnum útvarpið við ýmsa blaðamenn. En hitt er eftir, sem till. mín að öðrum þræði snýr að. Það er, hvort Alþ. vill ekki gera það eina, sem getur tryggt það, að svipað komi ekki aftur fyrir í útvarpinu, og það er, að horfið sé að því, að hér sé sá siður upp tekinn, sem víða er tíðkaður, að útvarpsráð láti lesa yfir allt útvarpsefni áður en það er flutt. Ástæðan til þess, að þetta hefur ekki verið gert, er ekki fyrir hendi nú. Útvarpið var fyrst fátæk stofnun, en þar sem fjárhagur þess hefur batnað með vaxandi viðskiptamannatölu, er nú svo komið, að ekki er ástæða til að spara þennan lið. Mér er sagt af mönnum, sem eru mér fróðari um þessi mál, að þessi siður sé viðhafður hjá öllum stærri útvarpsstöðvum og að útvarpið tryggi hlustendur móti slíkum mistökum sem þessum, með því að láta koma með allt efni skrifað og það lesið áður en það er flutt. Þetta er kannské dálítið erfitt viðkomandi fréttunum, en þó er það enginn vandi, ef forráðamenn útvarpsins vilja koma þessu á. Samþ. þessarar till. mundi leiða af sér nokkuð aukinn kostnað, en þegar litið er á reksturskostnað útvarpsins í heild, þá er ekki hægt að telja það frágangssök. Ég tel, að ekki verði lengur hjá því komizt að minna ríkisstjórnina á að taka upp sama öryggi í þessu efni og aðrar þjóðir. Hér er ekki eingöngu um efni að ræða, heldur líka um form þess efnis, sem flutt er, mál o. s. frv.

Ég óska, að málinu verði vísað til n., að þessa í umr. frestaðri og það tekið svo fyrir aftur, eftir að n. hefur athugað það.