28.11.1945
Sameinað þing: 10. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í D-deild Alþingistíðinda. (4629)

48. mál, hlutleysi útvarpsins

Magnús Jónsson:

Ég hef ekki hugsað mér að ræða það verulega að svo komnu, hvort hlutleysi útvarpsins hafi verið brotið í þessu tilfelli eða ekki, enda hefur komið í ljós, að spjótin hafa staðið að útvarpinu frá báðum hliðum í þessu máli. Það er einkennilegt, að um leið og hér liggur fyrir till. um nokkrar ávítur til útvarpsins fyrir að hafa brotið hlutleysi sitt kommúnistum í hag, þá hefur útvarpsráð einnig, eins og hv. frsm. vék að, orðið fyrir aðkasti fyrir að hafa verið hlutdrægt á móti þessum stjórnmálaflokki. Ég ætla að láta þetta liggja milli hluta.

Ég held, að langheppilegast sé fyrir þessa stofnun, að hún fái að starfa í friði, og þeim mönnum, sem Alþ. kýs til að gæta hennar, sé treyst til að gera sitt bezta, en ella sé skipt um menn. Áður en þessi till. fer til n., vil ég segja það viðvíkjandi henni, að ég álít, að sú aðferð, sem hér er stungið upp á, að ritskoða allt efni, sem flutt er, til þess að tryggja hlutleysi, sé mjög óheppileg og erfið í framkvæmd, einkum ef þetta skal gert á ábyrgð útvarpsráðs. Ég skal geta þess fyrst, að auðvitað er mjög mikið af efni útvarpsins ritskoðað. Það er lesið yfir eins og efni tímarita til að sjá, hvort það er yfirleitt tækt til flutnings frá almennu sjónarmiði. Hins vegar hefur útvarpsráð yfirleitt látið fasta trúnaðarmenn sína flytja erindi fyrir sig án þess að lesa þau yfir, t. d. fréttamenn og menn, sem eru ráðnir til að halda ákveðna þætti eins og um daginn og veginn. Útvarpsráð sýnir þeim yfirleitt fullt traust. Það verður auðvitað alltaf persónulegt atriði að meta slíkt, en fram hjá því er ekki hægt að ganga. Flm. taldi það vera vegna fátæktar, að ekki hefði verið búið að koma ritskoðun í framkvæmd fram til þessa. En þetta er ekki mín skoðun, a. m. k. ekki eingöngu. Ég held það sé vegna þess, að mjög erfitt er að koma því við. Ég vildi nú spyrja, hvernig haga eigi þessari ritskoðun. Hvernig á að haga því svo, að útvarpsráð geti tekið ábyrgð á öllu því, sem flutt er, og aldrei komi orð, sem ekki hneyksli einhvern í landinu? Eina ráðið væri, að útvarpsráð læsi allt útvarpsefnið, en ég býst við, að hv. þm. sé ljóst, að það er útilokað. Útvarpsráð er nefnd manna, sem eru störfum hlaðnir og koma aðallega saman til að velja efni til flutnings og koma fram með hugmyndir sínar því viðkomandi. Ég hygg, að þótt þeir sætu nokkurn veginn alltaf við, ættu þeir fullt í fangi með að komast yfir allt útvarpsefnið. En hvernig ætti svo útvarpsráð að komast að niðurstöðu um það, hvað væri virkilega hlutlaust efni og hvað ekki? Útvarpsráð er kosið af stjórnmálaflokkunum og er því þannig saman sett, að það er líklegast til að verða aldrei sammála. Sérstaklega gilti þetta, ef um pólitísk mál væri að ræða. Það virðist því augljóst, að fyrir flm. vakir, að útvarpsráð velji trúnaðarmenn til þess að gera þetta. En hvernig á að trúa trúnaðarmönnum til að gera þetta rétt (JJ: Eins og fiskimatsmönnum). Ég sé ekki, að hægt sé að treysta þeim nokkuð — betur en þeim mönnum, sem trúað er fyrir að flytja erindin. Er nokkur meiri trygging fyrir því að þeir bregðist ekki? Þótt ritskoðandi teldi eitthvað ekki hlutdrægt, mundi annar alveg eins geta talið það það. Og ólíklegt er, að útvarpsráð, sem er skipað fulltrúum allra stjórnmálaflokkanna, komist að nokkurri niðurstöðu. Það er, því ekki neitt ráð til í þessu máli. Eina ráðið til þess, að engum finnist hlutdrægni gæta í útvarpinu, er það að segja því að þegja. Nú er útvarpið hins vegar stofnað til að tala, og þess vegna væri ekki hægt að segja því að þegja. Hins vegar væri ef til vill hægt að takmarka svið þess og láta það segja þannig frá, að aldrei væri komið nálægt veruleikanum. Jón Magnússon fréttastjóri hefur sagt mér, að hann hafi sterka tilhneigingu til að halda, að sú nákvæmni, sem hann verði að nota, geri fréttayfirlitin nauða ómerkileg, því að ekki sé hægt að segja almennar fréttir öðruvísi en að einhverjum finnist, að verið sé að draga fram þetta mál frekar en hitt. Ég held þess vegna, að þessi ritskoðun mundi aldrei geta tryggt þetta. Þar að auki er því til að dreifa, að oft vinnst enginn tími til þess að framkvæma þetta, því að fréttayfirlitið er samið svo til um leið og það er flutt og gildi þess stundum fólgið í því, að það sé samið nógu stuttu áður en það er flutt. Það er um að gera, að fréttir af viðburðum utan úr heimi eða héðan að heiman séu fluttar sem nýjastar, þegar þær eru fluttar. — Um annað efni, svo sem erindi, get ég upplýst það, að útvarpið mundi missa talsvert af því bezta, sem það hefur að flytja hlustendum sínum, ef allt efni ætti að vera háð ritskoðun, því að margir af okkar mestu fræðimönnum mundu aldrei nærri hljóðnemanum koma, ef erindi þeirra yrðu að vera háð ritskoðun, þar eð þeir geta skrifað það sem þeir vilja í tímarit og blöð. Og ég held, að ef hlustendur yrðu spurðir að því úti um land, hvort þeir vildu vinna það til að hafa ritskoðun á efni útvarpsins til þess að heyra ekki einhverjar setningar, sem sumum viðkvæmum mönnum fyndust hættulegar fyrir aðra, mönnum finnst alltaf hættan vera fyrir aðra, en ekki fyrir þá sjálfa, og að missa þar með marga okkar beztu krafta frá útvarpinu, þá held ég, að langflestir hlustendur mundu lítið kæra sig um ritskoðun, því að það er nú svo, að þorri fólks vill heyra það bezta og skemmtilegasta, sem útvarpið hefur að flytja, en skiptir sér minna af skoðunum. Það kom einhverju sinni fyrir, þegar fluttir voru sönglagaflokkar frá ýmsum þjóðum, að þegar verið var að leika sönglög frá Rússlandi, þá var sunginn söngur um Stalin. Þetta varð brátt að blaðamáli, þetta mátti ekki, þetta gat verið hættulegt. En ég veit nú ekki til, að neinn hafi orðið að kommúnista, þótt þessi söngur hafi verið leikinn. Ég geri svo ráð fyrir, að söngur hefði heyrzt frá hinni hliðinni, ef leikinn hefði verið söngur um Churchill.

En sannleikurinn er sá, að það er farið rangt með ákvæði útvarpslaganna um þetta. Það er verið að ræða um hlutleysi útvarpsins, en í l. um útvarpið segir, að útvarpsráð skuli gæta þess að skoðanafrelsi og óhlutdrægni ríki, en ekki minnzt á orðið hlutleysi, enda ekki hægt. Það á að reyna að láta skoðanafrelsi og óhlutdrægni ríkja, og ég hef hugsað mér, að þetta sé útfært þannig, að t. d. þegar stofnað er til umr. frá Alþ., þar sem vitanlega koma fram mismunandi skoðanir og sjónarmið, sem ætla mætti, að væru brot á hlutleysi, þá er reynt að gæta óhlutdrægni með því að láta fólkið hlýða á málin frá öllum hliðum. Það er fjarstæða að vera að tala um hlutleysi, því að þá mætti aldrei segja skoðun á neinu máli. Útvarpsráð fær iðulega skammarbréf frá hinum og öðrum mönnum, um það t. d., að einhver ræðumaður hafi talað illa um iðnaðarmannastéttina, eða kvartanir frá templurum eða íþróttamönnum, að hallað hafi verið eitthvað á þá. En það er hins vegar ekki hægt að tala svo, að þeim, sem einhverjar skoðanir hafa, finnist ræðumaður tala eins og þeir hefðu kosið að væri talað.

Við erum nú alveg nýkomnir út úr heimsstyrjöld, þar sem annar aðilinn hafði hér mikil völd og tök á landinu. M. a. hefði hann getað sett útvarpið undir sterkt eftirlit, og komu sí og æ óskir um, að efni þess yrði háð ritskoðun, en þetta gat stjórn útvarpsins einhvern veginn alltaf hólkað fram af sér, og komst ritskoðun aldrei á, þrátt fyrir það, að oft gat fylgt því áhætta fyrir þennan stríðsaðila að flytja allt efni útvarpsins óritskoðað, t. d. gat dulmál leynzt í ýmsum tilkynningum eða auglýsingum. Og þegar ég hugsa um þessa viðkvæmni Íslendinga út af því, hvort sagt er meira eða minna frá þessari borginni eða hinni, þá verður mér ósjálfrátt hugsað um það, þegar þessi stríðsaðili, sem barðist upp á líf eða dauða og hafði þau tök hér á landi, að hann hefði getað beitt áhrifum sínum eftir vild, þá lét hann útvarpið ár frá ári flytja fréttir frá Berlín, skammir um Roosevelt og Churchill og alls konar ísmeygilegar áróðursfregnir um bandamenn. Aldrei hindraði hann þetta. En okkar eigin samlandar mega varla heyra eina setningu, sem einhver teldi hlutdrægni, þá er stokkið upp til handa og fóta. Ég hlusta oft á útvarp frá útlöndum og hef heyrt þar fluttar harðpólitískar ræður, en þar þekkist ekki slík viðkvæmni sem hér, því að útvarpið flytur slíkt án þess að nokkur andmæli eða hindri það. Ég held, að bezt væri fyrir okkur að leggja af okkur þann kotungsbrag, sem kemur ekki sízt í ljós í stöðugri hræðslu um, að aðrir snúist eða verði fyrir áhrifum, ef þeir heyra eitthvað, sem þeir eru ekki vanir að heyra. Það er efalaust, að útvarpið okkar verður skemmtilegast og fróðlegast, ef ekki verða lögð á það of ströng bönd í þessum efnum. Hitt er svo annað mál, að það er skylda útvarpsráðs og Alþ., sem ber ábyrgð á því, að hafa ávallt gætur á því, að útvarpið verði ekki of einhliða í að flytja eina ákveðna stefnu, — og allra sízt, ef hún er talin skaðleg, — en það verður að leyfa talsvert mikið frjálsræði í að tala á þann veginn eða hinn.

Það er þetta, sem ég vildi láta fylgja málinu til n., að hún fari varlega í það að setja ritskoðun á útvarpið, bæði mundi framkvæmd slíkrar ritskoðunar verða fyrir nákvæmlega sama aðkasti og útvarpsráð og fréttastofan hefur nú orðið fyrir, og eins mundi útvarpið verða af margvíslegu góðu efni, ef farið yrði að skylda hvern mann, sem ætlar að flytja erindi þar, til þess að setja handrit sitt undir ritskoðun.