28.11.1945
Sameinað þing: 10. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í D-deild Alþingistíðinda. (4630)

48. mál, hlutleysi útvarpsins

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Ég vissi ekki af því, að þetta mál var hér á dagskrá, fyrr en rétt nú, vegna þess að ég hafði ekki fengið dagskrána og hef því ekki hlustað á ræðu hv. flm., en geri ráð fyrir því, að hún hafi verið rökstuðningur með þeirri till., sem hann flytur á þskj. 54. — Ég get sagt það strax, að mér þykir mjög vænt um, að aðalefni þessarar till. skuli vera borið fram. Ég er alveg sammála hv. flm. hennar um það, að útvarpið eigi að vera hlutdrægnislaust eins og því ber að vera samkv. l., og vænti þess, að þessi till. nái samþ. hæstv. Alþ., þ. e. a. s. þegar búið er að gera nauðsynlegar breyt. á henni í n., sem ég vona, að henni verði vísað til.

Ég tel, að ríkisstj. beri skylda til að vaka yfir, að reglum útvarpsins sé fylgt um fullt skoðanafrelsi og óhlutdrægni. Hins vegar vil ég nota tækifærið til þess að benda á sérstaklega, að valdið yfir útvarpinu og því efni, sem það flytur, og þar með ábyrgð á útvarpinu er að mjög miklu leyti í höndum Alþ., en ekki ríkisstjórnarinnar. Útvarpsráðið er kosið af Alþ. og það ræður yfir dagskrá útvarpsins og því sjálfu ber skylda til að sjá um, að lögum og reglum útvarpsins sé fylgt. Ég álít því, að það geti orðið mikill stuðningur að því fyrir ríkisstj., að svona till. eins og þessi verði samþ. Hins vegar þarf að breyta till. og ég er samþ. hv. 1. þm. Reykv., form. útvarpsráðs, um það, að það eru vandkvæði á að hafa ritskoðun á öllu efni, sem útvarpið flytur, og vænti ég þess, að hv. flm. geti fallizt á þær nauðsynlegu breyt., sem á till. þarf að gera. Hlutleysi er nokkuð óheppilegt orð að mínum dómi, og álít ég, að hv. 1. þm. Reykv. hafi einmitt með sinni ræðu rökstutt það nokkuð vel, þótt ég heyrði hann ekki minnast á þetta orð. Það segir sig sjálft, að ýmsum sjónarmiðum verður að leyfast að flytja mál sitt í útvarpið eins og nú er, og því er það, eins og hv. síðasti ræðumaður tók fram, ómögulegt að girða fyrir, að ýmis stríðandi sjónarmið komi fram í því efni, sem þar er flutt. Það er t. d. kunnugt, að stjórnmálaumr. eru leyfðar í útvarpinu og þær eru að sjálfsögðu ekki hlutlausar, en slíkt er hlutdrægnislaust, því að þar hafa öll sjónarmið jafnan rétt. (MJ: Ég var einmitt að benda á þetta atriði). Ég hef þá ekki verið kominn inn til þess að heyra það. Í l. um útvarpsrekstur ríkisins álít ég, að þetta sé alveg rétt orðað, en þar stendur í 5. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Útvarpsráðið tekur ákvarðanir um það, hversu dagskrá skuli hagað í höfuðefnum, og leggur fullnaðarsamþykkt á dagskrá, áður en hún kemur til framkvæmda. Það setur reglur um fréttaflutning útvarpsins og aðrar þær reglur, er þurfa þykir til gæzlu þess, að við útvarpið ríki skoðanafrelsi og fyllsta óhlutdrægni gagnvart öllum flokkum og stefnum í almennum málum, atvinnustofnunum, félögum og einstökum mönnum.“ Hér er það staðfest í l., að ríkja skuli skoðanafrelsi og óhlutdrægni gagnvart öllum flokkum og félögum. Þetta er alveg rétt hugsað, og er það engin tilviljun, að orðalagið hefur verið haft þannig, er l. voru sett. Ég geri líka ráð fyrir því, að það, sem fyrir hv. flm. till. vaki, sé það, að þessum lagaákvæðum sé framfylgt og ekkert annað. Þetta er aðalefni till., og það á að nægja. Hitt atriðið, sem fjallar um að koma á ritskoðun við útvarpið, held ég, að eigi að fella niður, því að það mundi verða mjög erfitt í framkvæmdinni, ef ritskoða ætti allt útvarpsefni, og ætti að vera alger óþarfi, þegar vanir starfsmenn útvarpsins eiga í hlut. Annars taldi ég líklegt, að útvarpsráð sjálft mundi segja álit sitt á þessu máli og væri rétt að gefa því kost á því, en formaður þess hefur lýst sinni skoðun, sem að þessu leyti er í samræmi við mína skoðun. — En fyrsta spurningin, sem þarf að leysa úr, er hvort þetta sé yfirleitt framkvæmanlegt. Sumum mundi ef til vill finnast svona till. óþarfi. Ég álít, að svo sé ekki. Að vísu hefði vissulega verið meiri þörf á, að svona till. hefði komið fram og verið samþ. oft áður, því að það hafa áður komið fyrir tímabil, þar sem ákvæðin í l. um óhlutdrægni og skoðanafrelsi hafa verið svo fullkomlega brotin, að þrátt fyrir góðan vilja núverandi útvarpsstjóra, þá hefur útvarpið að verulegu leyti verið tekið í þjónustu ákveðins áróðurs, ákveðinnar stefnu og ákveðins flokks. Þetta hefur nú mikið lagazt. Það skal ég játa, en enn þá er pottur brotinn. T. d. kemur meginið af þeim fréttum, sem útvarpið flytur, um eina stöð, London, og það fer ekki hjá því, að slíkt fréttaefni sé nokkuð litað, og oft og einatt eru allmikil brögð að því. Bretar eru sérstaklega slungnir í að koma fram áróðri gegnum fréttir. Og einnig er það, að starfsmenn útvarpsins nota mestmegnis amerísk og ensk tímarit sem heimildir fyrir fréttayfirlitserindi sín, og það fer þess vegna ekki hjá því, að útvarpsefnið og þau sjónarmið, sem þar eru túlkuð, séu allmjög einhliða og þess vegna ekki hlutdrægnislaus. Ég tel mér skylt, eftir því sem ég hef vald til, að stuðla að því að færa þetta til betri vegar, og ég álít, að samþykkt slíkrar till. sem þeirrar, er hér liggur fyrir, sé stuðningur við þessa viðleitni mína. Ég veit, að starfsmenn útvarpsins hafa hug á því að færa þetta til betri vegar, og vil vona, að útvarpsráð sé mér sammála um að vilja stuðla að þessu. Það horfir að vísu ekki vænlega nú, þar eð út af einu máli hefur orðið mjög alvarlegur ágreiningur milli mín og útvarpsráðs, en ég vil þó vona í lengstu lög, að það geti orðið samstarf milli mín og útvarpsráðs um það að sjá um, að l. um útvarpið sé fylgt og það færi til betri vegar, sem ábótavant hefur orðið í þessum efnum.