05.12.1945
Sameinað þing: 11. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í D-deild Alþingistíðinda. (4636)

48. mál, hlutleysi útvarpsins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að mig undrar dálítið þær ræður, sem hér hafa verið haldnar. Það er dálítið einkennilegt að heyra einmitt þennan mann, hv. þm. S.-Þ., tala hér ógurlega langt mál, þar sem hann hvað eftir annað lýsir yfir því, að það, sem farið er með og undirskrifað af viðkomandi aðilum, sé ósannindi. Það er dálítið einkennilegt af því, að þessi hv. þm. hefur sjálfur ekki alltaf verið álitinn neinn sérstakur sannleikspostuli af fólki á Íslandi. Það hefur nú stundum verið það álit á honum, að honum væri sjálfum sérstaklega hætt við því að bregða því fyrir sig að vera nokkuð jafnvægislaus í að fullyrða, að það, sem aðrir væru að fara með, væri af eitthvað sama tagi og hann væri að bera á borð fyrir aðra. Og það er ekki tilviljun, að það, sem hann var að segja, skyldi vera rekið ofan í hann á meðan hann var að tala.

Samt var það ekki þetta, sem ég er mest hissa á í þessum umr. Ég var meira hissa á þeim tóni, sem í þeim er, og hefði ég þó átt að þekkja hann frá gömlum tíma. Og ég skal koma að því seinna, hvernig á því stendur. Mér finnst það, hvernig tryggja skuli, að það, sem útvarpið flytur Íslendingum, sé rétt, of alvarlegt mál til þess að það eigi að reyna að hafa það annars vegar í flimtingum, eins og þessi hv. þm. gerði, og hins vegar að beita þeim rangfærslum, sem hann gerði.

Hann fór að vefa inn í þessar umr., sem hér hafa orðið, þó nokkru af ævisögum og öðru. Hann fór að gefa yfirlýsingar um embættakúgun, pólitískar ofsóknir og að ég ekki tali um, að ósannindi væri það, sem honum væri sérstaklega á móti skapi og hann hefði aldrei komið nærri. Hann væri mjög heilagur maður í slíkum efnum, og væri furðulegt, að nokkrum manni kæmi í hug að bendla sig við nokkuð, sem héti embættakúgun ( ! ) — Ég veit ekki, hvort það er minnisleysi, sem er að þessum hv. þm. þegar hann gefur þessa yfirlýsingu. En fyrir okkur, sem munum eitthvað ofurlítið aftur í tímann, þá verður þetta nú heldur til þess að rifja upp þann hluta af ferli þessa hv. þm., sem við þekkjum. Þegar talað er um pólitískar ofsóknir, þá er náttúrlega ekki óeðlilegt, þó að manni detti í hug, að það er prinsip, sem þessi hv. þm. hefur alltaf haft, að vilja beita embættakúgun, svo framarlega að hann hafi haft valdaaðstöðu til þess að beita henni. Ég held, að slíkar yfirlýsingar frá þessum hv. þm. komi úr hörðustu átt, og jafnvel þó að þessi hv. þm. talaði ekki svona mikið ekki aðeins um það, hvað ósannindi séu óviðurkvæmileg, heldur líka ókristilegt orðbragð. Ég held einmitt, að orðbragðið, sem kennt er við þennan hv. þm., hafi ekki alltaf þótt kristilegt, og mál, sem hann hefur farið með, ekki alltaf þótt sannleikanum samkvæmt, meira að segja ekki í þingsölunum. Mig minnir, að fyrsta ganga þessa hv. þm. hafi ekki verið sérstaklega góð, hún hafi kallað fram yfirlýsingar í þinginu. Og mér virðist það ekki ætla að enda öllu betur fyrir honum á þessu þingi, sem þessi hv. þm. e. t. v. á sæti á síðustu. — Hann var að rekja ævisögur hér og taldi, að einhver maður hefði verið á fyrra skeiði ævi sinnar eitthvað meira en venjulegur mennskur maður, líklega meira en venjulegur stjórnmálamaður. Svo hafi orðið tímamót í ævi hans. Hann talaði um, að á fyrra hluta ævi sinnar hefði þessi maður verið mjög þýðingarmikill, en síðari partur ævi hans þýðingarminni. Og allt átti þetta út frá hugsunarhætti hv. þm. að standa í sambandi við það, að á meðan maðurinn hafi verið mjög tryggur Framsfl.-maður, þá hafi allt gengið honum til vegs og sóma. Ég man eftir framsóknarmanni, sem þessi lýsing á að nokkru leyti mjög vel heima við. Hann situr ekki fjarri mér nú. Hann var fyrri part sinnar ævi mjög þýðingarmikill maður, ráðh. og form. Framsfl., form. utanrmn. og einn aðal-valdamaður fjvn., og jafnvel einn aðal-valdamaður landsins. Og það var talað um hann sem „Islands stærke Mand“ í dönskum blöðum. En svo fór einmitt með þennan mann eins og manninn, sem hv. þm. S.-Þ. minntist á, að síðari parturinn í ævi hans varð þýðingarminni. Hann hélt sjálfur, að hann væri átrúnaðargoð allrar þjóðarinnar, hann hafði þá hugmynd, að hann mundi vera hjá þjóðinni yfirleitt sá maður, sem hún tryði á. Og honum hætti þess vegna við, þegar hann var að tala um eitthvað, sem hann trúði sjálfur, að segja: Þjóðin trúir þessu. Og ef einhver bábilja hefur fest sig í kollinn á honum á síðari hluta æviskeiðs hans — ekki þeim hluta, þegar hann var venjulegur stjórnmálamaður — þá heldur hann, að þjóðin öll trúi þessu öllu hreint, jafnvel þó að þjóðin við hverjar kosningar hafi sýnt fram á, að hún er fjarri því að gera það. En hann tekur ekki mark á staðreyndum, heldur heldur hann enn, að hann sé átrúnaðargoð þjóðarinnar, þó að hann hafi ekki nokkurn hlut á bak við sig. — Ég held, að þessi hv. þm. ætti ekki að fara mjög mikið út í ævisögulestur.

Hv. þm. S.-Þ. talaði um það áðan, að Ríkisútvarpið væri á röngum leiðum, og sérstaklega undir stjórn núv. hæstv. kennslumálaráðherra væri því lélega stjórnað. Og sem dæmi um það nefndi hann, að einu sinni hefðu fundizt flöskur í einu skrifborði hjá einum starfsmanni þar. Og þetta átti að sanna það, að það væri ekki að vita, hvert þjóðin væri að halda með útvarpið undir stjórn núverandi hæstv. kennslumálaráðherra, — að flöskur fundust í einum skrifborðsskáp hjá starfsmanni útvarpsins, löngu áður en hæstv. kennslumálaráðherra tók við yfirstjórn útvarpsins, hjá manni, sem einu sinni hafði verið starfsmaður við útvarpið. Það væri gaman að fá að vita hjá þessum hv. þm., hvort maðurinn, sem flöskurnar í skrifborðinu fundust hjá, hefði e. t. v. verið eitthvert átrúnaðargoð þessa hv. þm. í því að framkvæma þá stefnu, sem þessi hv. þm. vildi láta framkvæma í útvarpinu. Þessi hv. þm. flutti sem sé hér á þingi 1939 m. a. mjög ákveðnar till. í þá átt, að öllum, sem væru ekki sömu stefnu og „lýðræðisflokkarnir“, eins og það var orðað, væri vikið frá útvarpinu og séð um, að þessir menn gætu hvergi nokkurs staðar verið. Og einmitt á sama tíma var þessi maður með flöskurnar, sem hv. þm. á sennilega við, aðalframkvæmdastjóri þessarar stefnu hv. þm. S.-Þ. í útvarpinu.

En mér er nærri að spyrja: Hvað var drukkið úr þessum flöskum? Kannske stríðsöl Finnagaldursins. Það hefur kannske verið nauðsynlegt fyrir viðkomandi mann að drekka þetta, sem þarna var, til þess að geta ruglað aðra eins vitleysu í útvarpið og hv. þm. S.-Þ. vildi vera láta. Og mér er nær að halda, að það hafi endað með því, að þessi maður, sem hv. þm. S.-Þ. var að tala um, hafi e. t. v. gengið fulllangt í þessari stríðsöldrykkju Finnagaldursins og e. t. v. drukkið sig næstum út úr útvarpinu þá.

Ég held, að hv. þm. S.-Þ. ætti að fara frekar varlega, því að það er engan veginn víst nema þessar sögur, sem hann segir, sem stundum eru kallaðar Gróusögur, hitti hann aftur, einhverjar þeirra. Og það er ekki skemmtilegt að þurfa að standa hér í sölum Alþ. eftir aðrar eins leiðindaaðdróttanir og þessi hv. þm. hefur komið með, til þess að reka þær ofan í hann, þannig að þeir geirar, sem hann ætlar að skjóta að andstæðingum sínum, skuli einmitt lenda í hans eigin samstarfsmönnum í því að innleiða hlutdrægni í útvarpinu.

Ég ætla mér ekki að öðru leyti að fara hér langt út í ræðu þessa hv. þm. að svo komnu máli. Ég geri það kannske síðar við þessar umr., ef mér finnst ástæða til. En mig langar til að ræða ofurlítið alvarlegar en ræða hv. þm. S.-Þ. gefur tilefni til þær hugmyndir og skoðanir, sem hér hafa komið fram hjá nokkrum hv. þm. viðvíkjandi því, hvað útvarpið eigi að gera og hvert verkefni þess sé. Það virðist, að það mundi verða svo, eftir þeim umr. að dæma, sem hér hafa farið fram, að ekki mundi það nú ganga betur með sumt af stjórninni á útvarpinu hjá okkur, sem höfum verið í útvarpsráði undanfarið, þó að þeir hv. þm., sem hér hafa talað, sumir hverjir, ættu að fara að stjórna því. Það var m. a. talað af hv. 4. þm. Reykv. um fréttaflutning útvarpsins, aðferðir við þýðingar og annað slíkt, sem hann ræddi í sambandi við það. Ef ég man rétt, minntist hv. 4. þm. Reykv. m. a. á það, að gert væri allt of mikið að því að þýða nöfn, og fór að krítisera ýmislegt af því, sem væri þýtt en hann teldi rangt að þýða. Hann byrjaði að minnast á fljótsnafnið Weichsel. Það er ekki rétt hjá hv. 4. þm. Reykv., sem hann sagði um það. Það hefur verið notað nafnið Visla á þessari á, og það er hennar pólska heiti. Weichsel er þýzkt nafn, sem hefur ekki verið notað á ánni af hálfu þeirra manna, sem landið hafa byggt. Og það er ekki ástæða til að breyta því nafni. Og það er kannske svipað þessu með sumar leiðbeiningar, sem koma fram viðvíkjandi fréttaflutningi útvarpsins. — Hv. 4. þm. Reykv. minntist á fleiri dæmi um það, hvernig ætti að þýða. Og hann virtist miða till. sínar við það, að við þyrftum að þýða með tilliti til þess, hverju hlustendur hér heima væru vanastir eftir okkar íslenzku viðhorfum, flokkaheitum og öðru. Ég held, að það væri mjög fjarri því að vera til bóta að taka upp slíkar aðferðir. Það er nefnilega svo undarlegt, að veröldin hefur ekki tekið sér flokkaskiptingu hér á Íslandi til fyrirmyndar, þegar menn hafa myndað flokka í öðrum löndum, heldur hefur þróunin í þessu byggzt á þjóðfélagslegum og sögulegum forsendum, sem fyrir liggja, sem eru gagnólíkar því, sem hér er. Og það virðist ekki vera ástæða fyrir okkur að steypa nöfn þessara flokka í sama formi og á flokkum okkar. Menn geta reyndar gert sér það til gamans, þegar snjallir rithöfundar rita eitthvað eins og Heljarslóðarorustu og slíkt. En það er ekki ástæða til að gera þetta, ef á að upplýsa fólkið um hið raunverulega ástand í hverju landi, því að það er mótað af því, sem þar er fyrir höndum, og engan veginn víst, að það passi við það, sem hér er heima. Ég býst líka við, að hvað fjöldann allan af nöfnum snertir, mundi ekki nokkrum manni detta í hug að þýða þau. Ég býst við, að frekar mundi það t. d. valda ruglingi, ef fara ætti að þýða nöfn á flokkum í Bandaríkjunum. Og hvað snertir svo og svo mikið af flokksheitum í Evrópu, þá er það mjög mismunandi, hvernig þeir flokkar eru og hvaða nöfn þeir hafa. Hv. 4. þm. Reykv. virtist ganga út frá því, að sú flokkaskipting, sem átti sér stað á tímabilinu frá 1919 til stríðsbyrjunar, mundi haldast áfram, og það væri því eðlilegt, að þeir hétu áfram þeim nöfnum, sem viðgengizt hafa á þessum tíma. Ég held, að sú flokkaskipting hafi breytzt meðan á þessari styrjöld stóð og að það sé að byrja tímabil, sem verði mjög ólíkt því, sem leið á milli styrjaldanna, eins og það tímabil var ólíkt tímabilinu fyrir 1914. Orð eins og sósíalistar, kommúnistar og slíkt höfðu aðra merkingu fyrir þann tíma en síðar. Og það er mjög hæpið fyrir okkur að ætla að þýða á íslenzku þessi heiti, sem eru á erlendum flokkum. T. d. fyrir 1914 kölluðu rússneskir bolsjevikar sig socialdemokrata í blaði, sem Lenin gaf út. Eftir 1914 breytast þessi nöfn. Og ég get trúað, að nú séu þau að taka miklum breyt. Mér virtist hv. 4. þm. Reykv. vilja, að Arbejderparti og Labour party ætti að þýðast á íslenzku og helzt að heita Alþýðuflokkur eða jafnaðarmenn eða eitthvað slíkt, bara eftir hugtökum, sem íslenzkir hlustendur hafa vanizt. En ef einhver flokkur heitir í sínu landi socialistaflokkur, þá má nafn hans haldast, þó að það sé nefnt í íslenzkt útvarp. Ég veit ekki, af hverju þetta er sprottið hjá hv. 4. þm. Reykv., að hann vill þýða þessi flokksheiti. Það var helzt að heyra á honum, að ef einhver stór verkalýðsflokkur væri erlendis, þá ætti hann að heita Alþýðuflokkur, en síður, ef um lítinn flokk var að ræða. Ég held, að það sé ákaflega varhugavert að þýða þessi flokksheiti. Og út af orðunum Alþfl. og Jafnaðarmannaflokkur mætti spyrja, hvernig þessum hv. þm. mundi líka það, ef menn sem eru róttækir sósíalistar, mynduðu einhvers staðar flokk og kölluðu hann Alþýðuflokk. Hvort vildi þá hv. 4. þm. Reykv. heldur kalla þann flokk í útvarpinu Alþýðuflokk eða Jafnaðarmannaflokk? — Ég held, að við eigum að lofa þeim erlendu flokkum, sem skapað hafa sér heiti, að halda þeim. Og ég held, að það væri rangfærsla hjá útvarpinu að breyta þeim. Þá villast menn sízt á því, um hvaða flokk er að ræða. Og það, sem mestu skiptir í þessu sambandi, er að upplýsingar um þessa flokka séu réttar. Þetta, sem ég hef haldið fram um flokkaheitin, sést bezt, hve sjálfsagt er, þegar athuguð eru flokkaheiti í fjarlægum löndum. Þegar talað er um Congressflokkinn á Indlandi eða Þjóðþingsflokkinn, ef við ættum að finna eitthvert íslenzkt heiti yfir hann samsvarandi, en vildum þó taka eitthvað úr okkar sögu til þess að nefna hann eftir, þá mundi það líklega verða Sjálfstæðisflokkur eins og sá flokkur var til 1918. Það er samsvarandi stig, sem flokksmenn þessa flokks eru nú á, við það, sem var á Íslandi fyrir 1918, þegar menn stóðu hér saman að því að berjast fyrir sjálfstæði Íslands. Ég veit ekki, hvort hv. 6. þm. Reykv. vildi ganga inn á að kalla þennan flokk á Indlandi Sjálfstæðisflokk. Og með sömu röksemdum mætti segja, að það séu sjálfstæðismenn á Java, sem eru að berjast fyrir sínu sjálfstæði og eru að berjast um völdin við Breta. Hvernig ætli hv. sjálfstæðismönnum hér líkaði það, ef Bretar tilkynntu, að sjálfstæðismenn á Java hefðu drepið þetta eða þetta marga fanga. Og ef Bretar tilkynntu, að sjálfstæðismenn á Java hefðu myrt konur og börn. Ég veit ekki, hvernig hv. 6. þm. Reykv. líkaði að fá þetta nafn á þann flokk á Java, sem er að berjast fyrir sjálfstæði landsins. Ég er hins vegar fjarri því að vilja taka upp þetta nafn á þann flokk. — Svo mundu þessi nöfn, sem við gæfum flokkum, náttúrlega gefa allt aðra hugmynd um stefnur flokkanna en þær raunverulega eru. Þannig er t. d. flokkaskiptingin í Kína, að Alþýðuflokkurinn þar er stór flokkur, en er, eins og menn vita, alger einræðisflokkur. Svo er hins vegar annar flokkur þar í Kína, sem kallar sig kommúnistaflokk, sem berst fyrir því, sem bændaflokkar í Evrópu börðust fyrir víða á 19. öld, að eigum aðalsins verði skipt upp á milli bænda. Þetta er aðalstefnuskrá þess flokks. En það er haldið, þegar þessi flokkur er að berjast í Kína, að þá séu þeir, sem í þeim flokki eru, að hugsa um stóriðju. En það er ekki rétt, því að stóriðja er þar ekki til. Svo eru menn ákaflega reiðir við þennan kommúnistaflokk í Kína, þó að þeir hafi ekki minnstu hugmynd um, hverju hann er að berjast fyrir.

Ég held, að við höfum sætt okkur við það á flestum sviðum, að útvarpið hefur reynt að láta hvert land ráða því sjálft, hvaða heiti það velur flokkum sínum. Við höfum kallað konservativa flokkinn í Bretlandi íhaldsflokk. Eftir því sem hv. 4. þm. Reykv. hélt fram, ætti að velja honum heiti íhaldssamasta flokksins á Íslandi. Og hvað á hann þá að heita? Ég held, að hann ætti að heita Framsfl. Svo kemur annar og segir, að hann eigi að heita Sjálfstfl. Hér getur því orðið vandi að skera úr. Ég held því, að við ættum að láta fréttastofu útvarpsins um þetta með þeim hætti, sem hún hefur lengst af haft. Ég held, að hún hafi leyst það betur en þeir, sem hér hafa lagt orð í belg, hefðu getað gert, fram að þessu.

Viðvíkjandi orði, sem hv. 4. þm. Reykv. minntist á, að hann vildi láta nota heitið Jafnaðarmannaflokkur, þá mundi það vera alveg villandi og í fyrsta lagi vegna þess, að ég er á þeirri skoðun, að það sé ekki rétt fyrir sósíalista að nota þetta orð. En ef það yrði samkomulag milli manna, að það þætti rétt hvað íslenzkt málfar snertir, þá mundi það þýða „sósíalistar“. Það mundi verða nothæft um alla þá flokka, sem okkur annars greinir á um, hversu góðir séu. Þess vegna mundi verða sífelldur misskilningur og deilur um, hvernig þetta orð væri notað. Sjálft orðið með þeirri hugmynd, sem það gefur, gefur alls ekki rétta hugmynd um nútíma sósíalisma, heldur er það orðið, sem haft er um verkalýðshreyfinguna ensku, „liberales“, og væri skást að nota það. Ég held því, að hvað þetta snertir, þá væri það það alvitlausasta, sem við gætum gert, að fara að skíra upp erlenda flokka eftir því, hvað flokkarnir heita hér heima. Við eigum að lofa heiminum að halda sér eins og hann er, eins fjölskrúðugum og hann er, en ekki að gera hann fátækari. Það, sem við fyrst og fremst þurfum að sjá um, að sé gert, er, að fólkið fái að vita um staðreyndir, sem þar gerast.

Ég held, að það hafi verið þessi sami hv. þm., sem fór inn á að sanna, að ekki ætti að taka fréttir eftir Moskvaútvarpinu. Við skulum athuga, hvað er hlutverk útvarpsins gagnvart þeim erlendu fréttum. Það er að tryggja, að þjóðin fái að vita, hvað er að gerast í veröldinni. Og hvers vegna þarf þjóðin að fá að vita það? M. a. vegna þess og fyrst og fremst vegna þess, að hún er sjálfstæð þjóð, sem sjálf á að ákveða sína utanríkispólitík út frá þekkingu sinni á veröldinni, sem hún lifir í. Ef hún hefur ranga þekkingu á þessari veröld, getur hún gert vitleysur í utanríkispólitík sinni, sem getur varðað hennar sjálfstæði. Það er nauðsynlegt nú fyrir íslenzku þjóðina meira en nokkru sinni fyrr að fá að vita mikið og vita rétt um það, sem gerist í veröldinni í kringum hana, því að þjóðin má ekki vaða í villu og svima um staðreyndirnar, hvað er að gerast. Það er betra að fá að vita mismunandi skoðanir um þetta en að fá að vita of lítið. Það hefur verið álit flestra mestu stjórnmálamanna nú, að einhver stærsti gallinn á öllum fréttaflutningi í öllum hinum borgaralega heimi síðustu 15–20 árin hafi verið sá, að menn hafi ekki fengið að vita nógu mikið og rétt um ástandið í Sovétríkjunum, margar þjóðir hafi gert sér svo rangar hugmyndir um, hvers konar ástand þar ríkti, hvað sú þjóð væri sterk og hvað hún gæti gert, að það hefur jafnvel verið talið, að ef stjórnir ýmissa þjóða hefðu haft hugmynd um ástandið í Sovétríkjunum, mundi jafnvel hafa verið komizt hjá því ægilega stríði, sem nú hefur staðið yfir. Það er engum efa bundið, að eitt af því, sem hefur valdið því, að þessar ógnir hafa yfir heiminn gengið, er það, að hjá mörgum þjóðum hefur verið kerfisbundið skýrt rangt frá því ástandi, sem í þessum ríkjum er, með þeim afleiðingum, að meira að segja stjórnendur margra ríkja í heiminum hafa alveg vaðið í villu og svima um það. Það hefur sýnt sig, að fræðslan um þessi ríki þarf að vera miklu miklu meiri en hefur verið áður. Ég held þess vegna, að það sé tími til þess kominn, að við hér á Íslandi athugum alveg realistiskt, hvað við höfum gert í þessu efni og hvað við getum lært af reynslu annarra þjóða í þessu efni. Einum þekktum menntamanni hér, sem ekki fylgir kommúnismanum, varð að orði, þegar staðreyndirnar töluðu einna greinilegast um, að hann hefði haft rangar hugmyndir um þessi ríki : „Mikil lifandi ósköp hefur verið logið að okkur um Sovétríkin.“ Sannleikurinn er sá, að flest ríki Evrópu hafa keppzt við að reyna nú að bæta úr vanþekkingu sinni og reynt að sjá til þess, að þjóðirnar fái nú að vita mjög mikið og sem allra mest um þessi ríki. Menn vilja ekki aftur bera ábyrgð á því, að út frá þekkingarleysi fólksins og valdhafanna séu gerðar aðrar eins utanríkispólitískar vitleysur eins og gerðar voru sumpart út frá þekkingarleysi og röngum hugmyndum í sambandi við undirbúning síðasta stríðs. Þetta er mál, sem ég held, að við ættum alveg án tillits til þess, hvernig skoðanir menn kunna að hafa á sósialismanum, að athuga alveg sérstaklega vegna íslenzku þjóðarinnar í heild, svo að hún geti fengið sem réttastar hugmyndir um það, sem er að gerast.

Nú er það svo hér á landi, að við viljum hafa lýðræði í okkar þjóðskipulagi, og við viljum treysta, á það, að þjóðin sé á hverjum tíma eða meiri hluti hennar færust um að ráða því, hvaða stjórnarstefnu við höfum. Og þá er líka skylda okkar, sérstaklega okkar, sem á þingi erum, að láta þjóðinni þessa þekkingu í té meira að segja án tillits til þess, hvort við erum með eða móti í þessu efni. En það fer mjög fjarri því, að blöðin, eða a. m. k. þrír flokkar hér á landi, hafi skoðað það sem skyldu sína að reyna að skapa slíka almenna fræðslu um Sovétríkin. Ég verð að segja, að þó að ég hafi ekki verið lengur í burtu en þessa 2–3 mánuði, sem ég var í burtu nú í haust, þá brá mér, þegar ég kom heim. Ég var kominn það mikið út úr gamla pólitíska þvarginu hér heima, að ég varð hálfhissa, þegar ég sá, hvernig blöðin skrifuðu viðvíkjandi Sovétríkjunum. Ég var hissa vegna þess, að ég hafði haft tækifæri til að fylgjast með helztu blöðum Norðurlanda á þessum tímum, og ég varð þar hvergi var við þennan móðursýkistón, sem er í skrifum um Sovétríkin hér á landi. Það er ekkert við því að segja, þó að við skömmum hver annan eins og við viljum. Við erum vanir því, og þar dregur enginn af sér. En við skulum gera skyldu okkar í því efni að sjá um, að þjóðin geti haft einhverja möguleika til að geta dæmt um stórfelldustu staðreyndirnar, sem eru að gerast í veröldinni, svo að það geti ekki komið fyrir, að svo og svo stórkostlegir viðburðir og breytingar gerist í veraldarsögunni, sem fari fram hjá henni og hún viti ekkert um það. Þetta er nauðsynlegt fyrir okkur. Við ættum að gefa þjóðinni möguleika til að beita dómgreind sinni sjálfstætt um þá hluti, sem eru að gerast í heiminum og skapa sér þar með þann grundvöll, sem hún á að standa á, en þeim möguleika er hún svipt, ef blaðakostur okkar og ég tala nú ekki um, ef útvarpið er notað eins hatrammlega og gert hefur verið hvað snertir ákveðið ríki í veröldinni, annað, ef ekki helzta stórveldi heimsins. Ég hef ekki orðið var við t. d. í blöðum Sósfl. neina þess háttar aðferð, þegar t. d. hefur verið um stórveldi eins og Bandaríkin að ræða. Þar er ekki verið að tína upp einhver smáatvik, sem kynnu að koma fyrir í einhverjum smáherbúðum eins og ef einhver bandarískur hermaður kynni að myrða konu í Englandi. Þar er ekki verið að reyna að draga þetta fram sem einhvern fjandskap við eitthvert stórveldi, það er ekki verið að setja þetta þar á fremstu síðu, en þetta rekur maður sig daglega á í blöðunum hér heima.

Við verðum að athuga það, að þótt mörgum sé illa við hin sósíalistísku ríki í heiminum, þá er það staðreynd, sem verður ekki út skafin, að sósíalisminn er til og verður til, og þá verðum við að kynna okkur, hvers konar fyrirbrigði þetta er, og þess vegna er útvarpinu skylt að taka upp fréttir frá Moskvu. Ég er sérstaklega hissa á, að þeir, sem hér heima á Íslandi hafa sagt, að þeir væru hinir sönnu lýðræðissinnar og andstæðingar fasismans, að þeir hafa aldrei nokkurn tíma fundið það ámælisvert, að fréttum frá Berlín hefur verið útvarpað á hverjum degi, en stökkva upp og umhverfast, þegar fréttum frá Moskva er útvarpað hér í 2–5 mínútur. Það er óheppilegt og hættulegt fyrirbrigði að vilja meina þjóðinni þannig að fá að vita, hvað þarna sé að gerast. Það er enginn að biðja þjóðina að trúa öllu, sem hún heyrir í fréttum, hvorki frá einum eða öðrum. Þegar fréttum er útvarpað frá Berlín, þá er það ekki gert vegna þess, að útvarpsráð, útvarpsstjóri eða kennslumálaráðuneytið endilega trúi því öllu eða ætlist til, að því sé trúað, heldur til að gefa mönnum hugmynd um, hvað þessir menn álíta um sjálfa sig, en þessir sérstöku postular lýðræðisins hafa aldrei átalið þetta. Nú er það vitanlegt, að Sovétríkin eru orðin langsterkasta veldið í Evrópu. Það er því nauðsynlegt fyrir okkur að hafa hugmyndum, mikla hugmynd, hvers konar ríki þetta er, hvað þessir menn eru að segja og hvaða álit þeir hafa á sjálfum sér alveg eins og við viljum vita, hvað Churchill er að segja í enska útvarpið. En í staðinn fyrir það, að það hefði átt að vera eitt af því, sem hefði gersamlega breytzt í lok þessarar styrjaldar, að mörg hægri blöðin hér á landi hefðu átt að álíta það skyldu sína að reyna að flytja þjóðinni dálítið meira um það, sem gerist í þessu landi, jafnvel þó að fréttirnar væru frá báðum hliðum, þá hefur það öfuga gerzt, því að áróðurinn gegn þessu ríki hefur aldrei verið meiri en nú, því að blöðin hafa haldið uppi æsingum gegn því litla, sem birzt hefur í útvarpinu frá þessu ríki.

Ég held, að við megum til með að líta á þessi mál frá sjónarmiði okkar þjóðar, að henni sé nauðsynlegt að fá að vita þetta eins og annað til að geta dæmt um staðreyndirnar í heiminum, en ekki út frá sjónarmiði þess, hvort stjórnin í þessu landi sé svona og svona mikið í samræmi við það, sem þessi og þessi flokkur vill, eða eitthvað annað þess háttar. Við verðum að reyna að aðgreina það. Ég legg svo mikla áherzlu á þetta vegna þess, að mér er ljóst, að hver einasta þjóð, og það mestu stórveldi heimsins, hafa talið skyldu sína að breyta verulega um í þessu efni, gefa þegnum sínum tækifæri til að fá allt aðra og meiri vitneskju um þetta land, og þeir hafa gert þetta án tillits til þess, að þetta væru ákveðnir pólitískir andstæðingar þeirra. Ég get tekið þar sem dæmi, að eitt íhaldssamasta tímarit heimsins, „Life“, álítur rétt að helga heilt blað frásögn um þetta ríki.

Það er alveg sama, hvert við lítum. Menn deila um þessar stjórnmálastefnur. En menn vilja ekki endurtaka það ástand, sem var 1919–1939, þegar 1/6 hluti veraldar gerði stórkosalega merkilegar athafnir og skapaði ný og áður óþekkt viðhorf og svo og svo mikið af þjóðunum vissi ekki, hvað var að gerast. Menn gera þetta af því, að þeir hafa dýrkeypta reynslu af því, hvað það getur haft að þýða, að þjóðirnar fái ekki að vita hið sanna í þessum málum og fái ekki tækifæri til að skapa sér skoðanir um þau.

Ég held því, að í staðinn fyrir að stökkva upp, ef lesnar eru fréttir frá Moskva eða birt eru sítöt úr blöðum frá þessum ríkjum, þá ættu menn að biðja um að heyra meira um ástandið þarna, fá að vita, hvers konar ríki þetta eru í staðinn fyrir að láta eitthvað mystiskt hvíla yfir þessum ríkjum, sem hafa staðið sig svo framúrskarandi vel í styrjöldinni. Ég er hræddur um, að við Íslendingar séum nærri því eina þjóðin í veröldinni, þar sem þetta gæti komið fyrir. Ég segi þetta af því, að ég er hræddur um, að fjöldi hv. þm. geri sér ekki ljóst, hvað við erum að verða aftur úr og miklir eintrjáningar í heiminum, ef við höldum svona áfram. Það er ekki aðeins af því, að þetta sé leiðinlegt fyrir okkur, að ég vil, að við fáum að vita um það, sem gerist í útlöndum, heldur er það blátt áfram nauðsynlegt fyrir þjóðina að fá fréttaflutning og þá einmitt um það ríki, sem heimurinn er nú sannfærður um, að hann þarf að fá að vita miklu meira um en hann hefur áður fengið.

Stríðið hefur ekki skollið á okkur hér heima með þeim ógnum, sem aðrar þjóðir hafa fengið að kenna á. Það væri því illa farið, ef við létum ekki hina dýrkeyptu reynslu annarra þjóða okkur að kenningu verða. Við erum minnsta þjóðin í veröldinni, en við erum ekki lengur á neinum útkjálka eða í einangrun. Við erum þannig, að tekið er eins mikið eftir okkur og ýmsum öðrum miklu stærri þjóðum. Undir þeirri stefnu, sem okkar litla þjóð markar í utanríkispólitík, verður komið að mjög miklu leyti okkar eigið sjálfstæði og velfarnaður. En þjóðin getur ekki tekið þessar ákvarðanir, skapað sér réttar hugmyndir án þess að fá aðgang að staðreyndunum, án þess að fá þekkingu á þessum málum. Að ætla að dylja hana því, sem er að gerast í voldugasta ríki Evrópu, það er fásinna, ekki endilega vegna þess, að þetta ríki sé sósíalistískt, heldur vegna þess, að þetta er vald í heiminum, sem við sem sjálfstæð þjóð þurfum að hafa hugmynd um, þurfum að þekkja til þess að geta haft þá þekkingu með til hliðsjónar, þegar við mótum okkar pólitík, m. a. okkar utanríkispólitík. Okkur má ekki skorta þennan grundvöll, hvernig sem við dæmum, hvað sem við drögum af þeim staðreyndum, sem við heyrum. Þess vegna er ég á því og vil undirstrika þýðingu þess fyrir okkur frá almennu sjónarmiði, að íslenzkum hlustendum sé látin í té fræðsla um Sovétríkin og að fréttir frá útvarpinu í Moskva séu auknar frekar en hitt. Margar þjóðir mundu vilja gefa mikið til þess, að þær hefðu 1938 verið búnar að fá þá fræðslu um Sovétríkin, sem þær hafa nú fengið, líka úr íhaldssömustu blöðunum í kapítalísku löndunum. Það er því svo langt frá því, að nú séu tímar til fyrir okkur að minnka það litla, sem við fáum í íslenzka útvarpinu að vita um þessi ríki, heldur er miklu fremur ástæða fyrir okkur að reyna að vinna það upp, sem við höfum vanrækt. Og þar hefur verið um meira en vanrækslu að ræða, því að þar hefur verið gengið í þveröfuga átt og beinlínis útbreidd skipulagsbundin ósannindi um þessi ríki. Þess vegna tel ég, að þessi þáltill. og tildrög hennar sé ákaflega leiður vottur um það þroskaleysi, sem hér ríkir enn í þessum málum. En ég er þó alls ekki með þessum orðum að reyna að fá andstæðinga sósíalismans á þá skoðun, sem ég hef, en hinu held ég fram, að vegna þess að okkar þjóð á á lýðræðislegan hátt að ákveða sína utanríkispólitík, á hún heimtingu á að fá frá útvarpinu þekkingu um þau mál, sem hún þarf að leggja til grundvallar, þegar hún ákveður þessa hluti. Íslenzka útvarpið hefur undanfarið látið allt of lítið af þeirri þekkingu í té.

Að svo mæltu ætla ég að láta þessari ræðu lokið, en kann síðar meir að fara inn á málið, ef nauðsyn krefur.