19.11.1945
Neðri deild: 35. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (4642)

95. mál, ferðaskrifstofa ríkisins

Frsm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Eins og tekið er fram í grg., er frv. þessu fylgir, er það flutt að beiðni hæstv. samgmrh., og hafa einstakir nm. óbundnar hendur um breyt. á því og öllu, er varðar málið sjálft. — Með l. nr. 33 frá árinu 1936 var stofnuð ferðaskrifstofa ríkisins. Sú skrifstofa starfaði hér á landi þar til skömmu eftir að ófriður brauzt út. Hennar hlutverk var að greiða fyrir því, að útlendir menn, sem vildu ferðast til Íslands, ættu þess kost, og að hvetja menn til þess að koma hingað í sumar- og skemmtiferðalög. En þegar ófriðurinn hafði staðið nokkra stund og sýnt var, að svo mundi halda áfram um hríð, varð samkomulag um það hér á Alþ. að fresta framkvæmdum þessara l., og var það gert með 19. lið í l. nr. 99 14. maí 1940, um bráðabirgðabreytingar nokkurra l. Nú þegar ófriðurinn er á enda og búast má við því, að brátt verði tekin upp meiri ferðalög um landið, þykir rétt, að ferðaskrifstofan taki til starfa á ný og að felldur verði úr gildi þessi 19. liður í l. um brb. breyt. nokkurra l. frá 1940. En um leið og lagt er til í frv., að ferðaskrifstofan verði þannig endurvakin, eru gerðar tvær breyt. á skipan þessara mála frá því, sem áður var. Önnur breyt. snertir tekjur ferðaskrifstofunnar, og er hana að finna í 3. gr. frv., en þar segir svo: „Heimilt er að greiða kostnað við rekstur ferðaskrifstofu ríkisins af sérleyfisgjaldi bifreiða, sem innheimt er samkvæmt 6. gr. l. nr. 22 30. janúar 1945, um, skipulag á fólksflutningum með bifreiðum.“ En í þeim l. frá 1945 er mælt svo fyrir í 6. gr. þeirra l., að undanþegin skuli gjöldum sérleyfishafa 7% af andvirði afhentra farmiða, en í upprunalegu l. um ferðaskrifstofu ríkisins var gert ráð fyrir að afla henni tekna með því að leggja sérstakt stimpilgjald á farmiða með bifreiðum í áætlunarferðum. Með því að grundvellinum, sem áður var á eins konar skattalöggjöf á tekjur þær, sem sérleyfishafar höfðu af þessum ferðum, var breytt með l. nr. 22 1945, þótti einsætt, að einnig þyrfti að breyta þessu, hvað ferðaskrifstofuna snerti. Hér er því um eðlilega og sjálfsagða leiðréttingu að ræða. Er þetta að finna í 1. gr. frv., þannig að það verður viðauki við það, sem áður var í l. um ferðaskrifstofu ríkisins, þar sem gert er ráð fyrir því, að komi ný gr., er verði 4. gr., inn í löggjöfina um ferðaskrifstofu ríkisins á þá leið, að ferðaskrifstofa ríkisins skipuleggi ódýrar orlofsdvalir og orlofsferðir og geri sér far um að semja um afslátt á dvalarkostnaði og fargjöldum með farartækjum ríkisins og einkafarartækjum fyrir hópferðir, sem farnar eru fyrir orlofsfé. Í niðurlagi gr. segir, að hið sama gildi um hópferðir, sem stofnað er til af bændum landsins. Það þykir sjálfsagt, þegar ferðaskrifstofan tekur til starfa á ný, að hennar hlutverk verði ekki aðeins að greiða fyrir því, að útlendir skemmtiferðamenn geti ferðazt um landið og notið þess, sem landið hefur bezt upp á að bjóða, heldur einnig að greiða fyrir ferðum landsmanna sjálfra um landið, en með orlofslöggjöfinni var lagður merkilegur grundvöllur að því, að launastéttir landsins gætu notað orlof sitt til þess að sjá sig um í landinu sjálfu, og væntanlega síðar meir, þegar úr greiðist og betra ástand verður komið á í heiminum, einnig til að ferðast til annarra landa. Það virðist því sjálfsagt hlutverk ferðaskrifstofunnar, eftir að löggjöf er komin á um orlofsferðir launastétta landsins og eftir að farið er að styrkja af opinberu fé hópferðir bænda um landið, að ferðaskrifstofan greiði fyrir þessum ferðalögum, og er þetta ákvæði því til batnaðar og eðlilegt í alla staði. — Að öðru leyti er ekki þörf á að fjölyrða um þetta frv. Það hefur verið skýrt frá, hvaða ástæður liggja til þess, að það er flutt, og hvaða breyt. gerð frá því, sem áður var um ferðaskrifstofu ríkisins, en með því að það er flutt af allshn., sé ég ekki ástæðu til að vísa því til n. á ný, heldur gangi áleiðis gegnum hv. d. nefndarlaust, en ef einhverjar brtt. kæmu fram við frv. undir meðferð þess hér í hv. d., mun allshn. að sjálfsögðu taka þær til athugunar, án þess að málinu sé formlega til hennar vísað.