19.11.1945
Neðri deild: 35. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í C-deild Alþingistíðinda. (4643)

95. mál, ferðaskrifstofa ríkisins

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil aðeins þakka hv. allshn. og hv. frsm. hennar fyrir það, hve greiðlega n. hefur tekið við þessu frv. og afgr. það. Ég vil aðeins skýra frá því, hvernig á því stendur, að óskað hefur verið eftir því, að þetta frv. kæmi hér fram. Þær ástæður liggja til þess, að þegar eru farnar að berast fyrirspurnir frá ýmsum útlendum aðilum til ráðuneytisins um það, hver fyrirgreiðsla verði hér viðhöfð fyrir erlenda ferðamenn, sem hingað vilja leita. Það má gera ráð fyrir því, að hingað leiti nú ef til vill meiri fjöldi ferðamanna tiltölulega en áður gerðist, og liggja til þess ýmsar orsakir. Í fyrsta lagi sú, að meðan stríðið hefur staðið hefur dvalið hér fjölmennur her, og ýmsir meðlimir þessa hers hafa borið út um heiminn ýmsa vitneskju um landið, sem gæti orðið til þess að auka hingað ferðamannastrauminn. Í öðru lagi er landið orðið miðstöð á flugleiðum milli heimsálfa, og er þess vegna ástæða til að ætla, að hingað komi fleiri til dvalar en áður. Í þriðja lagi er meginland Evrópu nú sem stendur lokað land, og hafa ferðamannafrömuðir haft orð um það, að meðan það er ýmsum erfiðleikum háð að ferðast til Evrópulandanna, t. d. Ítalíu og Frakklands, og að það muni draga mjög úr löngun manna til þess að fara þangað, þá væri einmitt núna tíminn, sem hægt væri að snúa ferðamannastraumnum meira hingað en áður og undirbúa þannig framtíðina til þess að gera Ísland að verulegu ferðamannalandi. Einn þáttur í þessum undirbúningi hlýtur að verða sá, að við verðum að hafa hér einhverja aðila til þess að veita þessu fólki fyrirgreiðslu í svipuðu formi og ferðamannaskrifstofan byggist á og talin var hafa gefizt vel. Ég tel því sjálfsagt, að þessi l. verði sett að nýju eða sú frestun, sem um framkvæmd þeirra var gerð, verði upphafin og l. komi í gildi eins og hér er gert ráð fyrir. Að vísu þarf þó fleira að koma til til þess að móttökuskilyrði komist í gott horf fyrir erlenda ferðamenn, það krefst t. d. nýrra hótela og ýmislegs fleira, sem og þegar er að nokkru leyti í undirbúningi. Hafa af hálfu samgmn. þegar verið lögð nokkur drög að undirbúningi þessa máls, og er þetta frv. einn þáttur í þeirri viðleitni að skapa hér sæmileg móttökuskilyrði fyrir þetta fólk, sem við vitum, að mun koma hingað og óska eftir að fá hér sæmilega fyrirgreiðslu, svo að ferðin geti orðið þeim til ánægju og þjóðinni til sóma og fjárhagslegs ávinnings. — Vil ég svo endurtaka þakkir mínar til hv. allshn., sem um málið hefur fjallað, og vona, að frv. fái að ganga sinn gang áfram.