06.11.1945
Neðri deild: 22. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í B-deild Alþingistíðinda. (465)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Mig langar til að gera grein fyrir afstöðu minni til þessa frv. og því, að ég er fylgjandi því, að frv, verði samþ. óbreytt. Það er ekki beinlínis af því, að ég sé ánægður með frv. í heild, að ég fylgi því, né með þessa aðferð á málunum frá fyrstu tíð. En mér finnst, að þetta frv., ef samþ. verður, geti átt töluverðan þátt í því að koma í veg fyrir það, sem hefur átt töluverðan þátt í því ófremdarástandi í dýrtíðarmálunum hér á landi og í landbúnaðarmálunum á undanförnum árum. Menn eru alltaf að tala um sex manna nefndar álitið og um l. um það og að það hefði átt að gilda. En það eru ekki l. um sex manna nefndar álitið, sem þessir menn álíta, að eigi að gilda, heldur að ríkið ábyrgist bara verðið fyrir bændur á vöru þeirra, hvort sem hún selst eða selst ekki. — Menn vita, hvað þessi l. um verðuppbætur til bænda hafa kostað ríkissjóð undanfarandi. — Bændur hafa viljað vera frjálsir um að verðleggja sína vöru, og ég er með því. En með þessum l. undanfarandi hafa þeir fengið ábyrgð ríkissjóðs fyrir verðinu á vörunni.

Ég hefði álitið betra að ákveða verðið í vísitölunni á kjötinu 6 kr. á kg., eða reikna út vísitöluna með 6 kr. kjötverði, eins og það var, og segja við bændur: Þið megið selja vöruna hvað hátt sem þið viljið. — Og þá hefði komið í ljós, hvernig þeir hefðu staðið. En ég er viss um, að hvergi í víðri veröld hefði þýtt að bjóða kjötið með hærra verði en það stendur í vísitölunni. En það er hægt að selja það hærra, ef ríkið borgar svo og svo mikinn hluta af verðinu.

En það er brtt. hv. 2, minni hl. landbn., sem ég vildi tala um. Mig langar til að víkja því til hv. frsm. minni hl. n., sem alltaf er að tala um jafnrétti í þjóðfélaginu og að stéttarsamband bænda eigi að hafa sama rétt og önnur stéttarsamtök —: Ætlast þeir til, sem hafa sömu skoðun og hv. frsm. 2. minni hl. n., að ríkið kosti öll stéttarsamtök á landinu, eins og þeir álíta, að það eigi að kosta stéttarsamband bænda? Ætlast þeir til, að ríkið borgi öll þau gjöld t. d. eftir alþýðusambandsreikningi? Ég fyrir mitt leyti, sem einn meðlimur stéttarfélags, er á móti þessu. Það þýðir ekkert fyrir bændur að ætla að reka stéttarfélag á kostnað einhvers sterks aðila, því að þá tekur sá aðili öll ráðin og völdin. Og ef bændur geta ekki myndað stéttarfélag eða þetta stéttarfélag, sem þeir þykjast nú hafa myndað — nema þannig, að ríkið haldi því uppi, þá verða þeir að sætta sig við, að þeir tapi völdum í því stéttarfélagi. Og ég vil fá úr því skorið, hvort þeir meina, að ríkið eigi að borga allan kostnað við sinn stéttarfélagsskap. (PO: Ríkið á ekki að borga einn eyri fyrir stéttarfélag bænda). Ætlast þeir til, að ríkið borgi kostnað við öll stéttarfélög í landinu? (PO: Það stendur skýrum stöfum um þetta í frv., sem liggur fyrir Alþ., en hv. 1. landsk. þm. hefur ekki lesið).