19.02.1946
Neðri deild: 70. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í C-deild Alþingistíðinda. (4657)

99. mál, æfinga- og tilraunaskóli

Frsm. (Páll Þorsteinsson) :

Menntmn. deildarinnar hefur athugað þetta frv. milli 1. og 2. umr. og leggur til, að það verði samþ. óbreytt.

Þetta er í raun og veru gamalt mál. Þegar lögin um kennaraskólann voru endurskoðuð 1933, var grein felld inn í þau, sem hljóðar svo:

„Stofna skal, svo fljótt sem hægt er, tilraunaskóla, er verði starfræktur í sambandi við kennaraskólann.“ Með þessu ákvæði 1933 var stefnan ákveðin, svo að það er í raun og veru ekkert nýtt frv. á ferðinni. Alþingi hefur. nú ákveðið að leggja fram fé í fjárlögum til skólans að upphæð 250 þús. Þetta frv. er því að sjálfsögðu afleiðing af þeirri ákvörðun, sem Alþ. hefur með því tekið. Þetta er því aðeins staðfesting.

Þessi tilraunaskóli á að sjálfsögðu fyrst og fremst að vera til þess að gera kennarana hæfari og veita þeim nokkra reynslu. Þá er og rétt að geta þess, að þeim börnum, sem sækja þennan tilraunaskóla, er ætlað að fá þar fullkomna barnafræðslu, og gæti þessi skóli þá um leið létt nokkuð á barnaskólunum hér í Rvík. Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar.